Kristín Marsellíusdóttir fæddist 30. september 1928. Hún lést 24. mars 2016.

Kristín var jarðsungin 2. apríl 2016.

Í dag kveðjum við Stínu. Vinkona okkar og nágranni í áratugi og hamingjusöm eiginkona Gumma Páls heitins, föðurbróður okkar. Stína er okkur ljóslifandi í huga frá uppvexti okkar systkina, það var daglegur samgangur milli húsa, við krakkarnir, Margrét, Einar Þór, Ásgeir Þór og Kristján á Völusteinsstræti 16 vorum miklir leikfélagar frændsystkina okkar á nr. 18, þar gengum við inn og út eins og heima hjá okkur. Það var engin lognmolla í hverfinu á þessum árum og húsmæður réðu sínum húsum. Maður sér Stínu fyrir sér í eldhúsinu með kaffibolla og sígarettu og glettnislegt augnaráð að siða okkur krakkana til. Það var gott að eiga Stínu að, hún stóð með sínum og hélt vel utan um fólkið sitt.

Heimilið var hennar ævistarf og þar leið henni best. Þeim hjónum fannst samt mjög gaman að ferðalögum, þau fóru margar ferðir um allan heim og voru dugleg að keyra um landið.

Á stóru og myndarlegu heimili Gumma og Stínu var ávallt afslappað og gott að vera þar. Farsælt og hamingjusamt hjónaband Gumma og Stínu stóð í 60 ár, börnin urðu fimm, barnabörn og barnabarnabörnin skipta tugum. Við eigum margar góðar minningar með þeim öllum frá bernskuárunum.

Stína sagði stundum við mig seinni árin þegar ég heimsótti hana á skýlið: „Ég á nú dálítið í þér, Einar minn.“ Ég svaraði og geri aftur hér: „Já, Stína mín, þú átt heilmikið í mér.“

Ásgeir Þór heitinn bróðir sótti mikið til Gumma og Stínu og fannst gott að vera hjá þeim, þau reyndust honum vel og honum þótti vænt um þau. Fyrir það og svo ótalmargt annað þökkum við systkinin nú á kveðjustund. Innilegar samúðarkveðjur, elskulega frændfólk, við fráfall ættmóður sem hugsaði svo vel um fólkið sitt.

Einar Þór.

Háa skilur hnetti

himingeimur,

blað skilur bakka og egg,

en anda, sem unnast,

fær aldregi

eilífð að skilið.

(Jónas Hallgrímsson)

Þessi orð listaskáldsins góða úr Öxnadal voru mín kveðjuorð til eiginkonu frænda míns og vinar, Kristjáns Páls Sigfússonar, hennar Guðbjargar Lilju, fyrir fáeinum árum og nú færi ég sömu orðin kærri vinkonu, Kristínu Marzellíusdóttur, konu frænda míns og kærs vinar, Guðmundar Páls Einarssonar. Það er oft sagt að margt sé líkt með frændum og víst má líkja saman hjónaböndum bræðrasonanna Didda Fúsa og Gumma Páls. Annar átti sína Dúddý að lífsförunaut en hinn sína Stínu Mass. Bæði hjónaböndin voru ákaflega farsæl og entust ævina út og í báðum tilfellum voru það eiginkonurnar sem fengu í fáein ár það hlutverk að syrgja látinn lífsförunaut. Kærleiksbandið var álíka sterkt og frægt samband þeirra bræðra Sigfúsar og Einars Guðfinnssona sem sagt er að hafi talað saman daglega þó fjöll og dalir skildu þá að.

Ísfirðingum og Bolvíkingum, sem okkur þekktu, var kunnugt um sterkt vináttusamband okkar Guðmundar Páls, sem tengdist sameiginlegum áhugamálum okkar og samofnum viðskiptum en það var ekki síðra að eignast vináttu Kristínar Marzellíusdóttur sem Gummi Páll frændi kallaði jafnan Stínu Mass. Ég á svo ótal margar minningar um heimsóknir á þeirra fallega heimili við Völusteinsstræti í Bolungarvík þar sem ég fékk að kynnast mannkostum Stínu Mass og njóta þar sannrar vináttu og gestrisni þessara samrýmdu hjóna. Stína var einn þessara samferðamanna sem óx eftir því sem maður kynntist henni betur. Hún var alla tíð hreinskiptin og lá ekki á skoðunum sínum, talaði enga tæpitungu ef réttlætiskennd hennar var særð en vinátta hennar var ósvikin og fölskvalaus sem kannski er best lýst með orðinu tryggðatröll.

Samband mitt við Stínu Mass og Gumma Pál er geymt í sjóði dýrmætra minninga. Kannski var hápunktur þess sameiginleg hópferð samstarfsmanna til Dyflinnar um páska á tíunda áratugnum. Samkennd hópsins var mikil en enginn var þó í neinum vafa um að Stína Mass var drottningin í hópnum. Hún hafði þetta yfirbragð að vera í senn alþýðleg kona og með höfðingjafas. Missir hennar var mikill er Gummi Páll féll frá en að honum gengnum er mér ljúft að minnast góðra stunda í heimsóknum til Stínu á vistheimilið í Bolungarvík þar sem svo vel er hlúð að öldruðum og sjúkum.

Því miður verðum við Salbjörg á fjarlægri strönd er Stína heldur til móts við Guðmund Pál og þann Guð sem fylgdi henni ævina á enda. Við flytjum öllum börnum þeirra, barnabörnum, tengdafólki, vinum og ættingjum innilegar samúðarkveðjur. Minning mikillar sómakonu mun lifa með öllum sem nutu kærleika hennar og vináttu. Kæra Kristín. Fljúgðu á vængjum friðarboðans meira að starfa Guðs um geim.

Ólafur Bjarni Halldórsson.