Sigþrúður Guðmundsdóttir
Sigþrúður Guðmundsdóttir
Laufey Rún Ketilsdóttir laufey@mbl.is „Við heyrðum það svo oft hjá konum sem dvöldu hjá okkur og þeim sem hikuðu við að kæra eða hikuðu við að fara að það væru til einhverjar myndir af þeim og verið væri að hóta að nota þær.

Laufey Rún Ketilsdóttir

laufey@mbl.is

„Við heyrðum það svo oft hjá konum sem dvöldu hjá okkur og þeim sem hikuðu við að kæra eða hikuðu við að fara að það væru til einhverjar myndir af þeim og verið væri að hóta að nota þær. Það var því orðið ljóst að þetta væri það algengt að það myndi mælast,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, fræðslu- og framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, en í ársskýrslu athvarfsins fyrir árið 2015, sem kynnt var í gær, kemur fram að tæp 10% kvenna sem leita til Kvennaathvarfsins sögðu hrelliklám eina ástæðu komu sinnar.

„Þetta er enn eitt vopnið til að halda konunni hjá sér,“ segir Sigþrúður jafnframt en með tækniþróun síðustu ára og hættu á gríðarlegri dreifingu myndanna hafi þessum tilvikum fjölgað.

Alls komu 846 konur í Kvennaathvarfið á síðasta ári. 126 þeirra dvöldu í athvarfinu. Til samanburðar komu þangað 469 konur árið 2007.

10% kvenna í nýtt húsnæði

Um 21% þeirra kvenna sem leituðu athvarfs sneri aftur heim til ofbeldismannsins að lokinni dvöl en um 10% fóru í nýtt húsnæði og tæp 20% leituðu til ættingja og vina.

„Þetta sýnir það sem við vorum búin að sjá í gegnum árin að leigumarkaðurinn er oft fjandsamlegur þessum hópi, þ.e. erlendum konum, konum með börn, láglaunakonum eða konum nýkomnum úr kvennaathvarfi – ekki endilega hópur sem fólk vill leigja,“ segir hún.

Minnihluti kærir ofbeldið

„Þó þetta sé lágt hlutfall þá erum við glaðar með tölurnar,“ segir Sigþrúður en í komuskýrslum kom fram að aðeins 21% kvennanna hafði kært ofbeldið til lögreglu en það er þó hærra hlutfall en fyrri ár.

Segir hún ástæðurnar margþættar en konurnar séu yfirleitt ekki á höttunum eftir refsingu yfir ofbeldismanninum. „Þetta er oft ofbeldi í nánum samböndum þar sem eiginmaður eða barnsfaðir er ofbeldismaðurinn,“ bendir hún á og konurnar óski þess fyrst og fremst að ofbeldinu linni.

„Einnig er ákveðið vantraust á kerfinu,“ segir hún en margar kvennanna telji það ekki þess virði að kæra ofbeldismann sinn. Ferlið sé langt og svifaseint og það sé sjaldan sem eitthvað komi út úr því. Þá geti ofbeldismaðurinn reiðst enn frekar við slíkar aðgerðir og ástandið orðið enn hættulegra fyrir konuna.

Í skýrslunni kom einnig fram að konum á aldrinum 16-30 ára sem leituðu til athvarfsins hafði fjölgað milli ára. Telur Sigþrúður það vera vísbendingu þess efnis að ungar stúlkur séu meðvitaðri og leiti sér fyrr aðstoðar. „Þetta er kynslóðin sem tók málin í sínar hendur á síðasta ári með þessar stórkostlegu byltingar,“ bætir hún við.