Prjónað á fjöllum Í ferðunum er náttúra Íslands og prjón tvinnað saman svo úr verður skemmtileg upplifun.
Prjónað á fjöllum Í ferðunum er náttúra Íslands og prjón tvinnað saman svo úr verður skemmtileg upplifun. — Ljósmynd/Hélène Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erla María Markúsdóttir erla@mbl.is Ingibjörg G. Guðjónsdóttir hefur flakkað um landið með erlendum ferðamönnum í yfir 30 ár. Hún segir að margt megi gera betur til að bregðast við þeim gríðarlega fjölda ferðamanna sem nú leggja leið sína til landsins.

Erla María Markúsdóttir

erla@mbl.is

Ingibjörg G. Guðjónsdóttir hefur flakkað um landið með erlendum ferðamönnum í yfir 30 ár. Hún segir að margt megi gera betur til að bregðast við þeim gríðarlega fjölda ferðamanna sem nú leggja leið sína til landsins. Ein leiðin sé að verða leiðandi í ýmiss konar afþreyingarferðamennsku.

„Ég leiddist út í ferðaþjónustuna af því að ég tala frönsku og í framhaldinu byrjaði ég að fara á fjöll,“ segir Ingibjörg, sem hefur nú starfað hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum í yfir 20 ár.

Ingibjörg segir það hafa verið afar áhugavert að fylgjast með þeirri þróun sem hefur átt sér stað í ferðaþjónustunni á síðustu árum. „Það er rosalegur munur, þegar ég var að byrja voru tæplega 150 þúsund ferðamenn á landinu öllu yfir heilt ár.“ Í ár er talið að um ein og hálf milljón ferðamanna muni heimsækja Ísland.

Tækifærin felast í afþreyingu

„Ísland er ungt ferðamannaland og það eru óendanlegir möguleikar í þróun afþreyingarferðamennsku á Íslandi en við eigum helling inni. Fyrir 30 árum var eina afþreyingin hestar, flúðasiglingar og vélsleðar. Frá þeim tíma hefur orðið rosaleg breyting þar sem ferðamennskan hefur þróast út í ævintýraferðamennsku og áhugamannaferðamennsku, það er þegar fólk ferðast og gerir það sem það hefur áhuga á að gera.“

Sem dæmi nefnir Ingibjörg ljósmyndunarferðir, hlaupaferðir og jafnvel prjónaferðir, en slíkar ferðir eru meðal þeirra vinsælustu sem Íslenskir fjallaleiðsögumenn bjóða upp á. Hélène Magnússon sér um leiðsögn í prjónaferðunum. Hún er frönsk, lögfræðingur að mennt en flutti til Íslands, lærði í Listaháskólanum og sérhæfði sig í prjóni.

„Inni í hverri ferð er vinnustofa með ákveðnu þema. Ferðirnar eru einnig mismunandi, stundum er farið norður, stundum um Suðurland og jafnvel á hálendið. Stundum eru þetta vetrarferðir með norðurljósaþema þannig að það er mismunandi eftir tímabilum hvað við bjóðum upp á,“ segir Ingibjörg. Boðið er upp á um það bil tíu ferðir árlega. „Það selst fyrst upp í þessar ferðir á hverju ári hjá okkur, það er það mikil eftirspurn,“ segir Ingibjörg.

Hluti af ferðinni er heimsókn til íslenskra kvenna sem handprjóna lopapeysur, ýmist á heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi, til Guðrúnar Bjarnadóttur á Hvammstanga þar sem handlitun á lopa fer fram eða kíkt er í prjónakaffi í Tryggvaskála í Vík. Á haustin er heimsókn í réttir einnig hluti af ferðinni og þá fá ferðamennirnir að þukla á lömbum og koma við ullina í návígi.“

Aðspurð hvað einkenni þá ferðamenn sem sækja í prjónaferðirnar segir Ingibjörg að í grunninn séu það yfirleitt miklar prjónakonur, sem koma jafnvel aftur og aftur. „En þær draga oft með sér vinkonur sínar sem hafa ekki prjónað áður og þær heillast fljótt. Sumar taka mennina sína með og við höfum þá boðið upp á aðra afþreyingu fyrir þá, svo sem golf og annað slíkt. Það er því ekki nauðsynlegt að vera prjónaáhugamanneskja til að hafa gaman af ferðinni, en það hjálpar vissulega til.“

Frelsandi fjallaskíðamennska

Auk prjónaferðanna eru hefðbundnari fjallaferðir afar vinsælar, sérstaklega á þessum árstíma, að sögn Ingibjargar. „Núna eru skíðaferðirnar vinsælar, annars vegar fjallaskíðaferðir og hins vegar gönguskíðaferðir, bæði á Íslandi og á Grænlandi. Hér á landi er vinsælt að fara á gönguskíði yfir Vatnajökul og á fjallaskíði á Tröllaskaga.“

Fjallaskíðamennska hefur mikið verið stunduð í Ölpunum og í Bandaríkjunum síðustu 20 ár en hefur verið að koma sterkt inn hér á landi og segir Ingibjörg að um hálfgerða sprengingu sé að ræða hér á landi. „Þegar fólk sem hefur verið aðeins á skíðum uppgötvar frelsi fjallaskíðanna þá skilur það hvað það er mikil dásemd. Þessi öræfa- og fjallakyrrð er það sem heillar fólk.“