Erlingur Guðmundsson, vörubílstjóri og verktaki á Hellu í Rangárþingi ytra, fæddist á Uxahrygg á Rangárvöllum 17. september 1939. Hann lést 15. apríl 2016 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.

Foreldrar hans voru Guðmundur H. Gíslason, f. 1903, d. 1987, frá Húnakoti í Þykkvabæ, og Hólmfríður Magnúsdóttir, f. í Hvítanesi í Landeyjum 1910, d. 1983. Þau voru bændur á Ytri-Hóli og síðan á Uxahrygg 1. Systkin: Ingibjörg, f. 1932, d. 1965, Gíslína Margrét, f. 1934, d. 1935, Magnús, f. 1936, d. 2013, Dýrfinna, f. 1938, Árný Margrét, f. 1943, Ingibjörg, f. 1946, og Gísli, f. 1948. Fósturbróðir og systursonur er Guðmundur Hólm, f. 1950.

Eftirlifandi eiginkona Erlings er Sigurvina Samúelsdóttir, f. í Bæ í Trékyllisvík 1937, dóttir Samúels Samúelssonar og Önnu Jakobínu Guðjónsdóttur sem þar bjuggu. Börn Erlings og Sigurvinu eru: 1) Anna Kristín Kjartansdóttir. f. 1956, dætur hennar og Sigurðar Guðmundssonar eru Íris Erla. f. 1975, hún á tvö börn, Magný Rós, f. 1979, hún á eina dóttur. Eiginmaður Önnu er Hafsteinn R. Hjaltason, f. 1957. Börn þeirra eru Kjartan Sigurvin, f. 1987, og Harpa Dögg, f. 1990. 2) Samúel Örn, f. 1959, eiginkona Ásta Breiðfjörð Gunnlaugsdóttir, f. 1961. Dætur þeirra eru Hólmfríður Ósk, f. 1984, sambýlismaður Arnar Jónsson og eiga þau eina dóttur, og Greta Mjöll, f. 1987, sambýlismaður William Óðinn Lefever og eiga þau eina dóttur. 3) Hólmfríður, f. 1961, eiginmaður Ásbjörn G. Guðmundsson, f. 1955. Börn þeirra eru Aron Steinn, f. 1988, eiginkona Sigríður Margrét Einarsdóttir og eiga þau einn son, Anna Margrét, f. 1989, sambýlismaður Aske Stick. 4) Margrét Katrín, f. 1962, sonur hennar og Hafsteins B. Sigurðssonar er Erlingur Örn, f. 1982, sambýliskona Steinunn Þóra Camilla Sigurðardóttir. Eiginmaður Margrétar er Jónas R. Lilliendahl, f. 1957, synir þeirra Gústaf, f. 1987, eiginkona Unnur Ósk Magnúsdóttir og eiga þau tvær dætur, og Marínó Geir, f. 1990. 5) Ingibjörg, f. 1967, dætur hennar og Daða G. Arngrímssonar eru Guðrún Freyja, f. 1986, sambýlismaður Guðmundur Ingi Einarsson, og eiga þau eina dóttur, og Erla Vinsý, f. 1987, sambýlismaður Kristinn B. Sigfússon og eiga þau einn son. Eiginmaður Ingibjargar er Helgi Jens Hlíðdal, f. 1970, dætur þeirra eru Birta Rós, f. 1999, og Ásta Sól, f. 2000.

Erlingur ólst upp hjá foreldrum sínum á Uxahrygg. Ungur að aldri hóf hann að vinna fyrir sér við hin ýmsu störf og fór á nokkrar vertíðir til Grindavíkur. Hann keypti sinn fyrsta vörubíl 17 ára og var þá lagður grunnur að ævistarfi hans. Erlingur starfaði svo alla tíð við jarðvinnu og vegagerð á gröfum, jarðýtum og vörubílum. Hann var hestamaður af Guðs náð, átti og ræktaði eigin hesta af kyni föður síns og móðurafa. Erlingur var náttúrubarn. Hann var mikill áhugamaður um skógrækt og má sjá afrek þeirra hjóna í Gulllandinu, sumarparadís þeirra sem þau ræktuðu upp af svörtum sandi.

Útför Erlings verður gerð frá Selfosskirkju í dag, 30. apríl 2016, klukkan 11. Jarðsett verður í Odda á Rangárvöllum.

