Svanhildur Karlsdóttir Eriksen fæddist 7. ágúst 1956. Hún lést 10. janúar 2016.

Útför Svanhildar fór fram 18. janúar 2016.

Elsku mamma mín, sunnudagar verða mér erfiðir um ókomna tíð, þar sem við vorum vön að tala alltaf saman þá. En þennan sunnudagsmorgun, þann 10. janúar, er ég vakinn upp með símtali um að þú sért farin. Ég næ ekki að hugsa skýrt, fyrst Einar Trausti og nú þú. Ég hreinlega skil þetta ekki, af hverju þið eruð tekin svona fljótt frá okkur. Kvöldið áður en þú kvaddir okkur fórum við Magga oft inn á facebookið þitt til að skoða uppskrift sem þú hafðir deilt. Þetta voru bollur og gerðum við þær á laugardagskvöldinu og ætlaði ég svo að hringja í þig daginn eftir og segja þér hvernig þetta heppnaðist hjá okkur. En því miður þá náði ég því ekki. Mér er svo minnisstæð vikan sem þú varst hjá okkur í ágúst þegar við Magga giftum okkur. Það var mikið brallað saman, við horfðum á hrollur og átum popp langt fram eftir og á daginn skipulögðum við brúðkaupið. Þú varst svo ánægð og glöð að loksins væri dagurinn okkar að renna upp. Ég er svo endalaust þakklátur fyrir þessar stundir og fyrir það að þú gast upplifað þennan dag með okkur. Og er ég svo þakklátur að hafa átt þig sem móður og hefði ég viljað geta sagt þér það aftur og aftur, elsku mamma. Tilhlökkunin um að halda næsta Pálínuboð sem verður hjá mér, án þín, mun verða svo tómlegt, því ég vissi hvað þú varst glöð yfir því að ég myndi halda það fyrir þína hönd. Og við glöð því þá fengjum við að hafa þig hjá okkur þar sem þú áttir nú þitt herbergi hérna. Hvert á ég að leita núna? Mér finnst svo erfitt að hugsa til þess að ég muni aldrei sjá þig aftur eða geta talað við þig aftur. En ég veit að þú vakir yfir okkur og Einar bróðir líka. Það er svo erfitt að útskýra fyrir börnunum að nú skulir þú vera farin frá okkur. Þeir skilja ekki að þú mundir ekki koma aftur og gista hjá okkur. Ég er svo frosin og dofin. Ég mun alltaf elska þig og vera þakklátur fyrir þann tíma sem við áttum saman. Þó sumir tímar hafi verið erfiðir. En ég veit að við munum hittast á ný, en þó ekki strax. Á meðan mun ég geyma allar okkar minningar í hjarta mínu og bið þig um að passa Einar á meðan.

Þinn sonur,

Karl Eriksen.

Elsku mamma, ég veit ekki hvar skal byrja. Þetta hafa verið ansi skrýtnir og ömurlegir rúmir fjórir mánuðir. Einhvern veginn finnst mér þetta ósanngjarnt, fyrst Einar og svo þú en nú eruð þið sameinuð að nýju og verður það gott að geta kíkt á ykkur bæði hér í Borgarnesi.

Það var svo gaman að fá þig hingað í húsmæðraorlof, hvort sem það var þegar þú komst til Einars heitins eða til okkar Karenar og Alexanders. Einnig rifjast upp þegar ég skrifa þetta allar mínar ferðir Austur til þín og Ronna, sér í lagi allar humarhátíðirnar, flugeldasýning á jökulsárlóni og útsýnisferðirnar sem ég met mikils. Gaman hefði verið að búa á sama landshluta og þú og hitta ykkur oftar, en að búa svona langt frá hvort öðru var erfitt fyrir mig og ég veit að það var erfitt fyrir þig einnig.

En núna þurfum við fjölskyldan og vinir að standa vel saman og hugsa um allar góðu minningarnar sem við eigum.

Elska þig, mamma, og sakna þín,

Jón Ingi.