Síminn hringdi á skrifborðinu mínu í vinnunni. Í símanum var lesandi Morgunblaðsins sem hafði sterka skoðun á pistli sem ég skrifaði og birtist þann daginn á síðum blaðsins. Svona pistli eins og þessum hér.

Síminn hringdi á skrifborðinu mínu í vinnunni. Í símanum var lesandi Morgunblaðsins sem hafði sterka skoðun á pistli sem ég skrifaði og birtist þann daginn á síðum blaðsins. Svona pistli eins og þessum hér. „Þessi skrif þín, ef skrif skyldi kalla, eru svo galin og vitlaus að ég veit bara ekki hvar ég á að byrja,“ sagði viðmælandinn skrækróma af æsingi. Þegar ég stakk upp á að líklega væri þá skynsamlegt að hann hringdi aftur síðar, þegar hann vissi hvar hann ætti að byrja, skellti hann snúðugur á og síðan hef ég ekki heyrt í honum. Stór hluti þessa dags fór svo í að svara áþekkum símtölum.

Um hvað var svo þessi ógurlegi pistill? Hann var um kynjakvóta og þá staðreynd að færri konur en karlar eru í stjórnum íslenskra fyrirtækja þrátt fyrir að lög um jöfn kynjahlutföll í þeim hafi verið í gildi undanfarin ár. Margir aðrir en ég og þeir sem hringdu í mig þennan dag hafa skoðun á kynjakvótum í stjórnum, þeirra á meðal er Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„Þetta endurspeglar hins vegar að einhverju leyti hvað við erum ennþá skammt á veg komin í jafnréttisbaráttunni þegar kemur að æðstu stjórn fyrirtækja,“ sagði Þorsteinn í viðtali á RÚV fyrr í vikunni þar sem m.a. var rætt um það að konur eru 20% stjórnarmanna í nýkjörinni stjórn samtakanna. Til að bæta úr því sagði hann kynjakvóta koma til álita. „Ég held að það sé eitthvað sem stjórn samtakanna og aðildarfélaganna hljóti að þurfa að taka til skoðunar hvernig við ætlum að tryggja jafnrétti.“

Ísland var annað landið í heiminum, á eftir Noregi, til að innleiða lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Lögin voru sett 2010 og fengu fyrirtæki frest til aðlögunar til ársins 2013. Og hverju hafa þessi kvótar svo skilað? Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru konur um 20% stjórnarmanna í stærstu fyrirtækjunum árið 2010 þegar lögin voru sett. Núna er þetta hlutfall kvenna 37,2%. Þetta hefur gerst frá því að lög um kynjakvóta voru sett og því ekki fráleitt að áætla að þau hafi átt hlut að máli.

Kynjakvótar í stjórnum fyrirtækja snúast ekki eingöngu um tiltekið hlutfall karla eða kvenna, því rannsóknir sýna að arðsemi fyrirtækja er meiri eftir því sem kynjahlutföll í stjórn fyrirtækis eru jafnari. T.d. leiddi rannsókn á ársreikningum Fortune 500 fyrirtækja í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum í ljós að fyrirtæki, þar sem hlutfall kvenna í stjórn var yfir 25%, sýndu meiri hagnað en fyrirtæki þar sem hlutfall kvenna var lágt. Það ætti að vera eigendum og hluthöfum fyrirtækja hvatning til að jafna kynjahlutföllin og kynjakvótinn getur því varla skoðast sem kvöð, heldur sem verkfæri til að ná sem bestum árangri. Enda eru þeir sem agnúast mest út í kynjakvótana yfirleitt ekki stjórnendur fyrirtækja. Vel á minnst – hvað skyldi ég fá mörg símtöl í dag? annalilja@mbl.is

Anna Lilja Þórisdóttir

Höf.: Anna Lilja Þórisdóttir