Þóroddur Bjarnason
Þóroddur Bjarnason
Bjarni Steinar Ottósson bso@mbl.is „Það er mikið talað um mikilvægi háskóla fyrir svæðisbundna þróun en við vitum miklu minna um þetta en við þyrftum að vita,“ segir Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri.

Bjarni Steinar Ottósson

bso@mbl.is

„Það er mikið talað um mikilvægi háskóla fyrir svæðisbundna þróun en við vitum miklu minna um þetta en við þyrftum að vita,“ segir Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri. Hann vinnur ásamt teymi háskólakennara að rannsókn á svæðisbundnum áhrifum íslenskra háskóla, en að verkefninu koma kennarar frá Háskóla Íslands og háskólunum á Akureyri, Hólum og Bifröst.

„Það er aðallega tvennt sem við viljum átta okkur almennilega á. Hið fyrra er upptökusvæði háskólanna, þ.e. hvaðan nemendur þeirra koma og hvaða máli staðsetning þeirra skiptir bæði varðandi staðar- og fjarnám. Hitt er svo að skoða svæðisbundin áhrif háskólanna á menntunarstig, efnahag og þróun á einstökum svæðum.“

Rannsóknir hafa t.d. sýnt að nemendur sem stunda nám við HA eru mun líklegri en nemendur úr HÍ til þess að finna sér starf úti á landi. „Hins vegar er HÍ miklu stærri, svo að lágt hlutfall úr HÍ gæti skipt landsbyggðirnar mun meira máli en hátt hlutfall nemenda úr HA,“ segir Þóroddur.

Skiptir staðsetning skóla máli?

Eitt af því sem rannsakendurnir munu leitast við að gera er að greina það frá hvaða skólum íbúar í tilteknum landshlutum sem eru með háskólagráður voru útskrifaðir og hvort um staðar- eða fjarnám var að ræða. „Við viljum sjá t.d. hversu algengt er að fólk sem var í staðarnámi við Háskóla Íslands sé nú fyrir austan og hversu margir voru í fjarnámi. Þannig getum við fengið raungildisgagnagrunn sem við getum nýtt til þess að velta fyrir okkur stefnumótun í háskólamálum.“

Þóroddur sér einnig fram á víðtækari samkeppni háskóla í framtíðinni. „Eitt af því sem við sjáum er að eftir því sem fjarnámið eflist getur maður stundað háskólanám hvaðan sem er og í hvaða skóla sem er. Staðsetning bæði nemenda og skóla skiptir þannig sífellt minna máli.“

Skoða skóla 19. aldar

Hluti af rannsókninni felst í að skoða þróun skóla á Íslandi aftur á 19. öld en þar segir Þóroddur ýmsar hliðstæður við núverandi aðstæður að finna. „Við fórum frá farskólum þar sem kennarar ferðuðust um landið til heimavistarskóla og frá þeim yfir í það að byggja skóla í öllum byggðarlögum. Með fjarnáminu má segja að við séum komin í heilan hring aftur til farskólanna þar sem kennararnir eru komnir aftur inn á heimilið, að vísu með rafrænum hætti.“