Lómur Ýmsir umhverfisþættir hafa áhrif á fjölda og útbreiðslu lóma.
Lómur Ýmsir umhverfisþættir hafa áhrif á fjölda og útbreiðslu lóma. — Morgunblaðið/Ómar
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Ævar Petersen fuglafræðingur hefur stundað rannsóknir á lómum í tíu ár en fyrir þann tíma hafði þessi tegund vakið litla athygli til rannsókna hér á landi.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Ævar Petersen fuglafræðingur hefur stundað rannsóknir á lómum í tíu ár en fyrir þann tíma hafði þessi tegund vakið litla athygli til rannsókna hér á landi. Upphaflega voru settir litlir sendar sem kallast ljósritar á lóma en einnig var fylgst með ástandi stofnsins og varpárangri. Jafnframt hefur upplýsingum verið safnað um varpstaði lóma í landinu.

„Ljósritarnir geta sýnt okkur hvar fuglarnir eru hverju sinni og hvar þeir hafa haldið sig yfir veturinn. Við héldum að hann væri farfugl en endurheimt okkar benti til að þeir héldu sig við Ísland yfir vetrarmánuðina,“ segir Ævar.

Lítið um peninga

Ævar heldur erindi um lóminn á fræðslufundi klukkan 20:30 í kvöld í sal Arion banka í Borgartúni. Hann mun mest fjalla um samanburð milli tveggja svæði á landinu, á Mýrum á Vesturlandi og Núpasveit á Norðausturlandi, sem staðið hefur yfir frá árinu 2012.

„Það kom fljótlega í ljós að það var ýmislegt að gerast. Varpárangur á Mýrum var lélegur sem helgaðist af tvennu. Annars vegar af æti, en helsta fæða lómsins er sandsíli, og hins vegar var það refurinn. Það þýðir að fuglinn þyrfti að verpa aftur, sem seinkar varpinu. Einnig vex stofninn vel fyrir norðan en ekki fyrir vestan.“

Ævar segir að peningar séu af skornum skammti til að stunda rannsóknir sem þessar og mun þessa rannsókn væntanlega daga uppi eftir sumarið. „Ég hef fengið styrki frá umhverfisráðuneytinu síðustu ár og fram á sumar sem verður líklega okkar síðasta því það fylgdi bréfinu sem ég fékk að þetta yrði í síðasta skipti sem ég fengi styrk. En það eru nokkrar spurningar sem er ósvarað.“

Lómurinn
» Straumlínulagaður og svipaður himbrimanum, en þó mun minni.
» Auðgreindur frá honum á uppsveigðum, grönnum gogginum.
» Lómur er ófær til gangs.
» Rannsóknir hafa verið stundaðar á lómum frá árinu 2006 en fyrir þann tíma hafði þessi tegund vakið litla athygli til rannsókna hér á landi.