Kína Páll Pálsson ÍS og Breki VE verða sjósettir í Rongcheng á morgun. Skipin hafa fylgst að frá fyrstu skrefum og verða afhent á sama tíma í sumar.
Kína Páll Pálsson ÍS og Breki VE verða sjósettir í Rongcheng á morgun. Skipin hafa fylgst að frá fyrstu skrefum og verða afhent á sama tíma í sumar. — Ljósmynd/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Nýir togarar Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífsdal og Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum verða sjósettir í skipasmíðastöðinni í Rongcheng í Kína á morgun.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Nýir togarar Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífsdal og Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum verða sjósettir í skipasmíðastöðinni í Rongcheng í Kína á morgun. Skipin eru smíðuð samhliða og hafa þegar fengið nöfnin Páll Pálsson ÍS og Breki VE. Skipin eru smíðuð eftir íslenskri hönnun og verða afhent nýjum eigendum í sumar.

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri HG, segir að mikil breyting verði með tilkomu nýja skipsins, en togarinn Páll Pálsson verður tekinn úr rekstri. Hann var smíðaður í Japan fyrir Hraðfrystihúsið í Hnífsdal og kom til landsins 1973. Skipstjóri á nýjum Páli verður Páll Halldórsson, sem nú er með eldri Pál Pálsson. Skipsnafnið er sótt til Páls útvegsbónda Pálssonar í Hnífsdal, afa skipstjórans.

Tvöföld hátíð í haust

Nýju skipin eru 50,7 metrar að lengd og 12,8 metra breið. Vegna nýstárlegrar hönnunar á skrokkum skipanna og mun stærri skrúfu heldur en nú tíðkast á þessari stærð skipa er áætlað að þau hafi um 60% meiri veiðigetu en þau skip sem þau leysa af hólmi án þess að eyða meiri olíu.

Þá verða skipin búin þremur rafdrifnum togvindum og geta því dregið tvö troll samtímis, sagði í kynningu er greint var frá smíði skipanna.

Við sjósetningu verður búið að grunna skipin, en síðar verða þau aftur tekin upp. Þá verða skrokkarnir sandblásnir, sinkhúðaðir svo þeir ryðgi síður og síðan málaðir í litum fyrirtækjanna. Einar Valur segir að í haust verði ástæða til að halda tvöfalda hátíð. Annars vegar vegna komu nýja skipsins og hins vegar afmælishátíð, en fyrirtækið og forverar þess höfðu í janúar stundað útgerð og fiskvinnslu við Ísafjarðardjúp í 75 ár. Hjá fyrirtækinu starfa um 250 manns í 140 stöðugildum.

Sögulok með sölu Framnessins

Stórt framfaraskref var stigið í atvinnusögu Vestfjarða árið 1971 er samið var um smíði á fimm skuttogurum í Flekkefjord í Noregi. Skipin komu hvert af öðru til Ísafjarðar, þrjú talsins, Þingeyrar og Súðavíkur og reyndust mikil aflaskip. Síðasta skipið í þessum flota er nú að hverfa úr íslenskri skipaskrá, en Arnarborg ÍS, áður Framnes ÍS og Gunnbjörn ÍS, hefur verið seld úr landi og hélt frá Reykjavík síðdegis á föstudag. Má því segja að um ákveðin sögulok sé að ræða.

Togararnir fimm komu til landsins á árunum 1972 til 1974. Júlíus Geirmundsson kom fyrstur, síðan Guðbjartur, Framnes, Bessi og Guðbjörg. Skipin voru öll af sömu gerð, en Guðbjörg var á smíðatímanum lengd um rúma þrjá metra. Sjötta skipið sem var smíðað eftir nánast sömu teikningu í Flekkefjord var Björgvin EA, sem gerður var út frá Dalvík.

Ekkert þessara skipa er lengur í rekstri hérlendis, en fregnir hafa borist af einhverjum þeirra síðustu ár undir erlendu flaggi. Fram kom í BB á Ísafirði nýlega að gamla Framnesið, sem gert var út frá Þingeyri, hefði verið selt til Dubai. Frá Þingeyri var togarinn Sléttanes einnig gerður út.

Skuttogarabyltingin var í hámarki á áttunda áratugnum og um svipað leyti og togararnir frá Flekkefjord komu vestur komu einnig Páll Pálsson til Hnífsdals, en hann var smíðaður í Japan, og Dagrún til Bolungarvíkur, smíðuð í Frakklandi.

Stefnir ÍS, áður Gyllir, kom síðan til Flateyrar 1976 og var fertugsafmælisins minnst nýlega, en HG gerir skipið út. Sögufróður maður rifjaði upp að sama dag og Gyllir kom til Flateyrar sagði Harold Wilson af sér sem forsætisráðherra í Bretlandi! Tvær stórfréttir sama daginn, sagði hann. aij@mbl.is