Skógarþröstur Fallegur fugl sem finnst reyniber mjög góð.
Skógarþröstur Fallegur fugl sem finnst reyniber mjög góð. — Morgunblaðið/Golli
Vorboðarnir ljúfu, farfuglarnir, eru farnir að sjást þó enn sé vika, jafnvel tíu dagar, í að krían komi úr sínu langflugi. Lóan er þegar komin, en um 40 heiðlóur sáust á höfuðborgarsvæðinu um síðustu helgi að því er talið er í fyrsta sinn þetta vorið.

Vorboðarnir ljúfu, farfuglarnir, eru farnir að sjást þó enn sé vika, jafnvel tíu dagar, í að krían komi úr sínu langflugi. Lóan er þegar komin, en um 40 heiðlóur sáust á höfuðborgarsvæðinu um síðustu helgi að því er talið er í fyrsta sinn þetta vorið. Yfir 40 lóur sáust á túni á Álftanesi, ekki langt frá Bessastöðum. Þá hefur lóuþræll einnig sést, hrossagaukar sömuleiðis og heiðagæsin er komin.

„Það er enn vika til tíu dagar í kríuna. Það fer eftir því hvernig vindar blása,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson, formaður Fuglaverndar. „Það er búið að vera mjög gott veður hér á landi og mikið sést af farfuglum. Það er til dæmis mikið búið að koma af skógarþröstum að undanförnu. Svokölluð skógarþrastabylgja. Sú bylgja byrjaði á þriðjudag. Þegar svona bylgjur byrja þá hellast skógarþrestir hingað til lands. Ég taldi um 25 skógarþresti í garðinum mínum um daginn,“ segir Jóhann Óli.