Landsbankinn Boða þarf aukaaðalfund til að kjósa bankaráð.
Landsbankinn Boða þarf aukaaðalfund til að kjósa bankaráð. — Morgunblaðið/Kristinn
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Birgir Björn Sigurjónsson dró í gær framboð sitt til bankaráðs Landsbankans hf. til baka og því var kosningu til bankaráðs frestað en aðalfundur Landsbankans vegna rekstrarársins 2015 fór fram í gær.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Birgir Björn Sigurjónsson dró í gær framboð sitt til bankaráðs Landsbankans hf. til baka og því var kosningu til bankaráðs frestað en aðalfundur Landsbankans vegna rekstrarársins 2015 fór fram í gær. Önnur tillaga var lögð fram af hálfu Bankasýslu ríkisins en fundarstjóri mat tillöguna hafa komið fram of seint og ákvað fundurinn að fresta kosningu bankaráðs til framhaldsaðalfundar til föstudagsins 22. apríl þar sem kosning bankaráðs verður eina málið á dagskrá. Núverandi bankaráð, sem hafði ákveðið að hætta, starfar því áfram.

Spurning um vanhæfi

„Það var mat faglegra ráðgjafa borgarstjóra að það gæti komið upp vanhæfi mitt sem fjármálastjóri borgarinnar og þar með allra starfsmanna fjármálaskrifstofu borgarinnar. Þess vegna taldi ég mér skylt að draga framboð mitt til baka til að geta sinnt starfi mínu sem fjármálastjóri borgarinnar,“ segir Birgir sem hafði verið tilnefndur af Bankasýslu ríkisins í bankaráð bankans.

„Mat ráðgjafanna var óvænt en eitthvað sem ég tók mark á. Það er mikilvægt og óumdeilt að ég hafi traust hjá Reykjavíkurborg, bæði samstarfsmönnum, samstarfsaðilum og yfirstjórn borgarinnar.“

Fundurinn samþykkti tillögu bankaráðs um að greiddur verði arður til hluthafa vegna reikningsársins 2015 sem nemur 1,2 krónum á hlut eða um 28,5 milljarðar króna. Þá fól fundurinn bankaráði að setja í starfsreglur sínar ákvæði um samkeppnislegt sjálfstæði Landsbankans hf. gagnvart öðrum viðskiptabönkum í eigu ríkisins.