Stytting vinnuvikunnar fær ný viðmið í Venesúela

Stundum hefur sú umræða skotið upp kollinum á Vesturlöndum hvort ekki sé ástæða til þess að stytta hina hefðbundnu vinnuviku um nokkra klukkutíma. Fáum hefur þó tekist að ná viðlíka árangri í þeim efnum og stjórnvöldum í Venesúela, sem tilkynntu í vikunni að opinberir starfsmenn þar myndu eingöngu þurfa að mæta í vinnuna á mánudögum og þriðjudögum.

Ráðstöfunin er að vísu eingöngu til bráðabirgða, en henni er ætlað að spara rafmagn í landinu. Til viðbótar við þær sparnaðaraðgerðir hefur einnig verið gripið til þess bragðs að taka mestallt rafmagn af landinu í fjóra klukkutíma á hverjum degi. Ástæða rafmagnsskortsins er í sumum vestrænum fjölmiðlum, sem sýna stjórnarfarinu í landinu óþarflega mikinn skilning, einkum rakin til vatnsskorts og þurrkatímabils.

Vatnsskortur dugar þó að sjálfsögðu ekki til að skýra vanda Venesúela. Það sem heimurinn horfir nú upp á og almenningur í landinu þarf að þola er einfaldlega enn eitt skipbrot áætlunarbúskaparins.

Það segir sitt um ástandið að þegar er farið að örla á óeirðum í höfuðborginni Caracas. Það hlýtur því að styttast í þann dag að almennir borgarar í Venesúela hafni Chavismanum og þeim skaða sem hann hefur valdið.