Helgi Jónas Guðfinnsson er fæddur 18. apríl 1976 í Neskaupstað en 11 ára flutti hann til Grindavíkur þar sem hann býr enn. Hann var nokkur sumur í sveit hjá afa sínum og ömmu (fósturömmu, Guðrúnu Tryggvadóttur) á Mýrum rétt hjá Borgarnesi, nánar tiltekið á Þursstöðum. Helgi gekk fyrstu árin í Nesskóla en svo fór hann í Grunnskóla Grindavíkur. Hann varð stúdent á íþróttabraut frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 1995.
Körfuboltaferillinn
Frá unga aldri var Helgi mikið í íþróttum og hefur hann stundað flestar íþróttir, en hann var samt mest á skíðum, í fótbolta og körfubolta. Hans aðalgrein var körfubolti og á hann bæði landsleiki með unglingalandsliðum og A-landsliði Íslands. Árið 1998 flutti Helgi til Hollands þar sem hann gerðist atvinnumaður í körfubolta og spilaði fyrir Donar í Gronigen. „Eftir eitt ár í Hollandi flutti ég mig um set og átti frábært ár í Antwerpen þar sem ég fagnaði bæði Belgíumeistara- og bikarmeistaratitlinum. Árið eftir spilaði ég með Leper í Belgíu en það tímabil endaði ekki eins vel því liðið fór á hausinn.“Eftir það flutti Helgi aftur til Íslands og spilaði þar í nokkur ár með Grindavík en bakmeiðsli gerðu honum erfitt fyrir og því varð hann að leggja skóna á hilluna 29 ára gamall. Helgi tók hins vegar skóna fram árið 2009 og spilaði tímabilið með gamla liðinu sínu, Grindavík.
Helgi varð þrisvar bikarmeistari með Grindavík og einu sinni Íslandsmeistari. Hann hefur þar að auki einu sinni orðið Íslandsmeistari með Grindavík sem þjálfari. Helgi var tvisvar kosinn besti leikmaður Íslandsmótsins í körfu. Fyrst árið 1998 og síðan 2003. Helgi lék 63 landsleiki með A-landsliði Íslands. Helgi lék nokkra leiki með meistaraflokki Grindavíkur í fótbolta í efstu deild.
Einbeitir sér að þjálfun
„Undanfarin ár hef ég eytt miklum tíma í að mennta mig á sviði þjálfunar en mottó mitt í lífinu er að hætta aldrei að læra og mér finnst mikilvægt að fólk haldi áfram að lesa sér til og bæta við sig menntun. Vilji fólk verða á toppnum á sínu sviði þá þarf það að endurmennta sig, annars dregst það bara aftur úr.“Helgi kenndi þjálfun við ÍAK einkaþjálfaranám Keilis frá árinu 2007 til 2011. Enn fremur var Helgi aðstoðarlandsliðsþjálfari karla í körfubolta og aðalþjálfari karlaliðs Grindavíkur og síðast Keflavíkur í körfubolta.
„Eftir að ég kom heim byrjaði ég að starfa sem einkaþjálfari og er enn að gera það í dag. Ég bjó til æfingakerfið Metabolic árið 2011 sem er notað víða um land. Ég rek núna Metabolic-æfingastöð í Reykjanesbæ en hún var opnuð árið 2012.“
Helgi hefur skrifað eina bók, Where Fit Happens, en hún fjallar um skorpuþjálfun og hefur hlotið mjög góða dóma.
Fjölskylda
Eiginkona Helga er Arnfríður Kristinsdóttir, f. 27.9. 1976, snyrtifræðingur. Foreldrar hennar: Kristinn Garðarsson, f. 5.3. 1943, vélsmiður í Grindavík, og k.h. Svava Gunnlaugsdóttir, f. 3.3. 1944, þroskaþjálfi í Grindavík.Börn Helga og Arnfríðar: Arnór Tristan Helgason, f. 24.7. 2006, og Aníta Rut, f. 9.10. 2008.
Systur Helga: Astrid Rún Guðfinnsdóttir, f. 8.11. 1985, bús. í Kópavogi, og Svava Björk Mörk, f. 28.6. 1971, leikskólakennari í Hafnarfirði.
Foreldrar Helga: Guðfinnur Friðjónsson, f. 26.8. 1952, matsveinn og sjómaður, og k.h. Lilja Bára Gruber, f. 6.7. 1952, snyrtifræðingur. Þau eru bús. í Kópavogi.