Framkvæmdaaðili „Ég kem inn í þetta sem framkvæmdaaðili og hef haldið utan um hluti og skipulagt ýmislegt sem hefur þurft að skipuleggja,“ segir Cluness um FALK.
Framkvæmdaaðili „Ég kem inn í þetta sem framkvæmdaaðili og hef haldið utan um hluti og skipulagt ýmislegt sem hefur þurft að skipuleggja,“ segir Cluness um FALK. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Sterkasta vopnið sem þú átt er að kunna og þora að segja nei! Ekki leyfa einhverjum markaðsmönnum að breyta tónlistinni þinni í eitthvað allt annað hún var upphaflega ætluð fyrir.“

VIÐTAL

Vilhjálmur Andri Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Ekki fer mikið fyrir honum við fyrstu sýn en þegar hann er kominn á flug er ekki sála í þessu litla kaffihúsi sem kemst hjá því að heyra samtal okkar Bobs Cluness en hann er einn af eigendum FALK Records og hefur skrifað um íslenska tónlist og menningu í mörg ár.

„Sjáðu til, þegar þú skrifar slæman dóm um hljómsveit eða tónlistarmann máttu vera alveg viss um það að þú eigir eftir að hitta viðkomandi. Þetta gerist ekki á mörgum stöðum í heiminum en á Íslandi er þetta regla ekki undantekning. Þú skalt því gjöra svo vel og vera með það algjörlega á tæru af hverju þú telur að einhver eigi skilið slæman dóm frá þér,“ segir Cluness þegar við setjumst niður á kaffihúsinu C is for Cookie í Þingholtinu en við höfðum mælt okkur þar mót til að tala um útgáfufyrirtækið hans og komandi verkefni þess.

„Þú verður bara að stoppa mig og spyrja því ég get talað út í það óendanlega um tónlist og menningu,“ segir hann sposkur á svip og þegar ég ætla að spyrja hann grípur hann fram í og segir: „Allt of margir sem skrifa tónlistargagnrýni í dag nota skalann gott eða slæmt án þess að greina nákvæmlega hvað gerir eitt verk eða eina sýningu betri eða verri en aðra. Þú verður spurður á barnum og þú þarft að svara viðkomandi, af hverju þú gafst honum eða henni slæman dóm.“

Án þess að átta mig á því voru samræður okkar komnar á fullt og ljóst að hann hefur brennandi ástríðu fyrir tónlist og menningu. Einföld spurning gat þannig orðið að löngu en skemmtilegu samtali.

Náðu í samböndin sjálfur

„Sambönd skipta máli og þú verður að þora að fara út og hitta fólk, taka í höndina á því og kynna þig. Voðalega lítið vinnst með því að mæta einu sinni eða tvisvar á ári á einhverjar ráðstefnur eða samkomur. Þar brosir fólk og skiptist á nafnspjöldum en þegar kemur að því að reyna að hafa samband er kaldur raunveruleikinn sá að það fæstir svara póstunum sem þú sendir,“ segir Cluness með áherslu, en honum finnst íslenskir tónlistarmenn treysta of mikið á sambönd tónlistariðnaðarins hér í stað þess að sækja sér sín eigin sambönd.

„Farið út á örkina líkt og menn gerðu á áttunda áratugnum, sem þið kallið væntanlega níunda áratuginn hér á Íslandi. Þá fóru menn út og náðu sér í sambönd. Menn á borð við Einar Örn Benediktsson o.fl. voru í framlínunni á þeim tíma að skapa sér eigin tengslanet. Þannig fæ ég tónlistarmenn til Íslands, ég hef samband, ég hitti menn og síðan spyr ég: viltu ekki kíkja til Íslands? Íslands! segja menn. Auðvitað! það hljómar spennandi.“

Þorið að segja NEI!

Menningarpólitíkin er aldrei langt undan í samtali okkar, sem á þessum tíma hefur þróast út í nokkuð skemmtileg eintal Cluness enda hefur hann frá mörgu að segja og kann að fara með umræðuna um allan völl en snúa alltaf að upphafspunkti sínum aftur og keyra hann heim. Þannig tók hann örlítinn útúrdúr um listina að segja nei og gagnrýndi um leið það sem hann kallar ný-kapítalisma í tónlistarbransanum á Íslandi.

„Sterkasta vopnið sem þú átt er að kunna og þora að segja nei! Ekki leyfa einhverjum markaðsmönnum að breyta tónlistinni þinni í eitthvað allt annað hún var upphaflega ætluð fyrir. Líkur eru á því, ef þú ert góður, að einhver komi til þín og geri þér gylliboð og sannfæri þig jafnvel um að eina leiðin til að fá umfjöllun og athygli sé að selja sig til stórfyrirtækja í auglýsingar og markaðsherferðir. Ekki gera það.“

Hann viðurkennir svo að þetta geti hentað einhverjum en listamenn verði að vera meðvitaðir um það hvaða braut þeir séu að feta.

