Margrét Óskarsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 14. maí 1948. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 24. apríl 2016.

Foreldrar hennar voru Óskar Elías Björnsson, f. 27.10. 1917, d. 4.12. 1989, og Sigríður Sigurðardóttir, f. 22.6. 1922, d. 22.9. 2004. Systkini Margrétar eru: a) Ármann Halldór, f. 20.4. 1941, d. 23.11. 1984.b) Guðrún, f. 26.5. 1945. c) Óskar Elías, f. 17.4. 1955. d) Hannes Kristinn, f. 19.12. 1957, d. 21.1. 1982. d) Guðný, f. 29.3. 1959. e) Ármey, f. 19.8. 1960.

Þann 10. desember 1971 giftist Margrét Auðbergi Óla Valtýssyni, f. 15.12. 1944, d. 5.6. 1994. Foreldrar hans voru Valtýr Brandsson og Ásta Guðjónsdóttir og áttu þau 12 börn og eina uppeldisdóttur. Margrét og Auðberg Óli eignuðust þrjú börn: 1) Sigríður Ósk, f. 2.7. 1966, d. 10.1. 1967. 2) Valtýr, f. 19.4. 1976. Hann er í sambúð með Jónínu Margréti Kristjánsdóttur, f. 26.4. 1983, og eiga þau tvo syni: Auðberg Óla, f. 20.6. 2013, og Hilmar Darra, f. 12.11. 2015. 3) Ósk, f. 3.9. 1980. Hún á fjögur börn: a) Sigríður Margrét, f. 3.10. 1999. b) Auðbjörg Helga, f. 19.2. 2001. c) Indíana Kolbrún, f. 31.5. 2010, og d) Már Óli, f. 15.4. 2015.

Útför Margrétar verður gerð frá Landakirkju í dag, 30. apríl 2016, klukkan 11.

Elsku Magga, fína systir og frænka, sem hefur barist við krabbamein og var tekin fljótt frá okkur eftir erfið veikindi skilur eftir brest í hjörtum okkar. Við Ármey geymum allar þessar fallegu minningar um þig og eigum allar myndirnar sem við höfum tekið af þér. Og það var alltaf hægt að leita til þín ef mann vantaði hjálp við að festa rennilás eða borða. Við vitum að þú ert kominn til Sigríðar Óskar og Óla, mömmu og pabba, Ármanns, Hannesar og Hjartar. Þau passa vel upp á þig.

Elsku stóra systir mín,

blíðleg, hlý og góð.

Hún er líka sæt og fín,

viskufull og fróð.

Hún margt kenndi mér,

um lífið okkar langa.

Systir góð, þessa löngu leið

ég vil með þér ganga.

Þú átt faðm fyrir mig,

til að knúsa blítt.

Ég á faðm fyrir þig,

þar sem ávallt er hlýtt.

Ég ann þér mjög,

elsku stóra systir.

Gæti samið um það 100 lög,

ásamt öllu sem mig lystir!

(Gíslunn 1994)

Elsku Valtýr, Jónína Margrét, Ósk, Viðar og fjölskyldur, okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Guðný Óskarsdóttir og

Ármey Valdimars.