Tilfinningar Gísla líður vel þegar hann sest undir stýri á Dodsinum.
Tilfinningar Gísla líður vel þegar hann sest undir stýri á Dodsinum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Vegfarendur um hringveginn á milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs og sérstaklega þeir sem beygja inn á Skaftártunguveg og aka framhjá bænum Ytri-Ásum geta átt von á að mæta vígalegum hertrukki með skaftfellsku skráningarnúmeri, Z-13. Gísli Halldór Magnússon, bóndi í Ytri-Ásum, viðrar stundum Dodge Weapon-bíl sinn úti á vegunum.

Gísli Halldór keypti bílinn frá Noregi í vetur. „Ég átti einu sinni svona bíl, Dodge Weapon, árgerð 1953. Hann er enn til, í Svínafelli í Nesjum. Annars er þetta eins og hver annar bjánaskapur. Það eru til fíknir. Ég er með söfnunarfíkn á gamalt drasl, sérstaklega á byssudót,“ segir Gísli Halldór þegar litið er inn í skemmu til hans. Hún er full af bílum, dráttarvélum og öðrum tækjum.

Bóndinn vekur sérstaka athygli á gömlum vörubíl, Volvo Viking, árgerð 1955, sem er með aldrifi og spili. Arnbergur Sigurbjörnsson frá Svínafelli í Nesjum gerði bílinn upp. Halldór segir að fluttir hafi verið inn fimm bílar af þessari gerð og þetta sé eini bíllinn sem eftir er.

Með stjörnu bandamanna

Dodge Weapon-bíllinn er skreyttur með stórri hvítri stjörnu eins og bandamenn notuðu í seinni heimsstyrjöldinni og Bandaríkjaher notaði áfram. Það vísar til uppruna bílsins. Tor Jørgen Jacobsen, í Alta í Finnmörku í Noregi, sem átti bílinn í nokkur ár og seldi Gísla Halldóri, segir að Dodsinn hafi verið smíðaður í bandarísku verksmiðjunum og afhentur Bandaríkjaher á árinu 1943, þótt hann sé skráður árgerð 1944. Bílar af þessari gerð voru til margra hluta nytsamlegir í stríðinu, meðal annars til að flytja hergögn og senditæki og einnig voru þeir notaðir sem sjúkrabílar.

Þessi bíll fór til Noregs eftir stríðið sem hluti af Marshall-aðstoð Bandaríkjamanna við Norðmenn og var þar í þjónustu norska hersins. Seinna var hann seldur til einstaklings í Norland sem gerði hann upp og seldi Jacobsen fyrir fimm eða sex árum.

Tor Jacobsen segist ekki hafa notað bílinn mikið, aðeins ekið honum stöku sinnum sér til ánægju.

Fólkið flutt á þorrablót

Gísli Halldór í Ásum notar Dodsinn heldur ekki mikið. Nóg er að gera hjá einyrkja við búskapinn. Hann segist þó stundum monta sig úti á vegum. Þótt bíllinn sé merktur Bandaríkjaher ekur Gísli Halldór honum óvopnaður og engin hætta starfar af.

Bíllinn er í góðu lagi, að sögn Gísla, og gott að aka honum. Hann er þó fornaldarverkfæri, gerður upp í sinni fyrstu mynd, og Gísli Halldór segist ekki nota hann til langferða. Bíllinn er skráður fyrir tíu manns, tvo fammi í húsinu og átta á pallinum. Helstu fólksflutningarnir voru í vetur þegar Dodsinn var notaður til að aka ballfólki á þorrablót sveitarinnar í félagsheimilinu Tunguseli.