Ljónakona Sonya Allen, sem var kölluð ljónakonan, kemur við sögu í kvikmynd Benedikts. Hér sést hún á ljósmynd með tveimur ljónum.
Ljónakona Sonya Allen, sem var kölluð ljónakonan, kemur við sögu í kvikmynd Benedikts. Hér sést hún á ljósmynd með tveimur ljónum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn og handrit: Benedikt Erlingsson. Klipping: Davið Alexander Corno. Tónlist: Georg Hólm og Orri Páll Dýrason úr Sigur Rós, Hilmar Örn Hilmarsson og Kjartan Dagur Hólm. Heimildarmynd, 76 mín. Ísland, Bretland. 2015.

Það hefur ekki farið mikið fyrir nýrri heimildarmynd Benedikts Erlingssonar, The Show of Shows , hér á landi og hún aðeins verið sýnd stöku sinnum. Myndin hefur hins vegar, líkt og Hross í oss , farið á fjölda kvikmyndahátíða erlendis og þar vakið nokkuð umtal. Sem fyrr er dýrslegt eðli mannsins og samband hans við hina eiginlegu málleysingja leikstjóranum hugleikið. The Show of Shows er fjörmikil, grípandi og oft ansi stuðandi. Hún tvinnar saman fágætt myndefni sem spannar starfsemi farandsirkúsa, karnivala og annarra álíka fjölleikasýninga í hartnær heila öld. Í myndinni er meðal annars myndefni sem Jóhann risi tók og svipmyndir af Jóhannesi á Borg að etja kappi við indjána. Meginþorri myndefnisins kemur þó úr safnkosti hins svonefnda National Fairground Archive sem Háskólinn í Sheffield varðveitir. Myndin tilheyrir heimildarmyndaröðinni „Archive Music Films“ og er framleidd af Margréti Jónasdóttur fyrir Sagafilm í meðframleiðslu Crossover Labs-verkefnisins sem Sheffield Doc/Fest er samvinnuaðili að ásamt sjónvarpsstöðvunum BBC, SVT og RÚV.

The Show of Shows er án sögumannsraddar og frásögnin er afar óhefðbundin þótt uppbygging hennar sé úthugsuð. Á yfirborðinu virðist myndin draga fram ljóðræna og heimilislega sýn af viðfangsefni sínu en undir niðri deilir hún leynt og ljóst á vafasama misnotkun barna og dýra í þessum iðnaðarlega skemmtanabransa. Myndin hefst á myndskeiðum sem sýna sirkúsfjölskyldur undirbúa sýningarstaði og margvísleg atriði af mikilli samheldni. Snilldarleg klipping bindur efnið haganlega saman og brúar yfir í myndskeið sem sýna áhorfendur flykkjast að og setjast á bekki. Fyrr en varir er fyrsta sýningaratriðið hafið en í því er margsvíslegum myndbrotum af dönsum skeytt saman í dillandi myndfléttu. Ótrúlegir hæfileikar dansaranna tæla og hrífa áhorfendur sem sitja nú með glyrnurnar límdar við tjaldið.

Stuðandi myndefni tekur að seytla inn í framvinduna. Fimleikafólk leikur kúnstir, fjötraðir ofurhugar stíga sinn darraðardans og óálitlegir trúðar leika lausum hala. Móðir kastar hnífum að barni sínu. Ung börn takast á af offorsi í hnefaleikahring. Maður fetar sig með kornabarn eftir vír á toppi skýjakljúfs og áhorfendur fara heldur að ókyrrast. Þá tekur við kafli um dýraníð. Bavíani spilar á fiðlu, skógarbirnir ferðast um á reiðhjólum og ljónynjur á hestbökum. Ólánsöm dýr fá að finna fyrir því ef þau láta illa að stjórn eða þeim er att saman og út í dauðann. Eftir því sem myndefnið verður óvægnara virðast klippingar þess örari og tónlistin bæði háværari og ómstríðari en allt þetta eykur á ónot áhorfenda myndarinnar.

Sögumannsrödd er óþörf í myndinni því útlistandi frásögnin kristallast í samsetningu og klippingu myndefnisins, í dynjandi tónlistinni og í vitund áhorfandans sem finnst hann á stundum vera hluti af nautgripahjörð sem smalað er saman í einni senu á tjaldinu áður en hún er leidd til slátrunar. Myndin er mjög framsækin og tilraunakennd en eiginlega ekki heimildarmynd með rentu. Hún hefst nánast á óði til myndefnisins en fer fljótlega út af því spori og tekur þá að minna meira á myndir Leni Riefenstahl, Sigur viljans (1935) og Olympia (1938), sem eru álitnar tvær áhrifamestu og tæknilega framsæknustu áróðursmyndir allra tíma. Myndefni þeirra er líkt og í The Show of Shows ekki lengur raunsæ og hlutlaus speglun á veruleikanum. Heimildargildi þess er afbyggt og bjagað til að þjóna frásögn kvikmyndarinnar. Boðskapurinn er áfellisdómur yfir óbilandi illkvittnum og óheilbrigðum áhuga mannfólksins á að sjá t.d. ómálga börn og afkróuð dýr pyntuð og skopskæld. Áhorfandinn veit ekki hvaðan samansplæst myndefnið á tjaldinu kemur né hvenær það var fest á filmu. Hann nær ekki að meðtaka, né leggja mat á það sem fyrir augu ber. Myndefnið herjar á hann og framleiðsla þess er dáleiðandi, nánast kaffærandi. Ádeilu er þannig þröngvað upp á áhorfendur og þeir um leið ásakaðir um að glepjast af töfrum sirkúsins þar sem misnotkun á málleysingjum virðist ráðandi. Þannig er níðinu snúið upp á áhorfendur og upplifun þeirra er því eins og súrrealísk atferlismeðferð.

The Show of Shows er eins og söguleg og blæbrigðarík kviksjá sem hringsnýst sífellt hraðar og virðist alltaf vera við það að verða hamslausir órar. Stórbrotnar myndfléttur myndarinnar eru framúrstefnulegt meistaraverk. Myndin er unnin úr fágætum og afar áhugaverðum myndefnafjársjóði sem klipptur er saman af undraverðu næmi fyrir takti, rími og þema. Sérsamin tónlistin hnykkir svo um munar á heildaráhrifunum. Þegar upp er staðið reynist The Show of Shows ekki vera lofgerðarheimildarmynd um fjölleikalistir á hverfanda hveli heldur fremur afar óvægin ádeila á ljótleika mannlegrar skemmtanafýsnar.

Hjördís Stefánsdóttir

Höf.: Hjördís Stefánsdóttir