Orð eru ekki bara til alls fyrst, rétt eins og fólk og bækur eiga þau sér líka örlög svo sem kunnugt er. Nægir að benda þar á ágæta bók um orð og orðtök sem dregur nafn af þessu: Örlög orðanna eftir Halldór Halldórsson málfræðiprófessor.
Hér skulu einkum tekin fyrir ein slík örlög: Nýlega reyndi ég að nota orðið stillas hér á þessum vettvangi en skemmst er frá því að segja að það tókst ekki. Í próförk breyttist það í stillans .
Hvort skal nú segja stillas eða stillans ? Svo virðist sem seinni orðmyndin, sú með n-inu, sé orðin alveg ríkjandi. Ekki þarf lengi að gúggla til að átta sig á því. Slíkt stemmir ekki við mitt æskumál, mér finnst eins og á þeirri tíð hafi aldrei verið talað um annað en stillasa , n-laust, og man hvað mér fannst það furðulegt þegar ég fyrst sá þennan rithátt með n-inu. Ámóta hissa varð ég þegar ég áttaði mig á því út frá rithætti að til væri fólk sem kaus að skrensa en ekki að skransa . Eða þurfti að kljást við þá sem ganga í grúbbur fremur en grúppur , kópera í stað þess að kópíera , drekka alkahól og leika á saxafón í míkrafón , eða enn verra, mígrafón , kjósa óhikað slík orðsifjaspell fremur en að halda sig með kórréttum hætti við alkó , saxó og míkró .
Í gamla daga mátti líka oft sjá ritháttinn brakki í stað braggi þó ekki heyrðist munur í mæltu máli. Það skal þó viðurkennt að út frá uppruna í enska orðinu barack mætti alveg verja k-stafsetninguna. Engan gat grunað þá að fram ætti eftir að koma Bandaríkjaforseti með þessu nafni. Hvort finnst lesendum nú Braggi eða Brakki eðlilegra íslenskt gælunafn á þeim ágæta manni?
Hvað um það, orðsifjafræðin stendur með mér í stillasamálinu. Þetta er tökuorð úr dönsku, þar sem fyrirbærið heitir stillads . Samkvæmt Dansk etymologisk ordbog sagt vera stillas á norsku, stellasje og stillaasch á lágþýsku, Stellage á þýsku og þangað komið beint úr hollensku, stellage , og hafði myndast þar í máli þannig að franska endingin -age skeyttist við alkunna sögnina stellen . Hvergi neitt N.
Ég leitaði samt til Málfarsbankans hjá arnastofnun.is um úrskurð í þessu máli og sá þar kveðinn upp þann Salómonsdóm að hvor tveggja rithátturinn teldist fullgildur og þar með væntanlega báðar orðmyndanirnar: „Bæði er til rithátturinn stillans og stillas.“
Enga frekari leiðsögn var því miður þar að finna um hvorn kostinn skyldi fremur velja, hvor væri „réttari“ né heldur reynt að velta fyrir sér hvernig og hvers vegna þetta dularfulla og óþekkta N hafði klifrað upp í stillasinn.
Nei, í stað þess að skera úr um þetta og taka almennilega afstöðu og þora að standa með henni kaus bankaráðið að bæta böl sitt og okkar með því að benda á eitthvað annað: „Frekar er þó mælt með orðunum verkpallur og vinnupallur.“
Þórarinn Eldjárn