Júdó
Jóhann Ólafsson
johann@mbl.is
Þormóður Árni Jónsson úr Júdófélagi Reykjavíkur varð um helgina tvöfaldur Íslandsmeistari í júdó en Íslandsmótið fór fram í Laugardalshöll. Hann sigraði í opnum flokki og í +100 kg flokki.
Þormóður sagði sigur sinn á mótinu hafa verið nokkuð öruggan en ástæða þess væri ekki skemmtileg. „Það var mikið um meiðsli. Til að mynda í mínum flokki, +100 kg, meiddist minn helsti keppinautur í glímunni gegn mér þegar hann fór úr lið á litla fingri. Hann þurfti því að hætta í miðri keppni. Það virðist vera einhver meiðslagrýla yfir öllu liðinu. Það kom líka svolítið niður á þátttöku í opna flokknum,“ sagði Þormóður Árni í samtali við Morgunblaðið. Hann var á leið á Evrópumeistaramótið í Kazan í Rússlandi. Þar er stefnan sett á að safna stigum til að gulltryggja keppnisrétt á Ólympíuleikunum sem fram fara í Ríó í Brasilíu í ágúst.
„Ég er inni eins og er. Það er eiginlega ekki hægt að segja að ég sé gulltryggður. Þetta er eins og deildakeppni í ensku knattspyrnunni, maður þarf að klára tímabilið og safna stigum,“ sagði Þormóður og kvaðst aðspurður ekki vita hversu mörg stig þyrfti til að komast til Ríó.
Kemur í ljós um miðjan maí
„Nei. Ef ég ætla að verða öruggur þarf ég að verða Evrópumeistari. En öll stig eru vel þegin og það skiptir líka máli hvað aðrir eru að gera.“Þormóður líkti stigasöfnun fyrir Ólympíuleikana við enska boltann og það vill svo skemmtilega til að síðasta júdómótið sem talið er til stiga fyrir Ólympíuleikana er sama dag og lokaumferðin í ensku úrvalsdeildinni! Nokkrum dögum síðar verður ljóst hvort Þormóður verður á meðal keppanda í ágúst. „Þetta skýrist allt í kringum 15. maí. Seinasta mótið er þann dag og listinn með keppendum er gefinn út 30. maí en yfirleitt liggur þetta fyrir á mánudeginum eftir helgina, sem er að mig minnir 16. maí.“
Þormóður segist vera í góðri stöðu en hann stefnir á það að keppa á þriðju Ólympíuleikunum í röð. „Ég er í góðri stöðu núna. Ég er hærri heldur en ég var árið 2012 en Evrópuriðillinn er sterkari og það er meiri breidd í honum. Þannig að maður þarf að sýna meira og gera meira.“
Eins og áður kom fram er Þormóður í Rússlandi en þar fer Evrópumeistaramótið fram. Hann hefur ekki sett sér nein markmið um ákveðin sæti, heldur ætlar hann að einbeita sér að einni glímu í einu.
„Það er haugur af stigum fyrir hverja glímu þannig að ég ætla að undirbúa mig eins vel og ég get. Evrópumeistaramótið er virkilega sterkt, það er svo jafnsterkt. Maður verður bara að einblína á eina gímu í einu og taka hverja glímu sem úrslitaglímu. Hver glíma þarna gæti skilað mér inn á Ólympíuleika þannig að ég ætla að vinna allt sem ég fer í. Sama hver það er,“ sagði Þormóður Árni.
Ef ég væri 10 árum yngri...
Hjördís Ólafsdóttir úr Júdófélagi Reykjavíkur varð einnig tvöfaldur Íslandsmeistari. Hún sigraði í -70 kg flokki og opnum flokki kvenna. „Ég er mjög ánægð með þetta. Ég varð einnig Íslandsmeistari í -70 kg í fyrra en þetta er í fyrsta skipti sem ég vinn opna flokkinn,“ sagði Hjördís við Morgunblaðið. Hún sagði sigurinn í opna flokknum ekki hafa komið á óvart. „Nei, ég get ekki sagt það. Ef Anna Soffía (Víkingsdóttir) hefði verið með þá væri þetta óvænt,“ bætti Hjördís við.Aðspurð sagði hún stemninguna í kringum mótið góða. „Þetta var mjög skemmtilegt og slatti af fólki sem kom að horfa, þó vissulega megi alltaf koma fleiri áhorfendur.“
Íslandsmótið er síðasta mót ársins hér á landi en framundan er Norðurlandamót í maí. Hjördís tekur ekki þátt í því af persónulegum ástæðum og segist ekki stefna á glæsta sigra á erlendri grundu. „Nei, ég geri það nú ekki. Ég tók þátt í Norðurlandamótinu í fyrra og Smáþjóðaleikunum en bæði mótin voru haldin hér á landi. Ef ég væri 10 árum yngri myndi ég eflaust spreyta mig erlendis,“ sagði Íslandsmeistarinn.