[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Nordal: Choralis. Sjostakovitsj: Píanókonsert nr. 2. Bartók: Rúmenskir þjóðdansar. Lutosławski: Konsert fyrir hljómsveit. Steven Osborne píanó; Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi: Daníel Bjarnason. Fimmtudaginn 28.4. kl. 19:30.

Þjóðlegar rætur fléttust um flest viðfangsefni Sinfóníutónleika s.l. fimmtudagskvölds í Hörpu. Beint sem óbeint um nýtt eða gamalt – eða ,uppi og niðri og þar í miðju‘ eins og Eysteinn munkur kvað á 14. öld.

Og einmitt sjálft Liljulagið fornfræga, eitt auðþekktasta allra íslenzkra þjóðlaga fyrir sérkennilegan októtónískulegan tónstiga þess, gekk sem rauður þráður gegnum allt Choralis [14'] eftir Jón Nordal frá 1982 – þó ekki kæmi það skandínavísku landsliðunum að gagni í Kontrapunktkeppninni í Ósló átta árum síðar, eins og rifjaðist óhjákvæmilega upp við endurheyrn þessa litauðuga og síferska meistaraverks í frábærum flutningi SÍ að níræðum höfundi þess nærstöddum. Öðru nær. Bræðraþjóðir okkar höfðu greinilega ekki unnið heimavinnu sína þegar íslenzk tóndæmi komu fyrst við sögu í keppninni (það átti eftir að lagast) og stóðu gjörsamlega á gati. Er gráglettið að minnast þess hvað íslenzk nútímatónskáld voru síðan sögð „alþjóðleg og með öllu laus við hvers konar þjóðernisleg einkenni“ (..!)

Píanókonsert Dmítríjs Sjostakovitsj nr. 2 í F, saminn fyrir útskriftartónleika Maxíms sonar hans í Moskvu 1957, var ómengað eyrnakonfekt í hrífandi túlkun skozka píanistans Stevens Osborne og þétt samtvinnuðum meðleik SÍ. Þótt tónskáldið vildi síðar lítið gera úr þessu fjöruga ,skemmtiverki‘, stóð það samt vel fyrir sínu, ekki sízt í dreymandi hæga miðþættinum sem syngjandi undramýkt einleikara og hljómsveitar lyfti í eftirminnilegar hæðir. Osborne kom síðan rækilega á óvart með ókynntu aukalagi úr óvæntustu átt, nefnilega Things Ain't What They Used To Be úr smiðju Duke Ellington, við að vonum stormandi undirtektir. Má með sanni segja að hrikti í stoðum hefðar þegar jafnmikil fjölbreytni fær að geisa í helgustu véum – en að vísu líka við hæfi, þar eð Sjostakovitsj var sjálfur allhændur að djassi.

Þjóðlegheitin jukust til muna eftir hlé í Rúmenskum þjóðdönsum Bélu Bartóks, sem flestir þekkja frá stuttri píanósvítu hans er margir píanónemendur hafa spreytt sig á. Í útgáfunni fyrir litla hljómsveit frá 1915/17 kemur sígaunaskotinn dreifbýlistónninn enn betur fram en á slaghörpu (gott ef ekki litla Es-klarínett Arngunnar Árnadóttur hafi t.d. átt að herma eftir kónískri tarógató -skálmeiu) og var margt dáfallega flutt, þótt vantaði stundum herzlumun ástríðuheiftar.

Síðasta atriði þessarar vel samsettu dagskrár rauðrar tónleikaraðar bar enn talsverð einkenni þjóðlegrar tónrækni, enda mun fyrirmynd Witolds Lutoslawskis að Konserti fyrir hljómsveit [32'] frá 1950-54 hafa verið samnefnt snilldarverk Bartóks frá 1943 – þess er líklega tókst öllum öðrum bezt að sameina nútímatónmál 20. aldar aldaniði þjóðlaga. Áhrifin heyrðust kannski skýrast í Corale hluta lokaþáttar, þó varla næði Lutoslawski alla leið upp í lagræna dýrð ungverska verksins, þá glitraði víða á litagleði og kappsamri atorku í sópandi flottum flutningi SÍ; ekki sízt í glampaglæstum málmblæstri Capriccio-miðþáttarins, að ekki sé minnzt á örveikt hindurvitnaþrungið kontrabassaplokkið í upphafi lokaþáttar.

Daníel Bjarnason skilaði hér glimrandi góðu dagsverki, enda var honum og hljómsveitinni tekið við hæfi með kostum og kynjum.

Ríkarður Ö. Pálsson

Höf.: Ríkarður Ö. Pálsson