Agnes Bragadóttir
agnes@mbl.is
Helgi Grímsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir að í sumar verði ákveðnar breytingar á því hvernig borgin rekur smíðavelli fyrir grunnskólabörn.
„Ég svara spurningunni um það hvort búið er að afleggja smíðavellina með því að segja já og nei,“ sagði Helgi í samtali við Morgunblaðið í gær.
„Starfsemi smíðavalla á liðnum árum hefur snúist um það að við höfum keypt tilbúinn efnivið, tilsagaðan, og börnin hafa verið að búa til samræmd hús,“ sagði Helgi.
Nú hafi verið ákveðið að breyta til, taka inn mikið opnari efnivið, þannig að börnin muni starfa við fjölbreyttari störf í ákveðnum smiðjum í sumar. „Þau munu vinna úr efniviðnum í anda endurnýtingar, sjálfbærni og sköpunar, í stað þess að vera í þessu fasta formi að smíða eingöngu stöðluð hús. Þannig vinna þau úr fjölbreyttari efnivið og endurnýta meira. Við viljum hafa dýpri hugsun á bak við þetta og virkja krakkana meira til sköpunar og margvíslegri vinnu, hvort sem það er að smíða, líma, mála eða hvað eina. Við erum í raun að skipta um gír í anda aðalnámsskrár,“ sagði Helgi.
Spurður hvort í þessum breytta rekstri fælist sparnaður fyrir Reykjavíkurborg sagði Helgi: „Það var nú ekki markmiðið en við vitum að með endurnýtingu erum við ekki að kaupa eins dýran efnivið.“
Helgi segir að smíðavellirnir hafi verið misjafnlega vinsælir hjá krökkum. Í ákveðnum hverfum hafi þeir notið mikilla vinsælda en í öðrum ekki. „Við erum með þessu að ganga í takt við áherslur í námskrám leikskóla og grunnskóla,“ sagði Helgi.