Hús flokksins Hallveigarstígur 1.
Hús flokksins Hallveigarstígur 1. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Óttar Yngvason, hrl. og stjórnarmaður í Alþýðuhúsi Reykjavíkur ehf., segir innlenda aðila eiga sjálfseignarfélögin Fjölni og Fjalar, stærstu hluthafana í Alþýðuhúsi Reykjavíkur.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Óttar Yngvason, hrl. og stjórnarmaður í Alþýðuhúsi Reykjavíkur ehf., segir innlenda aðila eiga sjálfseignarfélögin Fjölni og Fjalar, stærstu hluthafana í Alþýðuhúsi Reykjavíkur. Hann vill ekki upplýsa hvaða innlendu aðilar þetta eru.

Þetta kemur fram í tölvubréfi Óttars til Morgunblaðsins, sem sent var í tilefni af umfjöllun um eignarhald á fasteign sem Samfylkingin leigir á Hallveigarstíg 1 í Reykjavík. Húsnæðið er 392 fermetrar og samkvæmt fasteignaskrá er það í eigu Alþýðuhúss Reykjavíkur og Sigfúsarsjóðs. Félögin Fjölnir og Fjalar eiga hvort um sig ríflega 40% hlut í Alþýðuhúsi Reykjavíkur.

Samkvæmt ársreikningi Alþýðuhúss Reykjavíkur fyrir árið 2014 eru Fjölnir og Fjalar erlend félög með erlenda kennitölu. Þau voru sögð sjálfseignarfélög. Þær upplýsingar hafa fengist hjá Ríkisskattstjóra að félögin séu þar ekki á skrá og að sjálfseignarfélag sé hugtak sem embættið „noti ekki“.

Félögin hafi ekki tekjur

Óttar segir félögin Fjölni og Fjalar ekki hafa tekjur. „Bæði félögin eru sjálfseignarfélög og því ekki um að ræða neina utanaðkomandi eigendur frekar en í öðrum slíkum félögum og stofnunum. Félögin hafa ekki með höndum neinn atvinnurekstur né tekjur eða útgjöld og eru ekki skráningarskyld frekar en önnur slík félög í landinu. Allur reksturinn er á vegum Alþýðuhúss Reykjavíkur ehf., sem skilar sínum ársreikningum,“ skrifar Óttar. Fram kemur í öðru tölvubréfi frá Óttari að „allt tal um hluthafa félagsins í „öðrum löndum“ eru alrangar getgátur“. Með fylgdi bréf frá endurskoðanda Alþýðuhúss Reykjavíkur til Ríkisskattstjóra 12. apríl sl.

Vísað á viðmót á vefnum

Í bréfi endurskoðandans kemur fram að félögin hafa ekki kennitölu.

„Á meðal hluthafa í ofangreindu félagi eru tvö íslensk félög án kennitölu, Fjalar sjálfseignarfélag og Fjölnir sjálfseignarfélag. Við árleg skil á hlutafjármiðum er ekki mögulegt að skrá í kerfi RSK á vefsíðunni skattur.is innlenda aðila sem ekki hafa kennitölu öðruvísi en að valinn sé hnappurinn „Erl. eigandi“ og opnast þá viðmót þar sem hægt er að tilgreina nafn og aðsetur viðkomandi hluthafa og velja það land þar sem hann er skráður... Framangreint fyrirkomulag getur valdið misskilningi hjá þeim sem sækja um afrit af... birtum ársreikningi félagsins og ranglega dregið þá ályktun að um erlendan hluthafa sé að ræða einungis vegna þess að hinn innlendi hluthafi er ekki með kennitölu.

Farið er fram á að þær upplýsingar sem birtast í fylgiblaði með innsendum ásreikningi til Ársreikningaskrár um áðurnefnda tvo hluthafa Alþýðuhúss Reykjavíkur ehf., félögin Fjalar sjálfseignarfélag og Fjölnir sjálfseignarfélag, beri það með sér að um íslenska aðila sé að ræða en ekki erlenda,“ segir í bréfinu sem er undirritað af Lúðvík Þráinssyni, endurskoðanda hjá Deloitte.