Elsku pabbi minn, að leiðarlokum vil ég þakka þér samferðina í lífinu. Það eru forréttindi að hafa fengið að eiga þig sem pabba. Þú varst gæfumaður, fannst ástina þína hana mömmu mína, eignaðist með henni fimm börn, fimmtán barnabörn og barnabarnabörnin eru orðin tíu, allt heilbrigt og gott fólk.

Þið mamma voruð samhent og hamingjusöm hjón, þið létuð okkur ávallt finna hve heitt þið elskuðuð hvort annað sem var dýrmætt veganesti fyrir okkur. Á uppvaxtarárum okkar systkina varst þú mikið fjarverandi vegna vinnu stundum vikum saman og ég man hvað við vorum alltaf glöð þegar við fundum þig í rúminu þínu að morgni, pabbi var kominn heim.

Við biðum oft mjög spennt eftir heimkomu þinni því þá átti að fara í ferðalag, kannski í Galtalæk, norður á Strandir, í Skaftafell eða bara eitthvað út í buskann.

Þú kenndir mér til verka, kenndir mér að maður þarf að geta bjargað sér við hvaða verk sem er. Þér fannst til dæmis bara eðlilegt að stelpa bónaði vörubílinn að utan sem innan, hjálpaði til við að gera við dekkin og ef eitthvað þurfti að laga var gott að hafa aukahendi til að rétta verkfærin og taka þátt í verkinu.

Ég gleymi aldrei þegar ég hjálpaði þér að rífa heddið af gömlu jarðýtunni eða þegar sökkullinn af verkstæðinu var steyptur og þú lést mig hjálpa þér að stýra sílóinu sem hékk í krananum í mótin.

Þú varst náttúrubarn, elskaðir landið þitt eins og líf þitt. Þú varst alltaf að græða landið, hvert einasta strá var svo dýrmætt.

Þið mamma stunduðuð skógrækt og sumarparadísin Gulllandið er afrakstur ykkar, ræktað upp af svörtum sandi. Þú kenndir okkur að virða og vernda landið okkar, að passa í öllum okkar verkum að búa ekki til sár í náttúrunni, sárin væru lengi að gróa. Við ættum að rækta landið, bera á skít, áburð og planta trjám til skjóls.

Hestamennskan var þér í blóð borin og það var gaman að fylgjast með ykkur mömmu í hestamennskunni þar deildum við áhugamáli og reiðtúrarnir með ykkur eru dýrmæt minning.

Við deildum líka áhuga á ættmennum og ættfræði. Á kvöldin þegar ég sat hjá þér á spítalanum þá ræddum við gjarnan ættfræði og ég reyni nú að muna allt það sem þú sagðir mér.

Þú varst svo áhugasamur um öll afabörnin, stór og smá, alltaf varstu svo ánægður ef þú hafðir alla þína hjá þér í Gulllandinu. Þú hafðir oft á orði: „Eru ekki litlu sænsku stelpurnar þínar að koma heim?“ Þér fannst alveg ómögulegt að ömmustelpurnar mínar, Dísella og Vinsý, ættu heima í Svíþjóð, hafðir alltaf áhyggjur af því að hafa þau öll þar. Þú vildir hafa alla þína á Íslandi sem væri öruggasta og besta landið.

Elsku pabbi minn, mikið vorum við heppin að eiga þig að. Símtölin og samverustundirnar verða ekki fleiri að þessu sinni, nú ertu kominn í hnakkinn á Úða með Sleipni í taumi og Indý mín fylgir þér um grænar grundir sumarlandsins. Elska þig, pabbi minn, við hittumst síðar.

Þín dóttir,

Margrét (Maddý).

Erlingur Guðmundsson var ættarhöfðingi, stoltur pabbi fimm barna, fjögurra dætra og sonar sem síðar varð eiginmaður minn. Erlingur var ekki margmáll en kom því til skila sem hann hafði fram að færa. Hann kom til dyranna eins og hann var klæddur, oftast í lopapeysu og sokkum þar sem ein eða tvær tær kíktu út. Hann var glettinn og athugull og tók hann mér vel frá fyrsta degi.

Erlingur var fæddur sveitamaður og hestar áttu hug hans allan. Lengi vel tengdi ég alla leirljósa hesta landsins við hann, mér fannst þeir allir vera frá Uxahrygg, æskuheimili Erlings. Á 33 árum kenndi hann mér margt. Hann kenndi mér til dæmis að borða kjötsúpu og hafði talsvert fyrir því að eiga við mig, kenjótta tengdadótturina úr borginni. Seinna varð ég uppáhalds tengdadóttir hans, hann átti jú aðeins mig eina.

