Ólafur Þór Ævarsson
Ólafur Þór Ævarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Svövu Jónsdóttur, Sveinbjörgu Júlíu Svavarsdóttur, Ragnheiði Guðfinnu Guðnadóttur og Ólaf Þór Ævarsson.: "Sálfélagsleg vinnuvernd leggur grunn að vönduðum samskiptum, gleðiríku lífi og góðri heilsu og um leið hagkvæmari rekstri fyrirtækja."

Heilsuvernd og forvarnir gegn sjúkdómum eru nútímalegar og mikilvægar leiðir til að efla heilsu. Áhugi og umfjöllun um mikilvægi heilsu, lífsstíl og hamingju hefur aukist og kemur meðal annars fram í mikilli umfjöllun í fjölmiðlum og á samskiptamiðlum. Stjórnendur fyrirtækja hafa líka áttað sig á gildi forvarna til að draga úr kostnaði vegna veikinda. Vinnuvernd er nýr og mikilvægur vettvangur fyrir forvarnir og heilsueflingu. Mikilvægt er að vekja athygli á þessu og glæða áhuga stjórnenda og starfsmanna í fyrirtækjum. Lög um vinnuvernd eru vönduð á Íslandi og stuðla að góðri þróun á þessu sviði. Rík skylda er á atvinnurekendum um að gæta að vellíðan í vinnu og aðgerðum sem vernda andlega og líkamlega heilsu. Sá þáttur vinnuverndar sem snýr að samskiptum, geðheilsu og streitu nefnist sálfélagsleg vinnuvernd og um þetta er fjallað hér.

Allir vita að vellíðan í starfi sem leik og lífshamingja er undirstaða góðrar heilsu en þetta kemur ekki af sjálfu sér og þessum þáttum þarf að hlúa að af kostgæfni. Vel er þekkt að streita getur haft mikil áhrif á líðan og truflað samskipti og vinnugetu. Streita og streitutengd vandamál eru algengustu orsakir fjarveru frá vinnustað. Veikindafjarvera veldur truflun og kostnaði. Nýjar rannsóknir benda líka til að veikindanærvera valdi ekki síður truflun í rekstri fyrirtækja og sé jafnvel meiri kostnaðarauki. Veikindanærvera er heitið yfir vinnuskerðingu sem hlýst af veikindum þó starfsmaðurinn sé mættur. Hann getur verið með skerta vinnufærni vegna sýkingar eða fótbrots svo dæmi séu tekin. Þó er það algengara að streita sé orsök þess að starfsmaður er á staðnum, óvinnufær og andlega fjarverandi. Sá sem er sjúkur af streitu þjáist af ofurþreytu og skerðingu á einbeitingu og andlegri getu sem skiljanlega hefur mikil áhrif á vinnuframlagið.

Rannsóknir hafa sýnt að langvinn og neikvæð streita getur í sumum tilfellum verið alvarlega heilsuspillandi. Sú tegund streitu veldur kulnun í starfi sem leiðir til andlegrar fjarveru, áhugaleysis og samskiptaörðugleika sem valda frekari vanlíðan og truflun á vinnuanda á staðnum.

Sálfélagslegt áhættumat

Stjórnendum fyrirtækja ber skv. lögum að framkvæma áhættumat sem varpar ljósi á líðan starfsmanna og fyrirbyggir óheilbrigt vinnuumhverfi með heilsuskaðandi streitu eða óheilbrigðum samskiptum sem leitt getur til vanlíðunar, áreitis eða eineltis. Slíkt mat dregur upp á yfirborðið áhættuþætti og gefur vísbendingar um hvar þurfi að hlúa að þáttum í starfi sem eru ósýnilegir, óáþreifanlegir og oft ósagðir. Þessir þættir hafa ekki síður áhrif á velferð starfsmanna líkt og það áþreifanlega starfsumhverfi sem þeir eru í. Tilkynna ber um hættulegar aðstæður sem skapast hafa vegna óeðlilegs álags og streitu ekkert síður en að láta þarf vita af slysahættu vegna eiturefna.

Heilsusamlegur vinnustaður

Stjórnendum fyrirtækja ber að afla sér upplýsinga og sjá til að í fyrirtækinu sé nægileg þekking til að vinna að sálfélagslegri vinnuvernd. Þeir þurfa að sjá til að upplýsa starfsmenn um lög og reglugerðir um vinnuvernd, veita fræðslu, setja heilsueflandi markmið og gera áætlanir um hvernig bregðast eigi við ef eitthvað fer úrskeiðis.

Samspil vinnu og einkalífs er mikilvægt fyrir einstaklinginn, fjölskylduna og rekstur fyrirtækisins. Áhugasamur og hraustur starfsmaður í góðu andlegu jafnvægi er dýrmætur fyrir fyrirtækið. Þeir sem eiga erfiðara með að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf eru undir meira álagi og streitu en einstaklingar sem eiga auðvelt með það. Samfélagsleg ábyrgð er samofin því að auka möguleika einstaklinga á að finna þá leið sem hentar best. Hugtakið er víðtækt, en í góðri starfsmannastefnu atvinnuveitenda felst m.a. samfélagsleg ábyrgð. Tillit er tekið til menningar og umburðarlyndi er fyrir því óhefðbundna. Þetta styður umbætur í samfélaginu og samþættir félags-, umhverfis- og efnahagsleg gildi. Samþættingin stuðlar líka að betri starfsháttum innan fyrirtækisins. Rannsóknir sýna að samfélagsleg ábyrgð borgar sig til lengri tíma fyrir fyrirtækið, stofnunina, fjölskyldur og samfélagið í heild.

Mikilvægi mannauðsins er ljós og mörg fyrirtæki hafa ráðið til sín stjórnendur með menntun og reynslu í mannauðsfræðum og vinnusálfræði til að vinna að þessum málum. Fjárhagslegur ávinningur forvarna og vinnuverndar fyrir fyrirtæki og vinnumarkaðinn í heild er umtalsverður hvað varðar aukna framleiðni, minnkaða veikindafjarveru, minni slysahættu, minni starfsmannaveltu eða andlega fjarveru og marga fleiri kostnaðarþætti.

Ekki er síður áhugavert fyrir einstaklinga að búa við góðar aðstæður og örvandi umhverfi í vinnunni þar sem þeir eyða drjúgum hluta ævinnar.

Skv. nýjustu erlendu rannsóknum eru þetta þeir þættir sem skipta mestu máli: Vellíðan í starfi, að ráða nánasta starfsumhverfi sínu og starfsaðstæðum, að búa við starfsöryggi og möguleika á stuðningi og að hafa tækifæri til að blómstra í starfi. Góð samvinna starfsmanna og stjórnenda fyrirtækja um forvarnir og vinnuvernd gefur frábært tækifæri til að bæta líðan og heilsu og auðga líf fólks.

Höfundar eru sérfræðingar í sálfélagslegri vinnuvernd og forvörnum og streituvörnum.

Höf.: Svövu Jónsdóttur, Sveinbjörgu Júlíu Svavarsdóttur, Ragnheiði Guðfinnu Guðnadóttur, Ólaf Þór Ævarsson