Efi Við rífum okkur niður með því að efast um að við höfum gert nógu vel.
Efi Við rífum okkur niður með því að efast um að við höfum gert nógu vel. — Thinkstockphotos
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þessi nagandi tilfinning. Þessi lamandi ótti. Ég er viss um það að ég brást. Minnimáttarkennd. Ég hefði átt að gera betur, vita betur, geta betur. Ég er ekki nóg. Skömmin hreiðrar um sig í maganum, ég skrepp saman og sé ekki von.

Þessi nagandi tilfinning. Þessi lamandi ótti. Ég er viss um það að ég brást. Minnimáttarkennd. Ég hefði átt að gera betur, vita betur, geta betur. Ég er ekki nóg. Skömmin hreiðrar um sig í maganum, ég skrepp saman og sé ekki von. Ég get ekki betur“.

Þessi niðurdrepandi vafi um eigin frammistöðu er ein af algengari skekkjum í mati fólks á eigin ágæti. Með snjóboltaáhrifum tímans vefur þetta upp á sig, dreifir sér um mismunandi aðstæður og hefur áhrif á fleiri og fleiri hversdagsleg augnablik eftir því sem þetta festir rætur sínar í sjálfsmatinu og sýninni á veruleikanum. Hið besta fólk spyr sig hljóðlega, „hvað ef það er samt satt að ég sé bara ekki nógu góð/ur? Hvað ef það er samt satt að ég hefði átt að gera betur?“

Mín reynsla er að þeir sem efast mest séu einmitt þeir sem vanda sig mest.

Flest erum við oftast að reyna okkar besta. Auðvitað gefum við stundum eftir enda væri einstaklega óeðlilegt að gera það ekki. Okkar besta rokkar nefnilega eftir veðrum og vindum af því við erum lifandi verur sem verðum fyrir áhrifum af fólki, lífinu og umhverfinu. Það gerir að stundum er okkar besta skiljanlega ekki jafn glæsilegt og á öðrum stundum. Ef hástökkvari nær ekki sinni hæstu hæð í hverju stökki, þýðir það að hann sé ekki að gera sitt besta í hvert sinn? Þýðir það að hann hafi brugðist? Er ekki raunverulegur munur á því að gera sitt besta, gera eins og maður getur á hverri stundu og því að ná sínum besta árangri?

Sérð þú það oft eftirá að þú hefðir átt að gera eitthvað betur? Einmitt. Ein hliðin á því er svo frábær og heitir að læra af reynslunni, hafa greiningarhæfni og vilja til að standa sig. Hún er hvetjandi og kennir okkur eitthvað um okkur og hvernig við getum vaxið.

Hin hliðin er skekkjan í matinu, niðurbrotið og hinn ósveigjanlegi, ósanngjarni dómur. Það að vita betur eftirá gæti sem sagt þýtt að þú hafir gert eins og þú gast. En í betri, rólegri eða öðrum aðstæðum hafir þú séð hlutina í öðru ljósi, metið á nýjan hátt og séð möguleika til vaxtar. Ekki brugðist. Ég býð þér að horfa til baka. Það sem þú sérð sem mistök, klúður, illa gert eða ekki nóg, það býð ég þér að endurmeta. Ef efasemdirnar eru þess eðlis að þær brjóta niður en móta ekki grunn að uppbyggilegum framförum, þá eru þær kannski þess eðlis að vera skakkar. Ég velti því upp hverju það myndi breyta fyrir þig ef þú gætir lært af reynslunni en með mildi fyrir sjálfri/sjálfum þér séð að þú gerðir þitt besta og eins og þú gast einmitt þá. Ég velti því upp hvernig þér myndi líða ef þú stæðir með þér.

Heilsustöðin, sálfræði- og ráðgjafarþjónusta, Skeifunni 11a, Rvk. www.heilsustodin.is

Höf.: Mjöll Jónsdóttir Sálfræðingur