Lítil en djúp Sprungan var ekki áberandi. Bjartur þurfti að beita allri sinni kunnáttu til að komast upp.
Lítil en djúp Sprungan var ekki áberandi. Bjartur þurfti að beita allri sinni kunnáttu til að komast upp.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erla María Markúsdóttir erla@mbl.is Á fimmtudag var fjallaleiðsögumaðurinn Bjartur Týr Ólafsson með ferðamann í um 2.

Erla María Markúsdóttir

erla@mbl.is

Á fimmtudag var fjallaleiðsögumaðurinn Bjartur Týr Ólafsson með ferðamann í um 2.000 metra hæð á leið upp á Hvannadalshnjúk þegar hann sá sprungu, steig yfir hana en örfáum augnablikum síðar var hann kominn ofan í hana. Hann og samferðamaður hans féllu um 20 metra niður í sprunguna.

„Ég kem að sprungunni og stíg yfir hana, sný mér við og aðvara kúnnann og segi honum að taka stórt skref. Ég held línunni strekktri og hann fer yfir en við það hrynur talsvert magn af snjó. Þó svo að línan hafi verið strekkt var fallið það mikið að höggið sem kom í kjölfarið togaði mig niður með honum. Ég reyndi eins og ég gat að stoppa en þetta var það mikið sem féll og höggið mikið að ég náði ekki að stoppa mig.“

Tveir möguleikar í stöðunni

Bjartur áætlar að þeir hafi hrapað um 20 metra ofan í sprunguna en þar lentu þeir á syllu. „Ég leit upp og hugsaði með mér hvað við gætum gert. Ég segi honum strax að ég ætli að koma okkur upp úr þessu en það gæti tekið einhvern tíma og að hann yrði að vera rólegur.“ Hann sá tvo möguleika í stöðunni: Annaðhvort að bíða eða að reyna að klifra upp sjálfur, ótryggður.

„Ég er klifrari og nýti allan minn frítíma í það að klifra. Einhver með enga klifurreynslu hefði líklega ekki getað klifrað þarna upp úr.“ Ferðamaðurinn var að sjálfsögðu ánægður þegar Bjarti tókst að toga hann upp úr sprungunni. „En ég held að hann hafi ekki alveg kveikt á perunni hversu alvarlegt þetta hefði getað orðið. Það fyrsta sem hann spurði mig þegar hann kom upp úr sprungunni var hvort við ætluðum upp á topp.“