Lundi „Þetta lítur hreint út sagt skelfilega út. Lundastofninn er hruninn og hefur minnkað um 60% á 13 árum. Mest er minnkunin á Suður- og Vesturlandi,“ segir Erpur Snær Hansen, líffræðingur hjá Náttúrustofnun Suðurlands.
Lundi „Þetta lítur hreint út sagt skelfilega út. Lundastofninn er hruninn og hefur minnkað um 60% á 13 árum. Mest er minnkunin á Suður- og Vesturlandi,“ segir Erpur Snær Hansen, líffræðingur hjá Náttúrustofnun Suðurlands. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is „Þetta lítur hreint út sagt skelfilega út. Lundastofninn er hruninn og hefur minnkað um 60% á 13 árum. Mest er minnkunin á Suður- og Vesturlandi.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

„Þetta lítur hreint út sagt skelfilega út. Lundastofninn er hruninn og hefur minnkað um 60% á 13 árum. Mest er minnkunin á Suður- og Vesturlandi. Veiðar á lunda eru ekki sjálfbærar á öllu landinu og engin spurning um stöðvun á veiðum. Þetta er í raun og veru alþjóðlegt hneyksli hvað er í gangi hér,“ segir Erpur Snær Hansen, líffræðingur á Náttúrustofu Suðurlands, og vísar til lundaveiða sem enn eru stundaðar hér á landi. Þetta kemur m.a. fram í erindi hans, Stofnvöktun lunda á Íslandi, á ráðstefnu Umhverfisstofnunar, Sjálfbærni veiðistofna 2016, sem haldin er í dag í tengslum við úthlutanir úr veiðikortasjóði.

Sumar fuglategundir undir miklu veiðiálagi

Fuglategundirnar sem veiddar eru hér á landi eru 30 talsins. Nokkrar þeirra eru undir miklu veiðiálagi sem þýðir að veitt er margfalt yfir sjálfbærniviðmiðum.

Þetta eru: Svartbakur, sílamáfur, hvítmáfur, silfurmáfur, hrafn, kjói og teista. Sumir þessara fugla, sérstaklega teista og toppskarfur, lenda t.d. óvart sem veiðiafli í netum fyrir utan að vera skotnir.

„Öllum sjófuglastofnum sem veiddir eru og éta sandsíli og loðnu hefur fækkað frá aldamótum. Dílaskarfur og súla eru einu sjófuglategundirnar sem fjölgar,“ segir Erpur.

Frá árinu 2002 hefur orðið 80% fækkun á ungfuglastofninum og um 40% af varpstofninum. Lundastofninn hefur minnkað um 4,6% á ári undanfarin 13 ár. Lundinn var algengasti fuglinn á landinu með 8,2 milljónir einstaklinga en er kominn niður í 3,3 milljónir einstaklinga. Í dag hefur fýllinn tekið við því hlutverki að vera algengasti fuglinn á landinu.

Erpur bendir á að þeir sem hafa verið að veiða lunda hafa bent á að stofninn sé ennþá stór og því skipti ekki máli að drepa nokkra tugi þúsunda fugla.

„Í sjálfu sér þá útrýmum við honum ekki með því en samkvæmt lögum þá eigum við að stunda sjálfbærar veiðar,“ segir Erpur. Til að geta stundað sjálfbærar veiðar þarf stofninn að framleiða umfram það sem hann þarf til að standa í stað. Lundastofninn gerir það ekki, segir Erpur. „Lundastofninn er skýrt dæmi um stofn sem má ekki veiða úr.“

Fækkun ungfugla mest

Fækkunin er mest hjá ungfuglunum, sem endurspeglar langvarandi viðkomubresti.

Öllum öðrum svartfuglategundum og öðrum sjófuglum hefur fækkað á landinu. Viðkomubrestur hefur líklega verið hjá öllum þessum tegundum því þær éta allar sömu fæðuna, loðnu og síli. Fæðuframboðið hrundi fyrir rúmum áratug. Sílastofninn hrundi árin 2003-2005 og loðnan færði uppeldisstöðvar sínar frá Norðurlandi til Suðaustur-Grænlands árið 2003. Þetta hafði áhrif á afkomu allra sjófugla sem éta þessa fiska.

Skýringuna á minnkandi fæðuframboði má tengja við sveiflu á hitastigi sjávar. „Við vonum að sjórinn kólni og lífsskilyrði fyrir síli muni batna. Það gerist líklega samkvæmt spám um 2030,“ segir Erpur.

Koma upp fleiri myndavélum

Lundastofninn hefur einna mest verið rannsakaður en tilraunir voru gerðar í fyrra af Náttúrustofu Norðausturlands með mælingar á viðkomu á öðrum svartfuglum á Langanesi með sjálfvirkum myndavélum. Það kom vel út og er stefnt að því að koma upp slíkum myndavélum á þremur öðrum stöðum á landinu í ár.

Sjálfbærni veiðitegunda

„Þetta er í fyrsta skipti sem reiknuð er út sjálfbærni veiðitegunda og aldrei áður hefur verið lagt til slíkt mat til grundvallar veiðistjórnun,“ segir Erpur. Í fuglaveiðum eru gefin út veiðitímabil en ekki skoðað nákvæmlega hvað er veitt og hvað er óhætt að veiða mikið, eins og t.d. er gert varðandi fiskveiðar. „Við viljum uppbyggilegar umræður um þetta og leggjum til að allar veiðar á fuglum verði stundaðar á vísindalegum grunni á sambærilegan hátt og Hafrannsóknastofnun gerir með fiskveiðarnar. Þar er metið hvert veiðiþolið er, ef það er ekkert þá er veiðum hætt og ef stofninn þolir það, er spurning um að stjórna sókninni þannig að ekki verði farið of geyst.“

Erpur segir að stjórnvöld sem hafa veiðistjórnun á sinni könnu hafi nú gott tækifæri til að betrumbæta þessa stjórnsýslu. Í því samhengi bendir hann á að ef fuglategundir eru skráðar á válista sem þýðir að tegundin stefnir í útrýmingu þá er aðgerða þörf. Það þarf viðbragðsferli að fara í gang. Nú þýðir ekkert lengur að segja að staðan sé óljós þegar þetta liggur fyrir,“ segir Erpur.