[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Hlíðarenda Skúli Unnar Sveinsson skuli@mbl.is Það var svo sannarlega líf og fjör í Valshöllinni að Hlíðarenda í gærkvöldi þegar Valur tók á móti Fram í fyrsta (eða fyrri) leik liðanna í átta liða úrslitum Olísdeildar karla í handknattleik.

Á Hlíðarenda

Skúli Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

Það var svo sannarlega líf og fjör í Valshöllinni að Hlíðarenda í gærkvöldi þegar Valur tók á móti Fram í fyrsta (eða fyrri) leik liðanna í átta liða úrslitum Olísdeildar karla í handknattleik. Lokatölur urðu 30:28 fyrir heimamenn eftir að framlengja þurfti leikinn í tvígang til að knýja fram úrslit.

Eftir venjulegan leiktíma var staðan 20:20 og það má segja að Framarar hafi kastað frá sér sigrinum. Þegar þrjár mínútur voru eftir var staðan 18:20 fyrir Fram, en Valsmönnum tókst að minnka muninn og síðasta sókn Fram var hálfvandræðaleg enda Valsmenn út um allan völl og pressuðu gestina stíft. Elías Bóasson var kominn í sjálfheldu með knöttinn þegar örfáar sekúndur lifðu og brá á það snjalla ráð að kasta boltanum í háum boga yfir mark Vals, frá miðjum vallarhelmingi þeirra. Þannig vann hann dýrmætan tíma, en Sigurður Ingiberg í marki Vals var eldsnöggur að ná í boltann, kom honum fram á Ými Örn sem fór inn úr nokkuð erfiðri stöðu á síðustu sekúndubrotum leiksins. Það var brotið á honum og vítakast dæmt og úr því skoraði Ómar Ingi.

Ef ekki hefði verið brotið á Ými Erni þá hefði leiktíminn runnið út án þess að hann hefði náð að skora. En það er alltaf hægt að velta sér upp úr því hvað hefði gerst ef hitt og ef þetta.

Valur var 23:22 yfir eftir fyrri hálfleik fyrri framlengingar og staðan var síðan 25:25 eftir fyrri framlenginguna.

Í þeirri síðari gerðu Valsmenn tvö mörk í fyrri hálfleiknum en Fram ekkert, staðan 27:25 og Valsmenn náðu að halda því forskoti og fögnuðu sigri.

Guðmundur Hólmar Helgason var frábær í liði Vals, lék allan leikinn nema seinni framlenginguna, þá var hann kominn með það mikinn sinadrátt að hann gat ekki leikið meira.

Ómar Ingi Magnússon átti einnig fínan leik, skaut raunar dálítið mikið en hann skoraði líka mikið og er mjög flink skytta.

Hjá Fram var Þorgrímur Smári Ólafsson atkvæðamikill sem og Garðar Sigurjónsson, en besti maður Fram var Kristófer Fannar Guðmundsson markvörður sem átti flottan leik, varði 21 skot og þar af 2 vítaköst.

Sá sem þetta skrifar bjóst satt best að segja við nokkuð öruggum sigri Vals þegar hann mætti á Hlíðarenda, þrátt fyrir að allir þrír leikir liðanna í deildarkeppninni hafi verið jafnir og spennandi. Kannski var það vegna slæms gengis Framara í þriðja hluta deildarinnar, en þeir eru greinilega komnir á beinu brautina á ný. Vonandi verður rimma liðanna þrír leikir. Þetta var svo gaman í gærkvöldi.

Valur – Fram 30:28

Valshöllin, 8-liða úrslit karla, 1. leikur, fimmtudag 14. apríl 2016.

Gangur leiksins : 2:1, 5:4, 8:4, 9:6, 12:10 , 13:12, 14:15, 15:16, 16:17, 18:19, 20:20 .22:21, 23:22 , 24:22, 25:25, 27:25, 29:26, 30:28.

Mörk Vals: Ómar Ingi Magnússon 8/2, Guðmundur Hólmar Helgason 7, Sveinn Aron Sveinsson 5, Geir Guðmundsson 2, Ýmir Örn Gíslason 2, Orri Freyr Gíslason 2, Vignir Stefánsson 2, Atli Már Báruson 1, Alexander Örn Júlíusson 1.

Varin skot : Hlynur Morthens 7/1, Sigurður Ingiberg Ólafsson 6.

Utan vallar : 8 mínútur. Atli Már Báruson fékk beint rautt á 57. mínútu.

Mörk Fram: Þorgrímur Smári Ólafsson 7, Garðar B Sigurjónsson 7/5, Óðinn Ríkharðsson 5, Arnar Freyr Ársælsson 4, Stefán Darri Þórsson 3, Stefán Baldvin Stefánsson 1, Elías Bóasson 1.

Varin skot : Kristófer Fannar Guðmundsson 21/2.

Utan vallar : 4 mínútur.

Dómarar : Arnar Sigurjónsson og Svavar Ólafur Pétursson.

Áhorfendur : 364.