Öflug Kristín Guðmundsdóttir lék mjög vel með Val og hér ræður Helena Rut Örvarsdóttir ekkert við hana.
Öflug Kristín Guðmundsdóttir lék mjög vel með Val og hér ræður Helena Rut Örvarsdóttir ekkert við hana. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Baldur Haraldsson Víðir Sigurðsson Ívar Benediktsson Íslandsmeistarar Gróttu komust á laugardaginn í undanúrslitin á Íslandsmóti kvenna í handknattleik með því að sigra Selfoss öðru sinni, nú fyrir austan fjall, 23:21.

Handbolti

Baldur Haraldsson

Víðir Sigurðsson

Ívar Benediktsson

Íslandsmeistarar Gróttu komust á laugardaginn í undanúrslitin á Íslandsmóti kvenna í handknattleik með því að sigra Selfoss öðru sinni, nú fyrir austan fjall, 23:21. Valur og Fram kræktu sér hinsvegar í oddaleiki sem fram fara í kvöld. Framkonur unnu öruggan fjögurra marka sigur á ÍBV í Vestmannaeyjum, 23:19, og Valur lék Stjörnuna grátt á Hlíðarenda og vann stórsigur, 25:17.

Það var mikið undir hjá Framkonum í Vestmannaeyjum, enda sumarfrí framundan ef tap væri niðurstaðan. Það sást frá byrjun að þær voru staðráðnar í því að knýja fram oddaleik. Varnarleikur liðsins var frábær allan leikinn og markvarslan ennþá betri. Guðrún Ósk Maríasdóttir varði 17 skot í marki Fram en liðsfélagi hennar Hafdís Lilja Torfadóttir var senuþjófur leiksins. Undir lok leiksins kom hún inná til að freista þess að verja vítakast. Það gerði hún og gott betur en það. Hún varði tvö víti í viðbót og sex af þeim átta sem hún fékk á sig í leiknum sem gerir 75% markvörslu.

Hjá ÍBV var sóknarleikurinn ansi stirður gegn flottri vörn Fram. Ester Óskarsdóttir átti góðan leik og gerði 9 mörk en Díana Dögg Magnúsdóttir 7 mörk. Að þær tvær geri 16 af 19 mörkum ÍBV er klárlega áhyggjuefni fyrir oddaleikinn í kvöld. Sterka pósta vantar í lið ÍBV en þær Vera Lopes og Greta Kavaliauskaite eru meiddar og koma líklega ekki meira við sögu á tímabilinu. Leikmenn eins og Drífa Þorvaldsdóttir og Telma Amado verða að stíga upp í kvöld ætli ÍBV sér einhverja hluti. Markvarsla ÍBV var aftur á móti frábær en Erla Rós Sigmarsdóttir varði 18 skot í marki liðsins.

Berglind skellti í lás

Stórbrotin frammistaða Berglindar Írisar Hansdóttur í marki Vals lagði grunninn að sigrinum á Stjörnunni á laugardaginn.

Berglind varði 11 skot á fyrstu 15 mínútunum, lokaði hreinlega Valsmarkinu á meðan liðið komst í 5:0 og 10:3. Þegar saman dró og staðan var 16:14 um miðjan seinni hálfleik skellti Berglind aftur í lás og varði sjö skot á meðan Valur komst í 25:15.

Varnarleikur Valsliðsins var líka gríðarlega öflugur á meðan allt sjálfstraust hrundi hjá Garðabæjarstúlkunum við þessa kröftugu mótspyrnu. Kannski mættu þær værukærar til leiks og Sólveig Lára Kjærnested tók undir það í viðtali sem birtist á mbl.is. Þær Kristín Guðmundsdóttir og Morgan Marie Þorkelsdóttir fundu alltaf leiðir í gegnum vörn Stjörnunnar og skoruðu 15 af mörkum Vals.

Tveir stórsigrar á víxl og það er útlit fyrir mikinn slag í Mýrinni í kvöld.

Grótta slapp fyrir horn

Íslandsmeistarar Gróttu fengu hressilega mótspyrnu frá leikmönnum Selfoss í öðrum leik liðanna á Selfossi á laugardaginn. Lokatölur: 23:21. Arndís María Erlingsdóttir innsiglaði sigur Gróttu á síðustu sekúndu en áður hafði Selfoss fengið tvö tækifæri á síðustu mínútu leiksins til þess að jafna metin. Annars vegar átti Elena Brigisdóttir stangarskot af línunni og hinsvegar rataði sending fram leikvöllinn ekki í réttar hendur þegar Selfoss vann boltann þegar 20 sekúndur voru eftir.

