Krafan er um kosningar STRAX!“ heyrist nú hrópað. Oftar en ekki af þeim sömu og gerðu hvað mest grín að Vigdísi Hauks fyrir að segja „strax“ teygjanlegt hugtak. En það skiptir engu máli því „ég er svo reiður að það verður að kjósa STRAX“ og helst í gær. Lýðræðið þolir víst enga bið, jafnvel þó að leikreglurnar, sem eiga að tryggja það, segi að ekki þurfi að kjósa fyrr en vorið 2017.
En hvað felst í kosningum STRAX? Fyrir það fyrsta gætu þær í fyrsta lagi orðið eftir 45 daga, frá þeim degi sem þing er rofið. STRAX er ekki meira STRAX en svo að meira en mánuður þarf að líða áður en kosið verður STRAX. En verður þá ekki of seint að kjósa STRAX? STRAX er eiginlega bara liðið nú þegar.
Í öðru lagi gæfist við slíkar aðstæður nánast ekkert tækifæri til þess að hleypa nýju fólki að stjórnmálunum, þar sem prófkjör yrðu í skötulíki og snerust í raun um að stilla flokksgæðingum á réttan stað á listanum. Já, meira að segja Píratarnir, sem halda að þeir séu svo „clever, classless and free,“ svo ég vitni í Lennon, hljóta að vera með ákveðið fólk sem þeir treysta öðrum fremur til þess að sitja á framboðslistum sínum.
Í þriðja lagi myndu nánast engin ný framboð eiga séns á að koma fram, en lýðræði hlýtur ekki síst að felast í því að allir sem það vilji eigi kost á því að mynda stjórnmálasamtök. En það er ekki hlaupið að því og þegar tímafresturinn er ekki nema rétt um einn og hálfur mánuður er það nánast ómögulegt nema þegar búið er að leggja grunninn að stofnun þeirra. Það hentar flokkunum sem nú þegar eru á þingi betur en öðrum að takmarka samkeppnina.
Krafan um kosningar STRAX er því ekkert annað en illa dulbúin krafa um að hugsanlega, vonandi fella ríkisstjórnina til þess að núverandi stjórnarandstaða, ögn breytt í samsetningu, en samt eitthvað svo full af sömu gömlu þreyttu andlitunum, geti tekið við og sýnt þar sömu stórkostlegu takta og síðast.
Jebbs, því að við þurfum endilega að fá það fólk til valda STRAX. Sama fólk og stóð fyrir Icesave-málinu. Sama fólk og gaf kröfuhöfum bankana. Sama fólk og reyndi að troða Íslandi inn í ESB. Sama fólk og tafði endurreisnina um heil fjögur ár. Afsakið að ég vil síður sjá þetta fólk nálægt landsstjórninni nokkurn tímann aftur.
Og það er greinilega stefnan að tryggja það, ef marka má yfirskrift fundar sem haldinn var á laugardaginn, þar sem spurt var: „Eigum við að vinna saman?“ og reynt að spyrða saman alla stjórnarandstöðuna undir rangnefninu „umbótaöflin“. Ég hef orðið nokkuð var við það að sumir hægrimenn, þar á meðal frjálshyggjumenn, laðast mjög að Pírötum. Vilja þeir virkilega fá „umbótaöflin“ aftur? Ég get bara varað þá við í mestu vinsemd að kjósi þeir „umbótaöflin“ til valda munu þeir bera ábyrgð á mestu ríkisvæðingu seinni tíma. sgs@mbl.is
Stefán Gunnar Sveinsson