Holt undir Eyjafjöllum.
Holt undir Eyjafjöllum.
Sveinbjörn Guðmundsson prestur fæddist 18. apríl 1818. Hann var launsonur Guðmundar hreppstjóra Torfasonar í Bæ í Borgarfirði og Guðrúnar Gísladóttur bónda í Langholti Jónssonar. Sveinbjörn lærði fyrst hjá sr.

Sveinbjörn Guðmundsson prestur fæddist 18. apríl 1818. Hann var launsonur Guðmundar hreppstjóra Torfasonar í Bæ í Borgarfirði og Guðrúnar Gísladóttur bónda í Langholti Jónssonar.

Sveinbjörn lærði fyrst hjá sr. Benedikt Eggertssyni, sem var síðast prestur í Vatnsfirði en einkum hjá sr. Þorsteini Helgasyni í Reykholti.

Sveinbjörn var tekinn inn í Bessastaðakóla 1837 og varð stúdent 1843. Hann varð síðan kennari og skrifari hjá Bjarna Þorsteinssyni amtmanni að Arnarstapa.

Sveinbjörn var prestur á Eystri-Kirkjubæ í Keldnaþingi 1846-1858, á Móum í Kjalarnesþingum 1858-1860, Krossi í Landeyjum 1860-1874 og í Holti undir Eyjafjöllum frá 1874 til dauðadags.

Eiginkona Sveinbjarnar var Elín Árnadóttir, f. 8.8. 1811, d. 26.11. 1887, dóttir Árna Helgasonar, tómthúsmanns í Hafnarfirði. Þau gengu í hjónaband 1847 en þurftu konungsleyfi til þess því Elín hafði áður átt barn með sr. Henrik Henrikssyni.

Börn Sveinbjarnar og Elínar voru Guðmundur bóndi á Miðskála, Jón bóndi á Ásólfsskála, Þorsteinn smiður í Gerðakoti, síðast í Rvík, Sigríður, vinnukona hjá systur sinni og mági í Holti, og Guðbjörg Sigríður, fyrri kona sr. Kjartans Einarssonar í Holti undir Eyjafjöllum.

Sveinbjörn þótti góður kennimaður og valmenni. Hann sendi Jóni Árnasyni þjóðsagnaritara nokkrar þjóðsögur þegar hann var skrifari á Arnarstapa, m.a. söguna af Valfríði Völufegri.

Jón minnist á Sveinbjörn í formála í útgáfu sinni að þjóðsögunum. Sögur sem Jón hefur undir auðkenninu Vestan af Snæfellsnesi eru líklega komnar frá Sveinbirni.

Um Sveinbjörn segir Benedikt Gröndal í æviminningum sínum, Dægradvöl, en hann var skólafélagi Sveinbjarnar í Bessastaðaskóla: „meðalmaður vexti, þrekinn og knár, íbygginn og bóndalegur en þó nettur, seingáfaður en stöðugur og iðinn; hann var í áliti og vel metinn af kennurum og piltum.“

Sveinbjörn Guðmundsson lést 15. maí 1885.