Skuldsett Skuldir Reykjanesbæjar voru um 41 milljarður í lok 2015.
Skuldsett Skuldir Reykjanesbæjar voru um 41 milljarður í lok 2015. — Morgunblaðið/Ómar
Lára Halla Sigurðardóttir larahalla@mbl.

Lára Halla Sigurðardóttir

larahalla@mbl.is

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar segir að ef engar stórkostlegar breytingar verði næstu daga muni meirihluti bæjarstjórnar samþykkja tillögu meirihluta bæjarráðs Reykjanesbæjar á fundi sínum á þriðjudag og leggja til við innanríkisráðuneytið að sveitarfélaginu verði skipuð fjárhagsstjórn strax daginn eftir.

Þetta sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í samtali við mbl.is í gær. Hann segist gera ráð fyrir að ekki muni taka langan tíma að skipa stjórnina þar sem innanríkisráðuneytið sé þegar upplýst um málið. Á hann allt eins von á því að hægt verði að skipa stjórnina á miðvikudag í næstu viku.

Það er ekkert fordæmi

Reykjanesbær hefur um langt skeið átt í viðræðum við kröfuhafa sína um mögulega niðurfærslu skulda. Þeim viðræðum er nú lokið en án samkomulags.

Skuldir Reykjanesbæjar voru um 41 milljarður í lok síðasta árs, eða u.þ.b. 2,75 milljónir á hvern íbúa. Róðurinn í rekstri bæjarfélagsins hefur verið þungur.

Aðspurður segir bæjarstjórinn að fjárhaldsstjórn geti gripið til ýmissa aðgerða sem bærinn geti ekki nýtt sér. Nefnir hann sem dæmi að stjórnin hafi, líkt og þegar fyrirtæki verður gjaldþrota og fer í gjaldþrotameðferð, möguleika á greiðslustöðvun afborgana af lánum.

„Þeir hafa þannig úrræði sem þeir munu líklegast beita strax á meðan þeir eru að setja sig inn í stöðuna,“ sagði Kjartan Már.

„Það hefur ekkert sveitarfélag af þessari stærðargráðu lent í þessari stöðu áður þannig að það er ekkert fordæmi,“ segir hann jafnframt og vonar að íbúar muni ekki finna fyrir breytingum vegna þessa. „Ég þori ekki að segja neitt um það.“