[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Talsverðar breytingar urðu á verkefnum hjá Veðurstofu Íslands í kjölfar Eyjafjallagossins 2010.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Talsverðar breytingar urðu á verkefnum hjá Veðurstofu Íslands í kjölfar Eyjafjallagossins 2010. Á því ári er Veðurstofa Íslands útnefnd „Eldfjallaeftirlitsstöð“ gagnvart alþjóðafluginu af Flugmálastjórn, nú Samgöngustofu, og sem slík ber Veðurstofunni að fylgst sérstaklega með áhrifum eldgoss á flug auk hefðbundinnar flugveðurþjónustu í íslenska loftrýminu yfir Norður-Atlantshafi, samkvæmt upplýsingum Hafdísar Þóru Karlsdóttur, setts forstjóra Veðurstofunnar.

Hafdís segir að samningurinn við Alþjóðaflugmálastofnunina (ICAO) byggist á endurheimt útlagðs kostnaðar“ [Cost recovery]. Í Eyjafjallajökulsgosinu 2010 hafi berlega komið í ljós hvaða áhrif dreifing eldfjallaösku hefði á flug og flugleiðir, samanber lokun loftrýma og flugvalla í Evrópu. Takmarkaðar mælingar nálægt rótum eldgossins voru mjög hamlandi á að meta með áreiðanlegum hætti útbreiðslu ösku í loftrýminu.

Til að mynda var á árinu 2010 aðeins ein veðursjá á Íslandi, á Miðnesheiði. Sú veðursjá náði engan veginn að skanna allt landið og gat því ekki fylgst með dreifingu ösku til austurs eða norðurs, né heldur var unnt að meta magn gosefna með þeirri veðursjá.

Veðursjám fjölgað

„Í Grímsvatnagosinu ári seinna var færanleg veðursjá fengin að láni frá Ítalíu til að fylgjast með útstreymi og dreifingu á ösku og reyndist það vel. Í framhaldi af því voru keyptar tvær færanlegar veðursjár og ein staðbundin sem staðsett er á Austurlandi. Kaup og rekstur þessara veðursjáa er alfarið greiddur af notendagjöldum sem ICAO sér um að innheimta frá þeim flugfélögum sem ferðast um íslenska loftrýmið, en fjárfestingin var yfir hálfur milljarður króna,“ segir Hafdís.

Veðurstofan veitir flugveðurþjónustu vegna alþjóðaflugsins á sólarhringsvöktum alla daga ársins, bæði í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli. Einnig er greitt fyrir kostnað við rekstur veðureftirlits á Höfn og í Bolungarvík. Samningurinn greiðir laun og kostnað vegna yfir tuttugu starfsmanna, annars vegar vegna flugveðurþjónustu og hins vegar vegna eldfjallaeftirlits. Að auki er greiddur kostnaður við rekstur þeirra tækja sem þörf er á vegna fyrrgreindra þjónustu.

Auknar greiðslur

Greiðslur frá ICAO hafa þróast úr því að vera 313,6 milljónir 2010 og yfir í það að vera 616,4 milljónir 2015. Þessi aukning er aðallega til komin vegna eldfjallaeftirlits sem kostar um 200 milljónir króna á ári, en einnig vegna aukinnar kröfu frá alþjóða veðurmálastofnuninni (WMO) og ICAO um reglulega endurmenntun starfsmanna og almennra kostnaðarhækkana.

Auknar sértekjur

Sértekjur Veðurstofu Íslands námu 1.476 milljónum króna í fyrra og eru 57% tekna stofnunarinnar sértekjur. Þær hækkuðu um 353 milljónir frá árinu á undan.

Hækkunin stafar að mestu af aukinni vinnu fyrir alþjóðaflugið og Ofanflóðasjóð, samtals 109 millj. kr., og 185 milljóna króna greiðslu frá dönsku veðurstofunni vegna uppbyggingar stoðkerfa fyrir komu ofurtölvu þeirra til Veðurstofunnar.

Vöktun vegna Kötlu

Síðastliðið sumar var þenslumæli komið fyrir í borholu við Eystri- Skóga við jaðar Mýrdalsjökuls til vöktunar Kötlu. Þaðan er gögnum streymt í nær-rauntíma til Veðurstofunnar. Með þessari framkvæmd er vonast til að greina megi kvikuinnskot og streymi kviku að yfirborði með meiri nákvæmni en áður. Næmni þenslumæla er þreföld á við hefðbundna GPS-mæla og tíðnisvið breiðara en flestra jarðeðlisfræðilegra mælakerfa.