Hópurinn „Oft taka söngvarar sig mjög alvarlega en nú gerum við grín að okkur,“ segir einn söngvara ÓP-hópsins.
Hópurinn „Oft taka söngvarar sig mjög alvarlega en nú gerum við grín að okkur,“ segir einn söngvara ÓP-hópsins. — Morgunblaðið/Golli
„Söngvarahúmorinn fær að njóta sín í þessari sýningu,“ segir Erla Björg Káradóttir, einn félaga Óp-hópsins um sýninguna Ópera hvað! sem hópurinn flytur í Salnum í kvöld, laugardag, kl. 20.

„Söngvarahúmorinn fær að njóta sín í þessari sýningu,“ segir Erla Björg Káradóttir, einn félaga Óp-hópsins um sýninguna Ópera hvað! sem hópurinn flytur í Salnum í kvöld, laugardag, kl. 20. Í sýningunni er tekist á við allskyns hugmyndir um óperusöngvara og óperusöguna; hulunni á að svipta af óperunni og kynna sögu listformins á léttan hátt. Erla Ruth Harðardóttir er leikstjóri, um söng og leik sjá Bylgja Dís Gunnarsdóttir, Egill Árni Pálsson, Erla Björg Káradóttir, Hörn Hrafnsdóttir og Rósalind Gísladóttir, og þá leikur Antonía Hevesí á flygilinn.

Svolítið ýkt – eins og óperan

„Í sýningunni stiklum við á stóru yfir sögu óperuformsins, frá barokki að síðrómantík, en við tökumst meira á við formið sjálft, við mýtur og staðalímyndir, við raddtýpurnar, og gerum svolítið grín að forminu og meira að segja söngvurunum í óperum,“ segir Erla Björg Káradóttir, einn söngvara Óp-hópsins.

– Þið gerið semsagt grín að forminu sem þið haldið væntanlega mikið upp á, óperunni?

„Já! Oft taka söngvarar sig mjög alvarlega en nú gerum við grín að okkur. Enda er margt mjög fyndið í þessu,“ segir hún og hlær.

– Býður óperan upp á grín?

„Svolítið – við verðum að viðurkenna það. En við ætlum líka að njóta okkar sem söngvarar í sýningunni. Við flytjum gullfallegar aríur, sannkallaðar rjómaaríur og dramatískar líka, mikið af fallegri tónlist fær að hljóma, í bland.“

Erla Ruth er leikstjóri sýningarinnar og Erla Björg segir hana ekkert hafa vitað um óperur þegar hópurinn fékk hana til verksins. „Síðan höfum við upplýst hana um margt en það er mjög gott að hún komi til samstarfsins með allt annan bakgrunn. Það þarf að útskýra fyrir áhorfendum ýmislegt sem okkur söngvurum finnst eðlilegt. Hún sér kómísku hliðina á þessu og fyrir vikið tökum við þetta alla leið. Þetta verður svolítið ýkt – eins og óperan í rauninni er.“

Höfum haldið dampi

Óp-hópurinn hefur nú starfað síðan 2010. „Við höfum verið ógeðslega dugleg,“ segir Erla Björg. „Við byrjuðum með hádegistónleika í Íslensku óperunni og fórum síðan að setja upp heildstæðar sýningar eins og kvennaóperu eftir Puccini, Hans og Grétu fyrir börn og sýningu um Mariu Callas sem Bylgja Dís skrifaði handritið að ...

Þetta eru tarnir en við reynum að vera með eina sýningu eða tónleika á önn, og það hefur tekist. Við höfum haldið dampi, sem er frábært því svona höldum við okkur við í söngnum og minnum á okkur.“ efi@mbl.is