Átök Daníel Matthíasson úr FH reynir að stöðva Jóhann Gunnar Einarsson úr Aftureldingu. Jóhann meiddist og óvíst er með framhaldið hjá honum.
Átök Daníel Matthíasson úr FH reynir að stöðva Jóhann Gunnar Einarsson úr Aftureldingu. Jóhann meiddist og óvíst er með framhaldið hjá honum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Varmá Ívar Benediktsson iben@mbl.is Aftureldingarmenn unnu orrustuna gegn FH í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla í handknattleik að Varmá í gærkvöldi en glöggt stóð sigurinn.

Á Varmá

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Aftureldingarmenn unnu orrustuna gegn FH í 8-liða úrslitum Olís-deildar karla í handknattleik að Varmá í gærkvöldi en glöggt stóð sigurinn. Einu marki munaði í lokin þegar lokaflautið gall, 23:22, í leik sem var illa leikinn af beggja hálfu, ekki síst sóknarleikurinn.

Eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik þar sem Mosfellingar voru nánast ekki með fyrsta stundarfjórðunginn að markverðinum Davíð Svanssyni undanskildum þá jafnaðist viðureignin. FH komst 4:1 yfir og 9:5. Lokakaflinn var Mosfellinga sem tókst að ná yfirvegun í sóknarleikinn og skora sex mörk í röð. Einu marki munaði í hálfleik, 12:11.

FH-ingar virtust ætla að kasta leiknum frá sér á fyrsta stundarfjórðungi síðari hálfleiks með hverjum byrjendamistökunum á fætur öðrum í sóknarleiknum. Afturelding hafði fimm marka forskot, 18:13, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. Aftureldingarmönnum tókst að glopra forskotinu niður í 21:20, þrátt fyrir að FH-ingum væri áfram afar mislagðar hendur í sóknarleiknum. Tvö mörk Árna Braga Eyjólfssonar úr vítakasti með skömmu millibili virtust ætla að tryggja Mosfellingum sigur. Sú varð ekki raunin og FH átti meira að segja síðustu sókn leiksins en voru enn á ný mislagðar hendur í sókninni.

Talsverður hiti var í báðum liðum í leiknum. Kom það svo sannarlega niður á gæðum leiksins sem voru ekki mikil þegar litið er til þess hversu langt er liðið á keppnistímabilið.

Vissulega hafa dómarar leiksins oft átt betri daga og fengu svo sannarlega að heyra það. Leikmönnum beggja liða er hinsvegar hollast að líta í eigin barm áður en þeir lengra er litið. Markverðirnir Davíð Svansson, Aftureldingu, og Ágúst Elí Björgvinsson, FH, voru bestu menn leiksins ásamt Jóhanni Gunnari Einarssyni og Jóhanni Jóhannssyni, Aftureldingarmönnum. Aðrir eiga mikið inni.

Fer Ágúst í leikbann?

Ágústi Birgissyni, leikmanni FH, var sýnt rauða spjaldið þegar tæpar tvær mínútur voru eftir fyrir brot á Árna Braga Eyjólfssyni. Spjaldinu fylgdi skýrsla til aganefndar frá dómurnum, Gunnari Óla Gústafssyni og Bjarka Bóassyni. Aganefnd kemur saman í hádeginu í dag og þá fæst úr því skorið hvort Ágúst verður í banni í næsta leik liðanna.

Jóhann Gunnar meiddist

Jóhann Gunnar Einarsson, einn allra besti leikmaður Aftureldingar í gær, meiddist þegar liðið var á síðari hálfleik og kom ekkert meira við sögu. Vafi lék á því í gærkvöldi hvort hann verður klár í slaginn á sunnudaginn.

Ef Ágúst og Jóhann verða ekki með á sunnudaginn verður það mikil blóðtaka fyrir bæði lið.

Afturelding – FH 23:22

N1-höllin Varmá, 8-liða úrslit karla, 1. leikur, fimmtudag 14. apríl 2016.

Gangur leiksins : 1:0, 1:2, 1:3, 4:5, 5:8, 9:9, 12:11 , 15:11, 16:12, 18:13, 19:17, 21:19, 23:22 .

Mörk Aftureldingar : Árni Bragi Eyjólfsson 6/4, Jóhann Gunnar Einarsson 5, Jóhann Jóhannsson 4, Mikk Pinnonen 3, Gunnar Malmquist Þórsson 2, Þrándur Gíslason Roth 1, Guðni Kristinsson 1, Pétur Júníusson 1.

Varin sk ot: Davíð Hlíðdal Svansson 15/1.

Utan vallar : 10 mínútur.

Mörk FH : Einar Rafn Eiðsson 6/3, Ásbjörn Friðriksson 5, Jóhann Birgir Ingvarsson 3, Benedikt Reynir Kristinsson 2, Halldór Ingi Jónasson 2, Þorgeir Björnsson 1, Gísli Þorgeir Kristjánsson 1, Ágúst Birgisson 1, Andri Berg Haraldsson 1.

Varin skot : Ágúst Elí Björgvinsson 23/1.

Utan vallar : 8 mínútur og fékk Ágúst Birgisson rautt spjald á 59. mínútu.

Dómarar : Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson.

Áhorfendur : 468.