„Ókei, ef þú vilt fara þessa leið þá ætla ég ekki að segja þér að það séu mistök en vertu þá alveg viss um það hvað þú ert að gera. Hættan er alltaf sú að þú missir stjórn á því hver þín ímynd er og grundvöllur tónlistar þinnar fær kannski aðra merkingu en þú ætlaðir henni.“

Kampavíns-sósíalistarnir

Kaldhæðni hins sveltandi tónlistarmanns sem nú situr jafnvel í stjórnum og ráðum fyrirtækja og stofnana er Cluness ekki hulin. Markaðsöflin eru sterk og það getur verið erfitt að segja nei.

„Höfum við ekki öll orðið vitni að listamanninum sem talar með róttækum hætti en hagar sér og list sinni eftir leikreglum kapítalismans? Þetta er bæði gömul saga og ný en við kölluðum svona einstaklinga hér áður kapmavíns-sósíalista. Rokk í Reykjavík-kynslóðin var t.d. á sínum tíma róttæklingar en er nú vörður kerfisins.“

Hér vísar hann aftur til listarinnar að kunna að segja nei og bendir á að þegar tónlist er notuð til að auglýsa skyr eða Bláa lónið missir hún gildi sitt, þ.e. inntak hennar er orðið allt annað en listamaðurinn ætlaði mögulega í upphafi.

„Fólk segir að peningarnir séu þarna og ég skil að sumir listamenn kjósi að fara þessa braut. Allir þurfa að eiga fyrir salti í grautinn.“

Tónlistargagnrýni að deyja út

Þegar ég loksins kem að spurningu langar mig að vita af hverju Cluness hafi farið út í tónlistargagnrýni í stað þess að einbeita sér að tónlistinni sjálfur.

„Stutta svarið, ég hef ekki hæfileika til að semja tónlist. Sumir geta samið lög á einni kvöldstund. Ég er ekki einn af þeim. Á mínum yngri árum var ég nokkuð góður að spila tónlist og gat gripið í hljóðfæri og leikið nánast hvað sem er en aldrei samið.“

Síðan tekur hann einn af þessum frægu útúrdúrum og segir mér að hann sé fæddur og uppalinn á Hjaltlandseyjum.

„Þetta er nyrsti kaupstaður eða byggð Bretlands og ég gat ekki beðið eftir því að verða nógu gamall til að komast eitthvað annað og það var það sem ég gerði þegar ég hafði aldur til og hef ekki litið um öxl síðan. Hlutirnir æxlast svo þannig að ég kynnist þessari einstöku stúlku í London, en það er gaman að segja frá því að um tíma var ég ferkantaður bankamaður í stórborginni,“ segir hann og hlær.

„Það eru bara tvær ástæður fyrir því að útlendingar koma til Íslands. Annars vegar sem ferðamenn sem vilja sjá einstakt landslag og upplifa álfa og tröll og hins vegar að verða ástfanginn af Íslendingi. Ég varð ástfanginn upp fyrir haus og þegar konan vildi snúa til síns heima átti ég engra kosta völ.“

Hann kemur svo aftur að spurningunni og segir að Grapevine hafi beðið sig um að skrifa um Innipúkann fyrir mörgum árum og stuttu eftir það var hann kominn með fasta vinnu hjá blaðinu.

„Ég sagði mína skoðun og var óhræddur að gefa mönnum falleinkunn ef þeir áttu hana skilið. Það var heldur ekki þannig að allir tækju því illa, því einstaka tónlistarmaður þakkaði mér fyrir heiðarlega gagnrýni.“

Plötuútgáfan FALK

Aðalsteinn Jörundsson og Baldur Björnsson fengu Cluness inn í útgáfuna FALK árið 2014 en útgáfan var stofnuð í kringum verkefni þeirra Aðalsteins og Baldurs.

„Ég kem inn í þetta sem framkvæmdaaðili og hef haldið utan um hluti og skipulagt ýmislegt sem hefur þurft að skipuleggja,“ segir Cluness en Aðalsteinn lýsir Cluness sem vítamíninu í fyrirtækinu.

„Ég og Baldur erum oft uppteknir af eigin list en Baldur er myndlistarmaður og ég hef fengist við ljóðagerð. Cluness hefur því verið þessi einbeitti framkvæmdaaðili hópsins,“ segir Aðalsteinn.

Ásamt því að gefa út eigin verk hefur FALK flutt inn fjölda listamanna og gefið út nokkuð af verkum. Framundan eru spennandi verkefni hjá fyrirtækinu á borð við „residence“ en það er fólgið í því að fá listamenn til landsins, skjóta yfir þá skjólshúsi í nokkra daga eða vikur og halda tónleika eða sýningu með því efni sem dvöl hér á landi hefur kallað fram í sköpunargleðinni.