Á vettvangi . Verkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands eru margvísleg og hafa aukist með nýjum náttúruverndarlögum. Á myndinni mælir Rannveig Thoroddsen gróður við jarðhita í Langholti í Borgarfirði.
Á vettvangi . Verkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands eru margvísleg og hafa aukist með nýjum náttúruverndarlögum. Á myndinni mælir Rannveig Thoroddsen gróður við jarðhita í Langholti í Borgarfirði. — Ljósmynd/Ásrún Elmarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Með nýjum náttúruverndarlögum sem samþykkt voru á Alþingi um miðjan nóvember, og tóku þá gildi, fékk Náttúrufræðistofnun Íslands aukið hlutverk í framkvæmd og stjórnsýslu náttúruverndar.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Með nýjum náttúruverndarlögum sem samþykkt voru á Alþingi um miðjan nóvember, og tóku þá gildi, fékk Náttúrufræðistofnun Íslands aukið hlutverk í framkvæmd og stjórnsýslu náttúruverndar. Sá böggull fylgdi skammrifi að ekkert fjármagn fylgdi auknum verkefnum, að sögn Jóns Gunnars Ottóssonar, forstjóra stofnunarinnar. Hann segir að um sé að ræða mörg ný, mannfrek og kostnaðarsöm verkefni, sem enn eigi eftir að skipuleggja og fjármagna.

„Margt af þessu tengist verkefninu Natura Ísland sem við höfum unnið að síðustu ár, en lýkur í lok þessa árs. Við sinnum nýjum verkefnum að hluta með þeirri vinnu sem þar er enn í gangi, en á næsta ári versnar staðan komi ekki til fjárveitinga. Í ár fáum við 50 milljónir frá ríkinu vegna Natura Ísland og við þurfum alla vega þá upphæð á næsta ári til að sinna nýjum verkefnum. Ég hef sent umhverfisráðuneytinu mínar tilllögur og hef einnig rætt við ráðuneytið, en veit ekki hvernig þessu lyktar,“ segir Jón Gunnar.

Náttúruminjaskrá og ábyrgð á vöktun

Hann segir breytingarnar meðal annars felast í mjög auknu hlutverki varðandi náttúruminjaskrá, en þau verkefni færist að hluta til frá Umhverfisstofnun. Einnig eigi stofnunin að bera ábyrgð á vöktun lykilþátta íslenskrar náttúru, vinna heildstæða vöktunaráætlun fyrir allt landið og hrinda henni í framkvæmd. Undanskilin eru verkefni sem eru falin öðrum með lögum.

Þá eigi stofnunin að kortleggja náttúrufyrirbæri sem njóti sérstakrar verndar, eins og allt nútímahraun, eldvörp, fossa og votlendi. Þessa skráningu eigi að gera aðgengilega fyrir þá sem á þurfa að halda, t.d. framkvæmdaaðila og sveitarstjórnir.

Andstaða heimamanna

Umhverfisráðherra lagði fram á Alþingi í haust lagafrumvarp þar sem m.a. er kveðið á um sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Jón Gunnar segir að fagleg og fjárhagsleg rök mæli með þessari sameiningu og starfsfólk stofnananna sé sátt við hana. Málið er nú til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins. Í frumvarpinu var kveðið á um gildistöku 1. janúar síðastliðinn.

Margar umsagnir hafa borist vegna frumvarpsins og í athugasemdum heimamanna er lagst gegn þessari sameiningu. Má þar nefna Héraðsnefnd Þingeyinga, stjórn Eyþings, stjórn Náttúrustofu Norðausturlands, bæjarstjórn Norðurþings, sveitarstjórn Skútustaðahrepps, stjórn Veiðifélags Laxár og Krákár, stjórn Veiðifélags Mývatns og Þekkingarnets Þingeyinga.

Í umsögn héraðsnefndar segir meðal annars: „Nefndin lýsir algerri andstöðu við þessi sameiningaráform, sem byggjast á þeirri meginhugmynd að miðstýra skuli starfsemi í byggðum landsins frá miðlægum stofnunum í höfuðborginni.“