Stúlkurnar 200 eru enn ófundnar

Tvö ár eru nú liðin frá því að hryðjuverkasamtökin Boko Haram réðust á þorpið Chibok í Nígeríu og höfðu þaðan á brott með sér rúmlega tvö hundruð skólastúlkur og hnepptu í ánauð. Síðan þá hafa samtökin reglulega náð að vekja á sér athygli með frekari voðaverkum í norðurhluta Nígeríu.

Samtökin minnast tímamótanna nú með því að senda frá sér myndband, þar sem sjá má 15 af þeim stúlkum sem rænt var á sínum tíma frá Chibok. Þær báru stjórnvöldum í Nígeríu þau skilaboð að þær vildu vera hjá fjölskyldum sínum, og hvöttu þau til þess að ganga að kröfum Boko Haram um að skiptast á föngum.

Ólíklegt er að Muhammad Buhari, forseti landsins og fyrrverandi hershöfðingi, gangi að þeim afarkostum sem honum voru settir í myndbandinu, en hersveitir frá Nígeríu og ýmsum nágrannalöndum hafa gengið hart fram við að uppræta samtökin frá því að hann tók við embætti. Viðbrögð samtakanna hafa verið þau að auka sjálfsvígsárásir sínar.

Þó að sótt hafi verið hart að Boko Haram er ljóst að meira þarf til ef takast á að frelsa þá sem hnepptir hafa verið í ánauð af samtökunum og til að ráða niðurlögum samtakanna. Þetta verkefni er í sjálfu sér brýnt, en verður enn brýnna þegar horft er til þess að leiðtogi Boko Haram hefur lýst yfir hollustu sinni við Ríki íslams í Írak og Sýrlandi.