[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erla Gerður fæddist í Kálfsskinni á Árskógsströnd í Eyjafirði 15.4.

Erla Gerður fæddist í Kálfsskinni á Árskógsströnd í Eyjafirði 15.4. 1966: „Kálfsskinn var gestkvæmt sveitaheimili þar sem ég kynntist ýmsum störfum því auk hefðbundinna sveitastarfa var rekin þar ferðaþjónusta, fæðingarheimili og byggingarfyrirtæki en foreldrar mínir eru frekar þekkt fyrir að vera virk í sínum störfum og ýmsu félagsstarfi.“

Eftir grunnskóla í Árskógi og gagnfræðaskóla á Dalvík fór Erla Gerður í MA, lauk þaðan stúdentsprófi 1986 og útskrifaðist úr læknadeild HÍ árið 1994.

Erla Gerður starfaði á ýmsum deildum Landspítala, var læknir í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og í friðargæslusveit NATO í Bosníu 1997-98, í samstarfi við breska herinn.

Erla Gerður útskrifaðist sem sérfræðingur í heimilislækningum frá HÍ árið 1994 en hluta námsins stundaði hún í Noregi. Hún er einnig með meistaragráðu í lýðheilsufræðum frá HR sem hún lauk árið 2012. Erla Gerður var lengi heimilislæknir í Salahverfi í Kópavogi, á Landspítala, á offitusviði Reykjalundar og um tíma yfirlæknir á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Hún stofnaði, ásamt mágkonu sinni, Önnu Borg, fyrirtækið Heilsuborg sem hóf starfsemi árið 2009. Þar er hún læknir og fagstjóri heilbrigðisþjónustu.

Í daglegu starfi sínu vinnur Erla Gerður með einstaklingum að bættri heilsu og heilsusamlegum lífsstíl og hefur sérhæft sig í þyngdarstjórnun og offitumeðferð.

Erla Gerður er formaður Félags fagfólks um offitu og tekur þátt í alþjóðasamstarfi á þeim vettvangi. Hún er einnig trúnaðarlæknir hjá Vinnuvernd.

Samvera með fjölskyldu og vinum er kærasta áhugamál Erlu Gerðar enda segist hún vera ótrúlega heppin með hvort tveggja.

Erla Gerður og Margrét, systir hennar, hafa verið að gera upp gamlan bóndabæ á æskuslóðunum síðastliðin ár. Þangað fer hún gjarnan með fjölskyldunni til að hlaða batteríin og njóta samvista við foreldra, systkini og fjölskyldur þeirra.

Erla Gerður les mikið, fer í skíðaferðir, ferðalög og gönguferðir úti í náttúrunni, en tíkin Dimma er dugleg að draga fjölskylduna út í göngutúr í hvaða veðri sem er.

Önnur og svolítið frumlegri áhugamál Erlu Gerðar felast í því að reyta arfa og rækta grænmeti. Hún er einnig veik fyrir innanhúshönnun og er eiginmaðurinn oft feginn þegar mikið er að gera hjá henni í vinnunni svo hún hafi ekki endaskipti á húsbúnaði heimilisins með tilheyrandi raski. Nýjasta áhugamál fjölskyldunnar er svo sportköfun, en í vetur fékk öll fjölskyldan köfunarréttindi og fór í ógleymanlega ferð til Hawaii og skoðaði þar lífið á kóralrifjunum.

Fyrirferðarmesta áhugamálið er samt vinnan og allt sem tengist heilbrigðum lífsstíl og uppbyggingu Heilsuborgar: „Það er ótrúlega gefandi að sjá árangur þeirra einstaklinga sem takast á við það krefjandi verkefni að bæta heilsuna. Það hefur verið mikil lífsreynsla að taka þátt í að byggja upp fyrirtæki eins og Heilsuborg og vinna þar með frábærum hópi starfsfólks og sjá drauminn um samfellda og heildræna heilbrigðisþjónustu smám saman taka á sig mynd og þar eru spennandi tímar framundan.“

Fjölskylda

Eiginmaður Erlu Gerðar er Geir Borg, f. 28.10. 1968, framkvæmdastjóri Gagarín ehf. Foreldrar hans: Kjartan Borg, f. 21.2. 1939, og Arnheiður Borg, f. 20.1. 1944, fyrrverandi kennarar, búsett í Reykjavík.

Synir Erlu Gerðar og Geirs eru Jökull Elí Borg, f. 16 9. 1999, nemi í Fjölbraut í Garðabæ, og Björn Víkingur Borg, f. 16 9. 2002, nemi í Garðaskóla.

Systkini Erlu Gerðar eru Jón Ingi Sveinsson, f. 5 6. 1959, framkvæmdastjóri Kötlu byggingarfyrirtækis, búsettur í Kálfsskinni á Árskógsströnd; Margrét Sveinsdóttir, f. 27.9. 1960, framkvæmdastjóri hjá Arion banka, búsett á Seltjarnarnesi; Marinó Viðar Sveinsson, f. 11.9. 1971, framkvæmdastjóri Sportferða, búsettur á Akureyri.

Foreldrar Erlu Gerðar eru Sveinn Elías Jónsson, f. 13 1. 1932, fyrrum smiður og bóndi í Kálfsskinni, og Ása Marinósdóttir, f. 9.2. 1932, fyrrum ljósmóðir en þau eru búsett á Árskógsströnd.