[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Töluverð lækkun varð á flestum félögunum sem skipa aðallista Kauphallarinnar í gær. Þannig leiddi Icelandair Group lækkun dagsins í ríflega 3,7 milljarða viðskipum.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Töluverð lækkun varð á flestum félögunum sem skipa aðallista Kauphallarinnar í gær. Þannig leiddi Icelandair Group lækkun dagsins í ríflega 3,7 milljarða viðskipum. Lækkuðu bréf félagsins um rúm 7,5% og jafngildir það því að markaðsvirði þess hafi rýrnað um tæpa 14 milljarða króna. Er þetta skarpasta lækkun félagsins á einum degi á síðustu árum. Önnur félög lækkuðu minna, en fjarskiptafyrirtækin Vodafone og Síminn lækkuðu bæði um meira en 3%. Þá tók útgerðarfélagið HB Grandi skarpa dýfu en það rétti þó eilítið úr kútnum í lok dags og lækkaði um rétt tæp 3%.

Alls lækkaði úrvalsvísitalan um liðlega 4% og námu viðskipti á aðalmarkaði Kauphallarinnar yfir 7,3 milljörðum króna.

Sama staða í Evrópu

Kristján Markús Bragason hjá greiningardeild Íslandsbanka segir daginn hafa reynt á fjárfesta.

„Þetta hefur verið virkilega þungur dagur og kostaði Kauphöllina um 2,7% af heildarvirði allra félaga á aðallista, eða um 27 milljarða króna. Það er áhugavert að sjá að þar að baki eru glettilega mikil viðskipti.“ Hann segir að oft sjái aðilar á markaði kauptækifæri í lækkunum af þessu tagi en það hafi ekki komið fram í dag. „Það gerðist ekki af neinu viti í dag þannig að það kæmi ekkert sérstaklega á óvart að mánudagurinn yrði í þyngri kantinum framan af. Það er mjög ólíklegt að við sjáum svona stórar lækkunartölur aftur eftir helgi en reynslan segir að frekari lækkun er ekki útilokuð. Þetta er þó ekkert einstakt atvik því markaðir í Evrópu í dag voru virkilega þungir af ýmsum ástæðum.“

Kristján segir þó að ekki sé ástæða til að örvænta í þessum aðstæðum. „Ef við lítum til dæmis á K-90 hlutabréfavísitölu Íslandsbanka hefur hún hækkað frá 1. október síðastliðinn um 13,5% þrátt fyrir lækkun dagsins og frá 1. september er hækkunin rúmlega 20%. Í kjölfar mikillar ávöxtunar, eins og við höfum séð, má gera ráð fyrir miklu flökti og áhættu. Það er að raungerast núna og þetta eru bara klassísk einkenni á markaði af þeirri tegund sem er hér á landi.“ Segir hann litlar líkur á að lækkanir af þessum toga muni halda áfram.

Kostnaðurinn segir til sín

Kristján segir að líklegasta skýringin á lækkun bréfa Icelandair Group sé sú staðreynd að stjórnendur félagsins hafi tónað rekstraráætlun félagsins nokkuð niður. Þá séu einnig áhöld um þróun olíuverðs.

„Annað sem virðist vera að koma fram í tölunum er þær kostnaðarhækkanir sem tilkynntar voru, m.a. hjá fjarskiptafélögunum. Þau eru í mjög harðri samkeppni; tekjur hafa aukist lítið sem ekki neitt. Á sama tíma hafa kjarasamningarnir haft mikil áhrif. Félögin hafa einfaldlega ekki komið hækkununum af þeim út í útsöluverðið hjá sér,“ segir Kristján.

Mikil lækkun bréfa HB Granda fram eftir degi kom nokkuð á óvart en Kristján segir að öllum líkindum aðrar ástæður að baki henni en í tilfelli hinna félaganna.

„Þegar litið er til HB Granda virðist lækkunin hafa komið fram í kjölfar þess að Hampiðjan tilkynnti að hún hygðist losa um nærri 9% eignarhlut sinn í fyrirtækinu. Þarna hefur eignarhaldið verið mjög þröngt og lítið framboð á bréfum. Nú breytist það skyndilega og það er eðlilegt að það hafi þessi áhrif.“