Niðurlútur Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá Ingvari fyrirliða í gær. Vinstra megin er Úlfar Jón sem skoraði tvívegis.
Niðurlútur Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá Ingvari fyrirliða í gær. Vinstra megin er Úlfar Jón sem skoraði tvívegis. — Ljósmynd/Stefán Örn Sigurðsson
Á Spáni Kristján Jónsson kris@mbl.is Leikur íslenska landsliðsins í íshokkí hrundi gersamlega í öðrum leikhluta þegar liðið mætti Serbíu í 2. deild heimsmeistaramótsins í Jaca á Spáni í gær.

Á Spáni

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Leikur íslenska landsliðsins í íshokkí hrundi gersamlega í öðrum leikhluta þegar liðið mætti Serbíu í 2. deild heimsmeistaramótsins í Jaca á Spáni í gær. Eftir að hafa komist í 3:0 tapaði Ísland þegar upp var staðið 3:6. Fyrir lokaumferðina í dag er Holland með 11 stig, Spánn 9, Belgía 7, Serbía 4, Ísland 4 og Kína eitt stig.

Í dag ræðst hver örlög íslenska liðsins verða. Liðið er ekki enn sloppið við fall en það skýrist þegar Serbía og Kína spila. Kína þarf þriggja marka sigur og minnst sjö mörk til að fella íslenska liðið. Kína fellur með eins eða tveggja marka sigri, og með þriggja marka sigri ef mörkin eru sex eða færri. Serbía fellur ef Kína vinnur með fjórum mörkum eða meira. Líklegast er þó að Serbía vinni. Þá verður Ísland í 5. sæti jafnvel þótt liðið vinni Spán í kvöld en gæti fengið jafn mörg stig og Belgía.

Fyrsti leikhluti var geysilega góður af hálfu íslenska liðsins og með því besta sem liðið hefur sýnt á HM að þessu sinni. Mikill hraði, góð pressa og staðan 3:0 að leikhlutanum loknum. Þriðja lína skilaði auk þess marki sem er alltaf dýrmætt, eftir sprett frá Fali Guðnasyni.

Í öðrum leikhluta tókst íslenska liðinu ekki að halda uppi þeim hraða sem verið hafði í fyrsta leikhlutanum. Auk þess misstu leikmenn einbeitinguna þegar Serbar fóru að þjarma að þeim. Serbar skoruðu sitt fyrsta mark þegar um tvær mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta. Um tíu mínútum síðar hafði liðið jafnað 3:3. Fór svo að Serbar tóku forystuna 4:3 fyrir síðasta leikhlutann. Þar náðu íslensku leikmennirnir aldrei að rífa sig almennilega í gang á ný og Serbar gengu á lagið og bættu við tveimur mörkum.

Þriðji sigur Serba í röð

Var um að ræða þriðja sigur Serba í röð á Íslendingum en þar áður hafði Ísland unnið þrjá í röð hjá þessum þjóðum. Íslendingar halda áfram að hleypa inn mörgum mörkum í mótinu og eru þau alls orðin sautján í leikjunum fjórum. Sérkennilegt að fæst mörk fékk liðið á sig gegn Hollandi sem er sterkasta liðið í riðlinum.

Úlfar Jón Andrésson skoraði tvívegis fyrir Ísland í leiknum og Jóhann Már Leifsson einu sinni. Hafa þeir þá báðir gert þrjú mörk í mótinu. Undirritaður sagði við Úlfar að leiknum loknum gegn Kína að hann skoraði ekki oft fyrir landsliðið. Úlfar benti þá á að hann skoraði alltaf í hverju móti og vonaðist eftir því að skora gegn Serbíu því hann hefði gert það undanfarin ár.

„Það dugði ekki alveg. Það er engin huggun að skora tvö þegar svona fer. Okkur tókst ekki að halda markinu hreinu þegar við vorum manni færri að þessu sinni en höfðum nánast gert það í hinum þremur leikjunum í mótinu. Við fengum á okkur svolítið klaufaleg mörk þar sem við vorum illa staðsettir. Fyrsti leikhluti var góður hjá okkur en dugði ekki til að vinna leikinn því annar og þriðji leikhluti voru ekki í lagi,“ sagði Úlfar við Morgunblaðið í gær.