Síðasta gáta var sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Í háskólanum haldið er. Á hlaupum oft mig þrýtur. Baga sú er birtist hér. Boð sem máske flutt er þér.

Síðasta gáta var sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Í háskólanum haldið er.

Á hlaupum oft mig þrýtur.

Baga sú er birtist hér.

Boð sem máske flutt er þér.

Harpa á Hjarðarfelli segir að nú sé það orðið þannig að aðra hverja viku komi helgarblöðin ekki fyrr en síðdegis á þriðjudegi svo að það sé ekki mikill tími til að grufla ef svarið kemur ekki strax. Þá er að spreyta sig á gátunni.

Í háskólum halda menn erindi.

Hlaupið er erindisleysu.

Bögurnar eru eitt erindi.

Erindi um komandi reisu.

Árni Blöndal á þessa lausn:

Í háskóla flutningur erinda er.

Mig erindið stundum þrýtur.

Baga erindi eitt og sér.

Erindin til mín sópast hér.

Helgi Seljan svarar:

Margt er í háskóla erindi haldið,

hlaupandi þrýtur mig erindið títt.

Erindi í kveðskapnum ýmsu fá valdið,

erindi fæ ég. Þau trufla mig lítt.

Helgi R. Einarsson leysir gátuna þannig:

Ljós í myrkri líkar mér

er ljóða- stend á -tindi.

Hér er lausnin: Hefst á er-

og hangir þar við -indi.

Þessi er skýring Guðmundar Arnfinnssonar:

Erindi flytja fræðimenn.

Á flótta mig erindi þrýtur.

Í Mogga hér birtist erindi enn.

Erindi máske þú hlýtur.

Og bætir við limru:

Til forsetans flýtti sér Mundi

sá fagnaði Gunnlaugs kundi

en neikvædd gaf ans

við erindi hans.

Í styttingi sleit þeirra fundi.

Sendir síðan nýja gátu, – „þessi gáta er í léttari kantinum“:

Biskups sess er sæti það.

Sést þar tróna presturinn.

Dómari upp þar dóminn kvað.

Dormar þar lærifaðirinn.

Gömul vísa í lokin:

Vertu ætíð var um þig

þó vel þér þyki ganga.

Treystu ekki á lukku langa;

hún leikur jafnt við báða vanga.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is