Erlingur var óhræddur við að sýna ást sína og aðdáun á eiginkonu sinni, Vinsý. Þau voru alltaf kærustupar, leiddust og kysstust og hugsuðu svo vel um hvort annað að borgarstelpan ég varð hálf feimin. Vinsý var stoð hans og stytta á sama hátt og hann var sverð hennar og skjöldur.

Erlingur var góður afi, töffari með sitt mikla hár, eins og dætur okkar Samma sögðu svo oft. Þær nutu þess að fara til afa og ömmu í Gulllandið.

En nú hefur Elli tengdafaðir minn kvatt. Hann er kominn í annað Gullland þar sem leirljósir hestar með þykkan makka eru á hverju strái. Ég kveð tengdaföður minn með þakklæti og virðingu, megi hann hvíla í friði.

Ásta B. Gunnlaugsdóttir.

Fjallahringurinn um Rangárvelli var snævi þakinn og bjartur með Heklu, Tindfjöllin og Eyjafjallajökul í öndvegi og Þríhyrning í forgrunni þegar mér, þar sem ég var staddur á Rangárvöllum, barst sú harmafregn að vinur minn, Erlingur Guðmundsson, hefði látist fyrr um daginn. Hér hefði hann viljað vera fullur orku og vinnusemi eins og hann var alltaf, sjá gróandann vakna, og fuglana syngja vorinu til dýrðar. Nú var þessi hrausti vinur minn allur eftir langa og erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm.

Kynni okkar Erlings hófust fyrir um 25 árum er ég leitaði til hans til framkvæmda við vegagerð að litlu sumarhúsi sem við hjónin höfðum ráðist í að byggja við Hróarslæk á Rangárvöllum. Fór ég þar að ráðum góðs nágranna sem taldi Erling rétta manninn í verkið, manninn sem kynni til verka. Mér er það í fersku minni þegar Erlingur kom í fyrsta sinn til mín á vörubílnum með jarðýtuna á pallinum og ég velti því fyrir mér hvernig hann næði ýtunni af pallinum og ég tala nú ekki um að koma henni á pallinn aftur að verki loknu. Erlingur leysti þetta allt af stakri útsjónarsemi og snilld, því verklaginn var hann með afbrigðum. Eftir þessi fyrstu kynni var ekki aftur snúið, með okkur tókst góð vinátta sem haldist hefur alla tíð síðan, verkefnin hafa verið mörg og margt hefur verið rætt og brallað á liðnum árum og margt áttum við eftir ógert.

Við Hróarslækinn, þetta stærsta vatnsfall á Íslandi með lækjarnafni að sögn fróðra manna, eru okkar unaðsreitir. Þar sem áður var sandur og lítt gróið land eru nú skjólgóðir reitir klæddir skógi og túnblettum þar sem hestarnir þeirra Erlings og Vinsýjar brokka um. Þau hjón hafa flutt sig um set á sumrin frá föstu heimili sínu á Hellu og í sumarhús sitt við Hróarslæk. Hestar og ræktun landsins hafa verið áhugamál þeirra hjóna um langt skeið, en þegar spurt er hversu margir hestarnir séu verða svörin heldur óljós. Það hefur verið gaman að fylgjast með þeim hjónum koma ríðandi á síðkvöldum meðfram löndunum við lækinn, ýmist við þjálfun og liðkun hesta sinna eða aðeins til að njóta útiverunnar á fallegum fákum.

Það hefur oft komið sér vel að eiga hann Erling að þegar komið hefur að verklegum framkvæmdum á svæðinu og við munum sakna þessa fjölhæfa og laghenta manns. Hér voru hans heimkynni um langan aldur með sýn til hinna mikilfenglegu fjalla elds og ísa.

Ég þakka ánægjuleg kynni og samverustundir og við hjónin sendum Vinsý, börnum þeirra og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur, en minningin um góðan og dugmikinn félaga lifir.

Ólafur Nilsson.

