Brúðhjónin og sonur Hafþórs Gylfa ásamt brúðarmeyjum og -sveinum.
Brúðhjónin og sonur Hafþórs Gylfa ásamt brúðarmeyjum og -sveinum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, segir að mestu máli skipti að ganga til brúðarskóna, hafa kjólinn og brúðarvöndinn ekki of umfangsmikinn og sofa vel nóttina fyrir athöfnina.
Ásthildur Sturludóttir , bæjarstjóri í Vesturbyggð, segir að mestu máli skipti að ganga til brúðarskóna, hafa kjólinn og brúðarvöndinn ekki of umfangsmikinn og sofa vel nóttina fyrir athöfnina. Eiginmaður hennar er Hafþór Gylfi Jónsson og fór brúðkaupið þeirra fram í júlí árið 2014. Þau vildu hafa brúðkaupið fjölskylduviðburð og fengu til dæmis fjölskyldu og vini til að sjá um alla eldamennsku og bakstur. Bergþóra Jónsdóttir

Hvenær og hvar giftir þú þig?

„Við giftum okkur í Patreksfjarðarkirkju og veislan var haldin í Félagsheimilinu á Patreksfirði. Systir mín, séra Elínborg Sturludóttir, og sóknarpresturinn á Patreksfirði, séra Leifur Ragnar Jónsson, gáfu okkur saman.“

Hvað fannst þér skemmtilegast við undirbúninginn og það erfiðasta?

„Mér fannst skemmtilegast að ákveða matinn og skreytingar. Svo fannst mér ákaflega skemmtilegt hvað fjölskyldur okkar og vinir tóku ríkan þátt í undirbúningnum og öllu í kringum brúðkaupið. Það er dýrmætt að eiga góða að. Daníel Jón, sonur Hafþórs, var svaramaður og nokkur systkinabörn og systur mínar voru brúðarmeyjar og sveinar, alveg dásamlega skemmtilegt fyrir okkur öll! Og frænkur Haffa sungu og spiluðu í veislunni. Þá þótti okkur gríðarlega vænt um hvað margir lögðu mikið á sig til að koma um langan veg.

Það erfiðasta var að ákveða gestalistann. Við eigum bæði stórar fjölskyldur og erum vinamörg. Það vildi til að félagsheimilið er stórt en það þarf alltaf að draga línuna og það var mjög erfitt.“

Hvar keyptir þú brúðarkjólinn þinn og hvernig var hann?

„Kjóllinn er einfaldur silkikjóll með blúndutoppi. Ég bar síðan stokkabelti móður minnar við. Kjólinn keypti ég í Bandaríkjunum en toppinn saumaði Guðrún Hildur Rosenkjær kjólameistari. Ég var mjög ánægð með útkomuna.“

Hvað lagðir þú mest áherslu

á við undirbúninginn?

„Fyrir utan að dagurinn yrði okkur öllum ógleymanlegur þá fannst okkur miklu máli skipta að gestirnir fengju að kynnast heimasvæði okkar og öllu því sem það hefur upp á að bjóða. Mjög margir voru að koma til Patreksfjarðar í fyrsta skipti og notuðu tækifærið til að skoða sig um. Allir gestirnir hittust á föstudagskvöldinu í plokkfiskveislu og þá var aðeins hitað upp! Við buðum síðan upp á kjötsúpu áður en fólkið fór á sunnudagsmorgninum. Þetta er auðveldlega hægt að gera út á landi þar sem allir hjálpast að. Við nutum dyggrar aðstoðar kvenfélagskvenna á Patreksfirði og veitingahússins Heimsenda.

Við lögðum mikið upp úr góðum mat og að hann væri úr heimabyggð. Okkur fannst miklu máli skipta að þetta væri fjölskylduviðburður og margir fengju að taka þátt í undirbúningnum. Hafþór veiddi allan fiskinn, laxinn var ræktaður í Patreksfirði og skelfiskur fékkst úr Breiðafirði. Frændi minn Atli Þór Erlendsson, aðstoðaryfirmatreiðslumaður á Grillinu, sá um að elda matinn. Mamma, systur, vinkonur, svil- og mágkonur sáu um allan bakstur. Veislan var risastór og það var mikið fjör alla helgina, alveg eins og við vildum hafa þetta.“

Ef gæfist tækifæri til að gera þetta aftur, er eitthvað sem þið munduð gera öðruvísi?

„Örugglega bjóða fleiri gestum! Hafa betri skó með fyrir kvöldið (mikil mistök að vera ekki búin að ganga brúðarskóna rækilega til) og taka kvart úr svefntöflu kvöldið fyrir til að sofa vel! Við sváfum ekkert nóttina fyrir brúðkaupið. Ekki hafa of þungan brúðarvönd og passa að kjóllinn sé ekki of umfangsmikill eða þvælist fyrir, mig var farið að langa að rífa slóðann af honum undir það síðasta.“