Nú, á 18. degi aprílmánaðar, má segja að skammdegið sé úti. Nú fer að birta upp úr klukkan sex á morgnana og á sunnudagsmorgni vöktu geislar sólar Víkverja fyrir allar aldir. Því var ekki annað í stöðunni fyrir annars morgunsvæfan mann en að fara út á mörkina og sjá daginn verða til. Í morgunkyrrðinni á níunda tímanum voru fáir á ferli. En margt bar fyrir augu. Í vegkanti við Vesturlandsveg voru gæsfuglar á vappi, í Grafarvogi var kona á hlaupum og karl að viðra hundinn sinn. Á Rás 2 í útvarpinu talaði Hallgrímur Thorsteinsson um tækni og vísindi.
Aðfaranótt sunnudagsins gekk hret yfir landið. Faxaflóafjöllin voru í hvítum klæðum en á þessum morgunrúnti var annars skemmtilegt að fylgjast með því hvað snjórinn fer ótrúlega fljótt þegar hlýnar að ráði. Á stöku stað mátti raunar sjá grænar gróðurnálar og um himininn sveimuðu farfuglar, sem á Íslandi eru einstakir aufúsugestir. Túristarnir eru það raunar líka og þeir voru í fjölmennum flokkum nærri miðborginni. Nokkrir höfðu prílað upp í Sólfarið við Sæbrautina og voru komnir í fyrirsætuhlutverk. Á Ægisgarði var fólk á stjákli sem vildi í hvalaskoðunarferð.
Vestur á Gróttu voru Seltirningar í morgungöngu; hressir og kátir. Við sundlaugarnar var fullt af bílum og reiðhjólum, enda finnst mörgum gott að byrja daginn á því að taka sitt 200 metra bringusund og fara á eftir í heita pottinn. Víkverji sem er fastur sundlaugagestur þykist vita að í rabbi pottverja hafi væntanlegar forsetakosningar borið á góma. Hvern styður þú? Andra Snæ, Höllu, Hrannar, Vigfús, Bæring eða Sturlu? Og hvað heita hinir frambjóðendurnir? Lætur Guðni Th. slag standa og fer í framboð? Já, og hvernig finnst ykkur Sigurður Ingi pluma sig sem forsætisráðherra? Þetta er hvunndagsskrafið.