Mótmæli Tíu 100 manna hópar litaðir eftir handtalningu, eða þúsund manns á um 600 fm svæði, og því lítið eftir af Austurvelli.
Mótmæli Tíu 100 manna hópar litaðir eftir handtalningu, eða þúsund manns á um 600 fm svæði, og því lítið eftir af Austurvelli.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Talning á mótmælendum er alltaf áætlun hjá lögreglunni en ekki nákvæm vísindi.

Baksvið

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Talning á mótmælendum er alltaf áætlun hjá lögreglunni en ekki nákvæm vísindi. Talning á bak við áætlaðan fjölda er þó vísindaleg og þegar lögreglan hefur handtalið eftir að mótmælin eru yfirstaðin er hún yfirleitt nærri lagi. Lögreglan ætlar þó að hætta að telja mótmælendur á Austurvelli, en hún varð fyrir töluverðri gagnrýni eftir að hafa gefið upp allt aðra tölu en skipuleggjendur mótmælanna. Lögreglan áætlaði að í kringum 10 þúsund manns hefðu mætt á Austurvöll þann 4. apríl sl. en mótmælendur sögðu að allt að 25 þúsund manns hefðu mætt. Eftir að hafa rýnt í vísindin á bak við talninguna er ljóst að tölur lögreglunnar eru mun nákvæmari.

Í Eyjafréttum sagði Geir Jón Þórisson, fv. yfirlögregluþjónn, að ef göturnar í kringum Austurvöll væru einnig taldar með Austurvelli kæmust 10-12 þúsund manns fyrir. „Allt tal um að 25 þúsund manns hafi verið á staðnum er út í hött,“ sagði Geir Jón við Eyjafréttir.

Fólk stóð á um 5.700 fm

Á myndinni hér til hliðar má sjá hvernig lögreglan handtaldi mótmælendur sem voru á Austurvelli þann 4. apríl. Á henni eru taldir 1.000 einstaklingar á svæði sem er mjög varlega áætlað 500 fermetrar en er sennilega nær 600. Ef allur Austurvöllur er mældur, horn í horn, mælist hann um 7.200 fermetrar. Þá á eftir að draga frá m.a. um 6-700 fermetra svæði sem liggur bak við girðinguna sem lögreglan hafði komið upp, rúmlega 20 bifreiðar sem sátu fastar í Pósthússtræti þegar mótmælin fóru fram, svæði í kringum sviðið, tré, styttur og vegg sem liggur meðfram Vallarstræti. Á að giska er því hægt að draga frá a.m.k. 1.500 fermetra, sem þýðir að fólk stóð á u.þ.b. 5.700 fermetrum.

Miðað við að tveir einstaklingar væru á fermetra væru því um 11.400 manns mætt. Lögreglan telur að þéttnin hafi þó verið minni og áætlar að hún hafi verið um 1,7 á hvern fermetra. Þá væri fjöldinn um 9.500 manns. Til að koma 22.000 manns inn á Austurvöll þyrfti þéttnin að vera um þrír einstaklingar á hvern fermetra, sem þýðir að á svæðinu sem talið var á myndinni hér til hliðar þyrftu að vera amk 1.500 manns.

Eru nærri lagi

„Talan sem lögreglan gefur út um fjölda er bara áætlun og það væri mjög sérstakt ef við myndum hitta akkúrat á töluna,“ segir Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins.

„Þegar hálftími er liðinn af viðburði er hámarkinu yfirleitt náð. Þá er kominn stöðugleiki í hópinn og fólk er hætt að streyma að. Hálftími er þumalputtareglan í þessu en þá förum við á hæsta punkt og tökum yfirlitsmynd, sjáum hversu margir eru á hverju svæði og berum saman við þéttnilíkan sem við höfum.“

Líkanið getur sagt til um hve margir einstaklingar eru komnir saman á hverjum fermetra og er borgarvefsjáin notuð til að mæla fermetrafjöldann. „Við skiptum Austurvelli upp í 10 mismunandi svæði þar sem hvert svæði er mælt í fermetrum. Svo er þéttnin á hverju svæði metin og notum við leiðbeiningar til viðmiðunar.

Það eru trúlega betri og flottari leiðir til að gera hlutina en þær taka lengri tíma. Til að athuga hvort við séum á réttri leið höfum við verið að handtelja og berum saman myndir við líkan sem við höfum í tölvunni og við erum nokkuð nærri lagi.“

Byrjuðu að telja vegna þrýstings

Lögreglan hætti að gefa upp áætlaðan fjölda í „búsáhaldabyltingunni, en byrjaði aftur vegna þrýstings frá fjölmiðlum og vildi lögreglan leggja sitt af mörkum að almenningur fengi sem bestar fréttir. En áætlanirnar völdu núningi. Forsvarsmenn mótmælanna hafa sakað lögreglu um að vantelja og þeir sem mótmælin beindust gegn sökuðu lögreglu um að vera hliðholla mótmælendum.

„Við byrjuðum á þessu aftur árið 2010 en áður var þetta ekki gert með svona vísindalegum hætti,“ segir Arnar.

„Eftir því sem fjöldinn verður hærri þá hækka skekkjumörkin.

Við teljum okkur vera að gera nokkuð vel. Við erum ekki að vefengja hluti sem aðrir eru að gera en þeir fá allt aðra tölu þegar þeir standa á hornum og telja í 90 mínútur – þetta er ekki sami hluturinn.“

Lögreglan hefur ekki verið með flygildi eða dróna við að taka myndir en lögreglan úti í hinum stóra heimi hefur verið að notast við slíka tækni til að telja mannfjölda. „Þetta er sú aðferð sem við höfum verið að nota til að geta svarað fjölmiðlum fljótt og örugglega.“