[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handknattleikskonan þrautreynda Hanna Guðrún Stefánsdóttir hefur skrifað undir nýjan samning við Stjörnuna um að leika með liði félagsins næstu tvö árin. Hanna Guðrún hefur verið í herbúðum Stjörnunnar í sex ár og varð bikarmeistari með liðinu í...

Handknattleikskonan þrautreynda Hanna Guðrún Stefánsdóttir hefur skrifað undir nýjan samning við Stjörnuna um að leika með liði félagsins næstu tvö árin. Hanna Guðrún hefur verið í herbúðum Stjörnunnar í sex ár og varð bikarmeistari með liðinu í febrúar.

ÍBV hefur fengið leikmann að láni frá enska B-deildarfélaginu Derby County og mun hann spila með liðinu næstu 2-3 mánuði í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

Leikmaðurinn er enskur og heitir Charles Vernam . Hann er 20 ára gamall og leikur sem framherji eða sóknarsinnaður miðjumaður. Hann hefur verið á mála hjá Derby frá árinu 2012 og hefur að undanförnu leikið með U21-liði félagsins, sem er í harðri toppbaráttu í efstu deild.

Vernam mun fá leikheimild á næstu dögum en missir væntanlega af fyrsta leik ÍBV í Pepsi-deildinni, gegn ÍA á Hásteinsvelli á morgun klukkan 17.

Spánverjinn David Silva missir af næstu leikjum Manchester City, þar á meðal seinni undanúrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Real Madrid á miðvikudaginn kemur. Manuel Pellegrini , knattspyrnustjóri City, staðfesti þetta á fréttamannafundi í gær og sagði Silva vera tognaðan í aftanverðu læri. Tognunin væri ekki alvarleg en myndi kosta hann allt að þriggja vikna fjarveru.

Knattspyrnumaðurinn Gauti Gautason , sem til þessa hefur leikið með KA, er genginn til liðs við erkifjendurna í Þór og spilar með þeim í 1. deildinni í sumar. Gauti er tvítugur varnarmaður sem festi sig í sessi í liði KA árið 2014 en missti síðan af nær öllu síðasta tímabili eftir að hann braut bein í rist að loknum þremur umferðum í 1. deildinni.

Markvörðurinn Jóhann Ólafur Sigurðsson gæti komið við sögu hjá Fylkismönnum í fyrstu umferðum Íslandsmótsins í knattspyrnu, en hann gekk í gær frá félagaskiptum til þeirra. Jóhann lék með Fylki árið 2006 en hefur annars varið mark Selfyssinga lengst af. Hann lagði þó hanskana á hilluna haustið 2013 vegna náms erlendis. Jóhann sagði við mbl.is að þetta væri aðeins varúðarráðstöfun. Hann er markvarðaþjálfari hjá Fylki, sem aðeins er með einn markmann í sínum hópi sem stendur, Ólaf Íshólm Ólafsson .