Selfoss var með yfirhöndina í fyrri hálfleik en sex Gróttumörk á síðustu mínútunum gegn tveimur mörkum Selfoss urðu þess valdandi að jafnt var í hálfleik, 9:9.

Síðari hálfleikur var meira og minna í járnum og æsispennandi.

„Tilfinningar eru blendnar þar sem áttum möguleika og ætluðum í oddaleik. Við trúðum því fyrir leikinn að við gætum unnið Gróttu og höfum aldrei verið eins nærri því og að þessu sinni,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, og var stoltur af sínu liði. „Okkur vantaði meiri reynslu að þessu sinni.“

*Haukar slógu Fylki út á föstudagskvöldið og mæta Stjörnunni eða Val í undanúrslitum. Grótta leikur við annaðhvort Fram eða ÍBV.

Selfoss – Grótta 21:23

Selfoss, 8-liða úrslit kvenna, annar leikur, laugardag 16. apríl 2016.

Gangur leiksins : 2:1, 2:2, 3:2, 6:3, 8:6, 9:9 , 10:11, 12:13, 14:16, 17:18, 18:20, 20:20, 21:21, 21:23 .

Mörk Selfoss : Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 7/2, Adina Maria Ghidoarca 6, Elena Elísabet Birgisdóttir 3, Steinunn Hansdóttir 2, Perla Ruth Albertsdóttir 1, Perla Albertsdóttir 1, Carmen Palamariu 1.

Varin skot : Katrín Ósk Magnúsdóttir 10.

Utan vallar : 2 mínútur.

Mörk Gróttu : Lovísa Thompson 6, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6/1, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 4, Sunna María Einarsdóttir 3/1, Laufey Ásta Guðmundsdóttir 1, Unnur Ómarsdóttir 1, Arndís María Erlingsdóttir 1, Anna Katrín Stefánsdóttir 1.

Varin skot : Íris Björk Símonardóttir 11.

Utan vallar : 2 mínútur.

Dómarar: Heimir Örn Árnason og Sigurður Hjörtur Þrastarson.

Áhorfendur : 120.

*Grótta sigraði 2:0.

ÍBV – Fram 19:23

Vestmannaeyjar, 8-liða úrslit kvenna, annar leikur, laugardag 16. apríl 2016.

Gangur leiksins : 2:2, 6:7, 8:8, 9:11, 9:13, 11:15 , 11:15, 14:16, 14:18, 16:19, 17:22, 19:23 .

Mörk ÍBV : Ester Óskarsdóttir 9, Díana Dögg Magnúsdóttir 7/3, Telma Silva Amado 1, Þóra Guðný Arnarsdóttir 1, Sandra Dís Sigurðardóttir 1.

Varin skot : Erla Rós Sigmarsdóttir 17.

Utan vallar : 4 mínútur.

Mörk Fram : Ragnheiður Júlíusdóttir 10/3, Hulda Dagsdóttir 5, Steinunn Björnsdóttir 2, Elva Þóra Arnardóttir 1, Hekla Rún Ámundadóttir 1, Arna Þyri Ólafsdóttir 1, Hildur Þorgeirsdóttir 1, Marthe Sördal 1, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 1.

Varin skot : Guðrún Ósk Maríasdóttir 17, Hafdís Lilja Torfadóttir 5/3.

Utan vallar : 8 mínútur.

Dómarar : Arnar Sigurjónsson og Svavar Ólafur Pétursson.

Áhorfendur : 300.

*Staðan er 1:1.

Valur – Stjarnan 25:17

Valshöllin, 8-liða úrslit kvenna, annar leikur, laugardag 16. apríl 2016.

Gangur leiksins : 5:0, 9:2, 10:3, 10:9, 13:10 , 14:10, 15:13, 16:14, 20:14, 25:15, 25:17 .

Mörk Vals: Kristín Guðmundsdóttir 8/1, Morgan Marie Þorkelsdóttir 7, Íris Pétursdóttir Viborg 3, Bryndís Elín Halldórsdóttir 3, Sigurlaug Rúnarsdóttir 2, Aðalheiður Hreinsdóttir 1, Gerður Arinbjarnar 1/1.

Varin skot : Berglind Íris Hansdóttir 18.

Utan vallar : 6 mínútur.

Mörk Stjörnunnar : Helena Rut Örvarsdóttir 7, Hanna G. Stefánsdóttir 4/2, Þórhildur Gunnarsdóttir 3, Esther Viktoría Ragnarsdóttir 1, Sólveig Lára Kjærnested 1, Arna Dýrfjörð 1.

Varin skot : Florentina Stanciu 6, Heiða Ingólfsdóttir 1.

Utan vallar : 4 mínútur.

Dómarar : Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson.

Áhorfendur : 281.

*Staðan er 1:1.