Elsku Elli minn. Nú hefur þú kvatt og lokið stríði við erfiðan sjúkdóm. Ég, Maddý kynntist þér fyrst níu ára gömul þegar þú varst í framkvæmdum við þjóðveg 1 skammt frá bústaði foreldra minna við Lögberg. Þú leyfðir mér oft að sitja í ýtunni með þér og fékk ég jafnvel að prufa að stýra græjunni smá. Þar var oft mikið spjallað um hross og menn. Þú varst mjög þolinmóður og góður við litlu stelpuna sem talaði út í eitt. Í kjölfarið fórum við mamma og pabbi austur að Uxarhrygg að skoða hrossin þar en þessi ferð situr sterkt í minningu minni. Þrátt fyrir að ekki hafi orðið mikið um hrossakaup í þeirri ferð þá varð þetta upphafið af góðri vináttu við ykkur Vinsý. Eftir að Bjössi kom inn í mitt líf varð ykkur fljótt mjög vel til vina þar sem sameiginlegur áhugi ykkar á hrossum og vélum hvers konar leiddi af sér fjöldamargar góðar stundir. Þú og Vinsý hafa verið kærir vinir okkar alla tíð og reynst okkur vel á allan hátt. Aðstoð þín við hinar ýmsu framkvæmdir í Ásmúla og Ásamýri hefur reynst okkur ómetanleg. Það er aðdáunarvert hversu samrýmd og samhent þið Vinsý hafið verið alla tíð og eruð öllum góð fyrirmynd. Minningin lifir um góðan vin sem hugsaði ávallt fram á við. Þín verður sárt saknað af heimilisfólki í Ásamýri. Elsku Vinsý, Sammi og systurnar og fjölskyldur ykkar allra, innilegar samúðarkveðjur á erfiðum tímum.

Magnea og Sigurbjörn.

Þá fann ég, hvað jörðin er fögur og mild

þá fann ég, að sólin er moldinni skyld,

fannst guð hafa letrað sín lög og sinn dóm

með logandi geislum á strá og blóm.

Allt bergði af loftsins blikandi skál.

Allt blessaði lífið af hjarta og sál.

Jafnvel moldin fékk mál.

(Davíð Stefánsson)

Við hjónin fluttum á Hellu árið 1967 í nýtt hús sem við byggðum við hliðina á öðrum aðfluttum ungum hjónum, þeim Erlingi Guðmundssyni frá Uxahrygg í Rangárþingi og Sigurvinu Samúelsdóttur (Vinsý). Grunnur var lagður að farsælu nágrenni sem stóð í 24 ár og traustum vinskap, sem ríkt hefur allar götur síðan. Erlingur og Vinsý voru einstaklega natin við garðyrkju sína og hlutu fyrstu verðlaun fyrir skrúðgarð sem veittur var í þessari götu. Þau áttu barnalán, Erlingur og Vinsý, og elskulegra fólk er ekki hægt að hugsa sér er maður mætir þeim nú síðar á einhverri vegferð. Þau og barnabörnin hafa haslað sér völl utan heimaslóða, aflað sér menntunar og lífsreynslu og sum eru löngu þjóðkunn fyrir störf sín og íþróttaafrek. Ræturnar og tryggðin við Hellu hefur þó aldrei rofnað. Með Erlingi og Vinsý var margur kaffibollinn drukkinn á hvors annars tröppum þegar sumarsólin yljaði undir suðurveggjunum. Stundum urðum við grannfólkið samferða heim af árvissum samkomum í Hellubíói og þá gjarnan litið við á heimleiðinni og eitt sinn a.m.k. dönsuðum við Erlingur við konurnar okkar kringum súluna í stofunni á Heiðvangi 4 þar til 17. júní morgunsólin var farin að gæjast upp fyrir hæðina í austri. Svo liðu árin og eftir tæpan aldarfjórðung fluttum við hjónin á brott úr Hellukauptúni til Reykjavíkur. Síðustu árin hafði Erlingur lagt ævistarfið að mestu að baki en þess í stað helgað sig tómstundunum, hestamennsku, umsýslu við hesthús sín og verslunarrekstri þeirra hjóna, Erlingur var farsæll verktaki og starfssvæði hans lengst af í héraði. Hann var ákaflega prúður maður og flíkaði ekki færni sinni til hverskonar verka. Mér er minnisstætt atvik sem ég varð vitni að eitt sinn á hrímköldum haustmorgni.

Ég sat að vinnu við glugga á 2. hæð vinnustaðar míns á Hellu og hafði í a.m.k. stundarfjórðung heyrt undarleg hljóð og fyrirgang við íbúðargötu gegnt vinnustaðnum. Ég kannaði málið og sá ökumann í miklum vandræðum við að koma bifreið sinni út af bílastæði og hið torkennilega hljóð var hvinur frá spólandi, sléttum, sumardekkjum. Nokkrir hjálpsamir vegfarendur reyndu að ýta á bílinn og sumir leystu ökumanninn árangurslaust af við aksturstilraunina. Þá sé ég að önnur bifreið stansar þarna skammt undan og frá henni gengur maður hægum skrefum, með hendur í vösum, að hópnum, sem greinilega var búinn að gefa allt upp á bátinn. Eftir einhver sýnileg orðaskipti, sem ég heyrði ekki, sest hinn aðkomni inn í sumardekkjabílinn, bandaði hópnum hæglátlega til hliðar og ók bílnum viðstöðulaust upp úr klakabrynjuðu bílastæðinu. Þetta var Erlingur Guðmundsson.

