Baldur Jónsson fæddist 15. desember 1947. Hann lést 16. apríl 2016.

Útför Baldurs fór fram 25. apríl 2016.

Með þessum fáu orðum langar mig að minnast Baldurs Jónssonar frá Ísafirði. Minningarnar bera mig til æskuáranna á Ísafirði. Stór, fullskeggjaður, kraftalegur maður ýtir snjónum í gulri JCB-gröfu af götunum. Hann er alltaf að, iðinn og duglegur. Stundum gaf hann sér tíma til að veifa ungum dreng er fylgdist með verkum hans af aðdáun en stundum sá hann ekki piltinn er gekk hjá til eða frá skóla. Síðar kynntist ég þessum stóra, nú rakaða, kraftalega manni er ég hóf sambúð með einni af þremur dætrum hans. Frá þeirri stundu kynntist ég betur manninum er ég hafði fylgst með af aðdáun á mínum yngri árum. Baldur gaf sér alltaf tíma til að ræða gamla tíma, rifja upp prakkarastrik með Braga, tvíburabróður sínum, eða er hann stundaði sjómennsku með föður mínum. Stutt var í hláturinn hjá honum og sagnagleði hafði hann drjúga.

Baldur var ekki mikið fyrir það að vera í fjölmenni en allir sem hann þekktu vissu að hann hafði yndi af söng og á hans yngri árum fékk hann stundum að „taka í“ þegar þannig lá á honum á dansleik. Baldur hafði mun meira gaman af því að horfa á góðar kvikmyndir og safnaði þeim ófáum og horfði á aftur og aftur.

Baldur hafði yndi af sjómennsku, talaði stundum um það með söknuði að hafa ekki komist oftar á sjóinn er hann var yngri. Veikindi gerðu það að verkum að hans sjómennska varð styttri en hann hafði sjálfur óskað. Hann vann hjá Ísafjarðarbæ í ríflega þrjátíu ár og þar af lengst af í áhaldahúsi bæjarins, við vinnu á gröfu og önnur verkamannastörf. Er Baldur veiktist og þurfti að hverfa frá störfum fjárfesti hann í lítilli trillu, Ögninni, með bróður sínum. Hafði hann mikið yndi af því að dvelja í bátnum, vinna við hann og sigla um djúpið og stundum veiða smá.

Það tók því á Baldur að þurfa, vegna veikinda sinna, að hverfa frá æskuslóðum sínum og flytjast búferlum til Reykjavíkur. Reykjavík var staður er Baldur þekkti ekki vel og tók það smá tíma fyrir hann að sættast á flutninginn en alltaf tók hann veikindum sínum af æðruleysi. Dugnaðurinn í þessum kraftalega manni hvarf ekki og tóku við ný verkefni, líkt og á gröfunni forðum en þau reyndust Baldri erfiðari en verkin í denn.

Baldur var nýfluttur í Mörkina og þann stað elskaði hann. Maturinn, herbergið, þjónustan, fólkið og umhverfið var honum að skapi. Hann blómstraði og fannst sem hann væri nú aftur kominn heim. Þeir allt of fáu mánuðir er hann átti í Mörkinni voru yndislegir. Baldur dafnaði sem aldrei fyrr og því var það okkur reiðarslag er hann veiktist snögglega og eftir frekar stutta legu féll hann frá. Í þessum stóra kraftalega manni bjó sál er elskaði sína og er hans sárt saknað af þeim er hann elskuðu.

Ég gái út um gluggann minn

hvort gangir þú um hliðið inn.

Mér alltaf sýnist ég sjái þig.

Ég rýni út um rifurnar.

Ég reyndar sé þig alls staðar.

Þá napurt er, það næðir hér

og nístir mig.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson) Ingi Þór Ágústsson.

Elsku afi okkar. Okkur finnst skrítið að þú sért dáinn. Þú varst alltaf á sjúkrahúsi og við fengum lítið að gera með þér og sjá þig nema heimsækja þig þangað. Við fórum oft saman í bíltúr og keyptum ís. Við munum eftir því að þú varst hjá okkur á jólunum og áramótunum en þú gast ekki farið út með okkur að horfa á flugelda heldur þurftir að horfa út um gluggann, stundum vorum við líka inni hjá þér að horfa. Síðan komstu oftast í afmælin okkar, en það var bara alltaf svo erfitt fyrir þig að ganga upp stigann til að komast heim til okkar.

Elsku afi, við söknum þín mikið,

Kristófer Snær og

Katrín Lóa.