Sú fyrsta Ég ferðast ein, er fyrsta bókin í flokki norska rithöfundarins Samuel Bjørk um þau Munch og Krüger og er hin prýðilegasta.
Sú fyrsta Ég ferðast ein, er fyrsta bókin í flokki norska rithöfundarins Samuel Bjørk um þau Munch og Krüger og er hin prýðilegasta.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir: Samuel Bjørk. Bjartur 2016, 537 bls.

Þegar stúlka á 6. ári finnst látin úti í skógi, klædd í gamaldags dúkkukjól með miða um hálsinn með áletruninni Ég ferðast ein, er rannsóknarlögreglumanninum þrautreynda, Holger Munch, falið að safna saman vösku liði sínu sem samanstendur af færustu rannsóknarlögreglumönnum norsku lögreglunnar. Í þeim hópi er Mia Krüger, sem er nokkurs konar stórstjarna innan og utan Óslóarlögreglunnar. Hún hefur ákveðið að taka eigið líf og hefur í því skyni sest að fjarri ys og þys þar sem hún drekkur áfengi daginn út og inn á meðan hún bíður eftir því að sjálfsmorðsdagurinn renni upp. Munch, sem telur sig ekki geta leyst málið án Miu, tekst að telja hana á að fresta sjálfsvíginu, ganga aftur til liðs við lögregluna og vinna við þetta óhugnanlega morðmál. Sem hún gerir.

Hvað væri annars norrænn krimmi án þunglyndis og persónulegra vandamála?

Maður spyr sig.

Ég ferðast ein er fyrsta bókin í flokki norska rithöfundarins Samuel Bjørk um þau Munch og Krüger og sú fyrsta sem kemur út á íslensku. Þegar hafa komið út tvær á norsku og fleiri bóka er að vænta. Reyndar heitir höfundurinn alls ekki Bjørk heldur er þetta höfundarnafn Froder Sander Øien sem er þekktur handritahöfundur og tónlistarmaður í heimalandi sínu

Fljótlega kemur í ljós að litla stúlkan er sú fyrsta í röð margra og Munch og lið hans er því að kljást við raðmorðingja. Mia áttar sig síðan á því að málið tengist óupplýstu sakamáli og þá fara hjólin að snúast. Drengur sem býr við hörmulegar heimilisaðstæður og sértrúarflokkur sem hefst við úti í skógi koma síðan við sögu. Margar persónur koma við sögu og stundum er fullmikið í gangi í einu, þannig að lesandinn á fullt í fangi með að átta sig á atburðum. Að ósekju hefði mátt einfalda plottið til að styrkja það og þétta, en í heildina séð er þetta hinn fínasti krimmi, fullur af alls konar ógeðslegum atburðum með sterkum og svölum aðalpersónum og ýmsum skrýtnum aukapersónum.

Heilt yfir er þetta prýðislesning og næstu bókar um Munch og Krüger er beðið með eftirvæntingu.

Anna Lilja Þórisdóttir

Höf.: Anna Lilja Þórisdóttir