Við hjónin sendum öllum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigurður Óskarsson,

Eygló Guðmundsdóttir.

Þegar ég var tíu ára gamall strákur í Suðurbænum á Uxahrygg, þar sem foreldrar mínir bjuggu, var tveggja ára drengur í Norðurbænum á Uxahrygg, þar sem foreldrar hans; Hólmfríður og Guðmundur, bjuggu með börn sín, að taka sín fyrstu skref á bæjarhlaðinu. Ég efast ekki um að mér hefur þótt gaman að sjá þennan litla og fallega dreng leggja alla orku, sem hann réð yfir, í að ná stjórn á hverju skrefi, hverju fótmáli, sem var forspil að stærri skrefum á lífsleiðinni. Þetta var Erlingur Guðmundsson, sem var fæddur í Norðurbænum á Uxahrygg og var þar sín uppvaxtarár og nú hefur lokið sinni göngu hér.

Á Uxahrygg var tvíbýli. Þó börnin í Norðurbænum væru nokkrum árum yngri en við bræðurnir í Suðurbænum, voru þau leikfélagar okkar allt þar til leiðir skildi, þegar foreldrar okkar fluttu frá Uxahrygg 1948. En æskuárin skilja eftir spor og tilfinningar sem varpa ljósi á góðar minningar frá árunum sem við áttum saman á Uxahrygg.

Erlingur lifði og var þátttakandi í miklum breytingum og framþróun, sem skipti sköpum fyrir lífsafkomu fólks, á æviskeiði sínu. Húsakostur á Uxahrygg var fátæklegur þegar Erlingur hóf sína lífsgöngu fyrir rúmum 75 árum: Moldargólf, nema í baðstofu þar sem allir, stór fjölskylda, sváfu. Vatn var sótt í læk vetur sem sumar og ekki var rafmagn, ekki útvarp eða sími. Siðar var íbúðarhús byggt og vatn og rafmagn lagt í hús. Þvílík umbreyting.

En litlu skrefin, sem Erlingur tókst á við í bernsku sinni á Uxahrygg, þegar þjóðin bjó við þröngan stakk og fátækt, urðu stærri, þegar uppvaxtarárunum lauk og mörkuðu stór spor í framfarasögu þjóðarinnar. Lengst af, allt frá unga aldri, stundaði hann akstur og framkvæmdir við vegagerð á Suðurlandi, sem var grunnur að nútíma- og framtíðar vegagerð á landinu. Þá var hann einnig þátttakandi í byggingu virkjana, sem sjá landsmönnum fyrir rafmagni. Með þessum framkvæmdum, sem Erlingur var stór þátttakandi í, voru byggðar stoðir undir þau auknu lífsgæði sem fólk hefur notið í vaxandi mæli á líftíma Erlings.

Við Erlingur vorum í símsambandi öðru hvoru og hittumst af og til, þegar leið mín lá til æskustöðvanna. Ég minnist þess, að þegar ég átti símtal við Erling fyrir nokkru síðan og talið barst að því að við þyrftum að fara að hittast, þá stakk hann upp á því að við, það er afkomendur fjölskyldnanna tveggja frá Uxahrygg, héldum ættarmót. Þetta sýndi vel hug Erlings til þeirra sem hann hafði umgengist og verið í daglegum samskiptum við á tvíbýlinu á Uxahrygg á æskuárum sínum, en voru ekki blóðtengdir honum. Hann leit á þetta fólk svo nærri sér í vináttu, að það jafngilti ættartengslum. Svona var hans hjartahlýja til okkar í Suðurbænum á Uxahrygg. Það er gott og fyrir það vil ég þakka, að hafa átt samleið með þessum góða manni. Ég kveð hann með virðingu og þakklæti.

Ég sendi eftirlifandi konu hans, Sigurvinu Samúelsdóttur, börnum og fjölskyldum þeirra einlægar samúðarkveðjur.

Magnús L. Sveinsson.