Jónas Helgi Baldursson fæddist á Fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar 9. maí 1980. Hann lést þriðjudaginn 1. apríl 2016.

Foreldrar hans voru Baldur Björnsson frá Stóru-Þverá í Austur-Fljótum í Skagafjarðarsýslu, f. 24. febrúar 1933, d. 9. febrúar 2005, og Guðrún Fanney Guðmundsdóttir frá Lýtingsstöðum í Lýtingsstaðarhreppi í Skagafirði, f. 1. febrúar 1941, d. 29. ágúst 2010. Systkini Jónasar eru: 1) Karl Líndal, f. 17. október 1952, maki Mirian Turno, f. 22. október 1966. 2) Borgþór, f. 23. október 1954, maki Sigrún Þórhallsdóttir, f. 4. nóvember 1954. Börn þeirra eru Stefán Björn og Andri Fannar. 3) Hermann Valgarður, f. 30. september 1962, maki Anna Þóra Guðmundsdóttir, f. 22. ágúst 1971. Dóttir hans er Elín Björk. 4) Guðmundur Ingi Baldursson, f. 10. júlí 1963, d. 11. janúar 2011. 5) Guðrún Halldóra, f. 21. ágúst 1969, maki Hjálmar Ólafsson, f. 7. janúar 1961. Barn þeirra Sigursteinn Víkingur. 6) Elínborg, f. 10. júlí 1971, maki Elvar Þór Sigurjónsson, f. 8. október 1965. Börn þeirra eru Rakel Ösp og Birkir Freyr. 7) Ingibjörg, f. 7. desember 1973, maki Ingi Sigurbjörn Hilmarsson, f. 29. janúar 1977. Börn þeirra eru Anna Karolína, Baldur Fannar, Hilmar Már og fyrir átti Ingibjörg Sigurjón Ágúst. 8) Björn Stefán, f. 29. september 1975. Börn hans eru Aron Máni og Bjartur Már.

Útför Jónasar Helga fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 15. apríl 2016, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Elsku bróðir, það er bæði erfitt og óskiljanlegt að þurfa að setjast niður og skrifa minningarorð um þig, litla bróður minn. Það var þungt högg þegar símtalið um andlát þitt barst mér. Þú varðst bráðkvaddur heima hjá þér. „Þeir deyja ungir sem guðirnir elska,“ segir einhvers staðar. Þau orð veita mér litla sem enga huggun núna. Það er eitthvað svo rangt við það að bera litla bróður sinn til grafar. Ég á margar góðar minningar um þig. Þú varst ljúfur og góður drengur þó stundum hafi skugga borið á samskipti okkar, eins og stundum vill verða milli systkina. Þú varst líka alltaf góður við strákana mína og mun ég segja þeim frá því og hversu góðan frænda þeir áttu í þér. Ég veit að Gummi bróðir, mamma og pabbi munu taka vel á móti þér.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Hvíldu í friði, elsku litli bróðir og frændi.

Björn bróðir, Aron og

Bjartur litlu frændur þínir.

Lífið, alltaf jafnundarlegt sem dauðinn. Viðbrögð við andláti litla bróður míns eru ólýsanleg. Sorgin, tómleikinn og reiðin, þá minningarnar, söknuðurinn og tárin. Þannig var því farið er ég frétti af andláti Jónasar litla bróður. Elsku litli bróðir minn, hann Jónas Helgi, er fallinn frá aðeins 35 ára gamall. Það voru hræðilegar fréttir sem bárust okkur hinn 1. apríl, að þú hefðir orðið bráðkvaddur, enda maður á unga aldri. Ég var marga daga að átta mig á því að þú værir virkilega farinn og kannski er ég ekki búin að því enn. Ég veit að mamma, pabbi og Guðmundur munu taka vel á móti þér.

Vegir Guðs eru órannsakanlegir og við trúum því að einhver sé tilgangurinn. Máltækið „þeir sem guðirnir elska deyja ungir“ hlýtur að þýða eitthvað. Þeim er ætlað eitthvert hlutverk, útvaldir hafa áhrif langt út fyrir gröf og dauða. Vera Jónasar hér á meðal okkar og dauði hans er ef til vill að kenna okkur að meta lífið og tilveruna upp á nýtt, hugsa og hlusta betur á hjartaslátt hvert annars.

Elsku litli bróðir, ég trúi því að þú sért á Guðs vegum og hann varðveitir sálu þína. Ég bið hann að fyrirgefa okkur það sem við höfum gert rangt. Ég trúi því að þínu verkefni sé ekki lokið.

Mamma og pabbi döpur eftir drengnum sínum bíða,

– í dag kemur hann heim.

Í dag kemur hann heim úr sínu hinsta stríði, – ennþá

er hvíldin best hjá þeim.

Hann kemur ekki hlæjandi með heiðursmerki á brjósti

né hefðartitil neinn,

en kemur þó sem hetja, ung og fátæk, fallin hetja.

Hann féll í kyrrþey – einn.

Og hetjan unga fer nú aftur heim til mömmu og pabba,

með hreinan skjöld í dag.

– Ég veit, að heldur hefði ´ann kosið sólskin yfir sveitum

en sorgargöngulag.

Því bið ég mömmu og pabba að tengja söguna um soninn

við sólskin heimaranns

og verma hjartans blómin sín, öll börnin hin, sem lifa, –

með brosi og draumum hans.

(Jóhannes úr Kötlum)

Hvíl í Guðs friði.

Þín systir,

Elínborg.