Alfreð Finnbogason
Alfreð Finnbogason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alfreð Finnbogason hefur lagt gífurlega þung lóð á vogarskálarnar fyrir þýska knattspyrnuliðið Augsburg sem er í harðri fallbaráttu.
Alfreð Finnbogason hefur lagt gífurlega þung lóð á vogarskálarnar fyrir þýska knattspyrnuliðið Augsburg sem er í harðri fallbaráttu. Hann skoraði sigurmarkið gegn Stuttgart, 1:0, á laugardaginn með laglegu skoti og er nú búinn að skora fjögur mörk í síðustu fimm leikjum liðsins. Fimm mörk alls síðan hann kom til félagsins frá Olympiacos í janúar.

Með tveimur sigrum í röð gegn keppinautum í fallbaráttunni hefur Augsburg náð að halda sér fyrir ofan fallsvæðið. Augsburg er með 33 stig og fór uppfyrir Stuttgart, sem er líka með 33, og Werder Bremen, sem liðið vann 2:1 á útivelli um fyrri helgi, er með 31 stig í 16. sætinu, sem er umspilssæti. Ljóst er hve gífurlegt vægi þessi tvö síðustu mörk Alfreðs hafa haft í þessum slag.

* Birkir Bjarnason skoraði í gær tólfta mark sitt á þessu keppnistímabili fyrir Basel í Sviss sem rótburstaði St. Gallen 7:0 á útivelli. Birkir og félagar eiga meistaratitilinn vísan en þeir eru með átján stiga forskot á Young Boys þegar átta umferðum er ólokið og þurfa því aðeins sjö stig til viðbótar til að vera algjörlega öruggir.

* Matthías Vilhjálmsson skoraði í gær fyrsta mark sitt fyrir Rosenborg á tímabilinu, glæsilegt skallamark sem kom meisturunum á bragðið gegn Brann í 3:0 heimasigri. Rosenborg er á toppi norsku úrvalsdeildarinnar með 12 stig eftir fimm umferðir.

* Kjartan Henry Finnbogason tryggði Horsens í gær ákaflega dýrmætan sigur á Roskilde, 2:1, í dönsku B-deildinni. Horsens stendur vel að vígi í baráttunni um sæti í úrvalsdeildinni, er í öðru sæti en þrjú efstu liðin fara upp. Sigurmarkið gerði hann hjá Frederik Schram sem í gær samdi við Roskilde um að verja mark liðsins út þetta tímabil.

*Fleiri íslenskir knattspyrnumenn gerðu það gott með liðum sínum um helgina. Eiður Smári Guðjohnsen lagði upp sigurmark Molde gegn Hannesi Þór Halldórssyni og félögum í Bodö/Glimt. Arnór Ingvi Traustason lagði upp eitt marka sænsku meistaranna Norrköping í 4:1 sigri á AIK og Ari Freyr Skúlason krækti í vítaspyrnu fyrir OB sem burstaði Viborg 5:1 í dönsku úrvalsdeildinni. vs@mbl.is