Þorvaldur Skúlason listmálari fæddist á Borðeyri í Strandasýslu 30. apríl 1906. Foreldrar hans voru Skúli Jónsson, f. 23.11. 1870, d. 25.9.

Þorvaldur Skúlason listmálari fæddist á Borðeyri í Strandasýslu 30. apríl 1906. Foreldrar hans voru Skúli Jónsson, f. 23.11. 1870, d. 25.9. 1915, þá verslunarstjóri Riis-verslunar þar, síðar kaupfélagsstjóri Kaupfélags Húnvetninga á Blönduósi og framkvæmdastjóri Sláturfélags A-Húnvetninga, og k.h. Elín Theódórs, f. 24.8. 1866, d. 7.11. 1935, húsfreyja.

Foreldrar Skúla voru Jón Þórðarson, bóndi á Auðólfsstöðum í Langadal, A-Hún., og k.h. Guðrún Kristmundsdóttir. Foreldrar Elínar voru Theódór verslunarstjóri á Borðeyri, sonar Ólafs Pálssonar prófasts í Stafholti í Borgarfirði og síðar dómkirkjuprests í Reykjavík, og k.h. Arndís, dóttir Guðmundar Vigfússonar prófasts á Melstað í Miðfirði, V-Hún.

Fjórtán ára varð Þorvaldur messadrengur á farþegaskipinu MS Gullfossi, en ári síðar fótbrotnaði hann og stytti sér stundir með teikningum. Haustið 1921 fór hann til Reykjavíkur og fékk tilsögn hjá Ásgrími Jónssyni.

Þorvaldur stundaði listnám við listaháskólann í Ósló 1927-1930 og síðar í París. Hann dvaldist í Kaupmannahöfn og París í sjö ár og enn fremur á Ítalíu og á Sikiley. Hann var listmálari í Reykjavík frá 1940 eftir að hafa flúið heimsstyrjöldina ásamt konu sinni og nýfæddu barni þeirra.

Þorvaldur var einn af frumkvöðlum abstraktlistar á Íslandi og hélt fjölda listsýninga á Íslandi og á Norðurlöndunum, auk sýninga í fjölmörgum öðrum þjóðlöndum. Verk hans eru til sýnis í virtum söfnum víða um heim.

Hann var kennari í Handíða- og myndlistaskóla Íslands og við Myndlistaskóla frístundamálara. Hann átti sæti í safnráði Listasafns Íslands og sat í mörgum dómnefndum myndlistarmanna.

Kona Þorvaldar var Astrid Fugmann, en systir hennar var Tove, kona Jóns Engilberts málara. Astrid kunni ekki vel við sig á Íslandi, þau skildu og hún flutti til Danmerkur ásamt dóttur þeirra, Kristínu.

Þorvaldur lést 30.8. 1984.