Ómeidd Íslensku ungmennin sem stödd eru í Ekvador sluppu öll.
Ómeidd Íslensku ungmennin sem stödd eru í Ekvador sluppu öll. — Ljósmynd/Úr einkasafni
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Elísabet Jónsdóttir fann vel fyrir stóra skjálftanum í Ekvador, en hún er skiptinemi frá AFS-samtökunum og býr í Guayaquil, sem er um 300 km frá upptökum skjálftans.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Elísabet Jónsdóttir fann vel fyrir stóra skjálftanum í Ekvador, en hún er skiptinemi frá AFS-samtökunum og býr í Guayaquil, sem er um 300 km frá upptökum skjálftans. Tveir létust í borginni þar sem hún dvelur og nokkrar skemmdir urðu á borginni. Fjögur önnur íslensk ungmenni eru stödd í Ekvador og hafði Elísabet heyrt í þeim og voru allir óhultir.

„Við erum öll í lagi. Það eru þrír strákar frá AFS og einn frá Rotary hérna úti og við erum sem betur fer óhult,“ segir Elísabet sem átti að byrja í skólanum í dag eftir sumarfrí en því hefur verið frestað. „Ég áttaði mig ekki fyrst á því hversu stórt þetta var, meðan á þessu stóð var það eina sem ég hugsaði um að ég og systir mín værum ekki nálægt neinu sem fallið gæti á okkur. Ég ber fullt traust til AFS og að samtökin sendi okkur heim ef þess er þörf. Ég ætla mér samt að vera hér áfram þó ég muni augljóslega fara varlega og ekki ferðast hvert sem er.“

Hún nýtti sér tæknina til að koma skilaboðum áleiðis til vina og ættingja og fór að sofa. „Ég var vakin af mömmu minni hérna úti þar sem hún sagði mér að mamma mín á Íslandi væri að biðja mig um að hringja í sig.

Þeim stóð ekki alveg á sama að ég væri ekki að svara sms-unum. Ég svaf fram á hádegi sem er ekki líkt mér,“ segir hún og hlær. „Fjölskyldan mín hér er þó mjög ábyrg og mamma vissi vel að hér væri hugsað vel um mig og að ég væri óhult.“